21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vil aðeins í áframhaldi af þeim ummælum, sem féllu í sambandi við þetta mál, bæði við síðustu umr. og eins þegar það var flutt hér fram og frestað, vegna þess að allshn. hafði ákveðið að kalla landssímastjórn á fund til þess að fá hjá honum skýringar á einstökum atriðum, geta þess, að þessi fundur hefir ekki verið haldinn og þessar skýringar hafa þess vegna ekki fengizt.

Þar sem þessi skylda allshn. hefir verið vanrækt, sjáum við, ég og hv. þm. Snæf., sem annars hefðum kosið nokkrar breyt. á frv., ekki ástæðu til að bera þessar brtt. fram, og allra helzt af því, að ekki er um efnisbreyt. að ræða, heldur eingöngu orðabreyt, og lagfæringar. Þar sem þeir hv. þm. stjórnarflokkanna, sem sæti eiga í allshn., hafa ekki viljað gera þessa skyldu sína, að fá skýringar hjá landssímastjóra á þeim atriðum, sem þeir sjálfir viðurkenna, að þeir skilji ekki, þá teljum við ekki ástæðu til að bera neinar brtt. fram.

Með þessum fyrirvara læt ég útrætt um þetta mál.