21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Hér er það mál á dagskrá, sem mér sýnist, að gefi tilefni til að spyrjast fyrir um eitt atriði, sem mér er hugleikið að fá um nokkrar upplýsingar. — Hér er verið að tala um ráðstafanir til varnar því, að skipum sé leiðbeint við ólöglegar fiskiveiðar, og er þar, svo sem vænta mátti og ég tel réttmætt, svo sagt, að það skuli vera á valdi ríkisstj. og starfsmanna hennar að hafa ritskoðun um símann, sérstaklega í því sambandi, er snertir orðaskipti milli skipa og lands. Ég skal ekkert um það segja, að þetta sé óviðeigandi í þessu efni, en upp á síðkastið hefir komið hér í ljós annað atriði. sem marga hefir furðað á, og það er, að bæjarsíminn hér, sem allir héldu, að væri fullkomlegu öruggur, þannig að allir gætu talað þar saman um einkamál sín án þess að aðrir fengju vitneskju um, er ekki lengur svo öruggur, að menn geti treyst því, að það, sem þar er talað, fari ekki lengra. Ég veit, að það hefir vakið mjög mikla athygli og undrun hér í bæ, er það kom í ljós, að eftirlit var haft með því af stjórnarvöldunum, hvað talað er í bæjarsímann, sem ásamt með Hafnarfjarðarsímanum er sjálfvirkt símakerfi og á þess vegna að vera fullkomlega öruggt. Ég vil spyrja um þetta atriði hér, af því að það kom fyrir mig í vetur, er ég talaði hér í síma, að mér fannst sem komið væri inn á línuna og hlerað. Mér þótti þetta undarlegt og spurðist strax fyrir um það hjá landssímastjóra — af því að ég náði ekki í bæjarsímastjóra — og hann svaraði því, að ég gæti verið alveg öruggur að þessu leyti, því að það væri ekki hægt að hlusta á samtöl manna í bæjarsímanum. Og þar sem landssímastjóri fullyrti þetta svona ákveðið, þá var ég alveg öruggur eftir þetta. En nú kemur það upp, að þetta hefir verið misskilningur hjá landssímastjóra, því að það er vitað, að stjórnarvöldin hafa notað bæjarsímann í því skyni að upplýsa um ólöglega meðferð varnings hér í Reykjavík. Mér þykir þetta merkilegt mál og ég veit, að það er ákaflega þýðingarmikið bæði fyrir þá, sem skipta við þessa stofnun, og fyrir stofnunina sjálfa, því að ef það er virkilega búið að vera — ef það þá hefir verið svo áður —, að menn megi talast við í síma án þess að eiga það á hættu, að síminn leki, þá er ég hræddur um, að afstaða manna til viðskipta við þá stofnun breytist allverulega. Mér sýnist þetta vera hliðstætt spursmál og það, sem hér er nú á dagskránni, og vildi spyrjast fyrir um það hjá þeim ráðh., sem með þessi mái fer, hvort það sé virkilega nú svo komið, að ekki sé lengur hægt að treysta því, að það, sem menn talast við í síma, fari ekki fleiri í milli. Síðan þetta atvik kom fyrir mig, hefir þetta atriði nokkrum sinnum borizt í tal milli mín og annara, og ég hefi þá fullyrt það eftir landssímastjóra, að það gæti ekki átt sér stað, að hlustað væri á samtöl manna í þessum sjálfvirka síma. En nú grunar mig, að þessar upplýsingar landssímastjóra hafi e. t. v. verið gefnar í því skyni, að ég ekki væri var um mig í símanum, ef þetta er þá ekki alveg ný breyting á fyrirkomulagi símakerfisins, að hægt sé að hlusta á samtöl manna. Ég held, að ef lög eru fyrir því, að þetta sé heimilt, þá sé full ástæða til að breyta þeirri löggjöf, svo að menn geti verið alveg öruggir um, að þeir talist við eins og undir fjögur augu í símanum. Það er að vísu satt, að landssíminn er þannig gerður, að engin trygging er fyrir því, að það, sem menn talast við, geti ekki heyrzt víðar. En þetta vita menn og vara sig því á því.

Að ég leyfi mér að gera þessa fyrirspurn er vitanlega ekki í því skyni að halda hlífiskildi yfir því sérstaklega, sem er þess eðlis, að skaðað geti land og lýð. Það eru stærri atriði, sem felast í þessu máli, heldur en það eitt, og er um öryggi borgaranna yfirleitt að ræða í þessu sambandi. — Ég veit sem sagt að það hefir vakið ákaflega mikla athygli þetta, sem nú er upplýst orðið, og væri mikilsvert að fá um það skýr og góð svör, hvernig þessu er háttað af hálfu ríkisvaldsins.