25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Í sambandi við frv. til laga um eftirlit með loftskeytum hefir verið deilt á mig, og það dregið í efa, að ég hafi haft heimild til þess að skipa tvo menn til þess að skoða og rannsaka loftskeyti til og frá veiðiskipum hér við land. Því hefir verið haldið fram, m. a. af hv. 5. þm. Reykv., að þessi aðferð mín, að láta skoða þessi loftskeyti í þetta „eina sinn“, væri hliðstæð því, að ég hefði án dómsúrskurðar látið hlusta á samtöl í símanum manna á milli hér í bænum, og að ég hefði á þennan hátt gert stjórnarframkvæmd án nægilegrar heimildar í lögum og skapað með því hættulegt fordæmi.

Það hlýtur að koma flestum á óvart, og ég vil segja, að það sé æðibroslegt, að ádeilan út af þessu atriði skuli einmitt koma frá hv. stjórnarandstæðingum, því að það eru einmitt þeir, sem í mörg undanfarin ár hafa haldið því fram, að óþarft væri að samþ. hið svokallaða „ömmufrumvarp“, sem var um heimild fyrir ríkisstj. til eftirlits með loftskeytum, vegna þess að ríkisstj. hefði næga heimild í lögum nr. 82 frá 1917 og reglugerð nr. 32/1918. Og það eru einmitt andstæðingarnir, sem í blöðum sínum hafa svo oft þótzt vera að deila á fyrrv. ráðh., þar á meðal auðvitað tvo dómsmrh. sína, hv. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Skagf., fyrir það að hafa ekki notað þessa heimild. Í sambandi við þessa ádeilu út af uppljóstrun um þá afbrotamenn, sem fyrir endurgjald frá erlendum þegnum hafa haft það fyrir atvinnu að njósna um íslenzk varðskip og greiða þannig fyrir landhelgisbrjótum, hafa svo andstæðingarnir hafið ádeilu á lögreglu og lögreglustjóra fyrir að hafa samkv. dómsúrskurði þar um látið hlusta á samtöl í tilteknum símanúmerum hér í bænum, sem rökstuddur grunur hvíldi á, að notuð væru til þess að auðvelda lögbrot. En þetta var í hinu svokallaða bílstjóraverkfalli og í sambandi við uppljóstrun um leynivínsala nú fyrir skömmu. Þessar aðgerðir lögreglunnar og lögreglustjóra eru aðgerðir dómsvaldsins, sem ríkisstj. getur ekki haft og hefir því ekki haft neina íhlutun um. Það er því æðri dómstóla að skera úr því á sínum tíma. hvort undirrétturinn hefir í þessu tilfelli farið út fyrir verksvið skyldu sinnar.

Eins og menn sjá af þessu, er hér um tvö mál að ræða, annarsvegar stiórnarframkvæmd, sem ég á aðallega að svara fyrir, en það er uppljóstrun á afbrotum njósnaranna í landhelgismálunum. Hitt er dómsathöfn, sem er ríkisstj. og stjórnaframkvæmdum óháð. Mínar aðgerðir snerust á sínum tíma einungis að skoðun loftskeyta, en alls ekki að símtölum. Dómsúrskurðir lögreglustjórans snúast hinsvegar um það að hlusta á símtöl til og frá tilteknum símanúmerum.

Ég mun nú athuga þessi atriði nokkuð, og frá fyrst það atriðið, sem mér ber að svara fyrir. En það verður ekki gert án þess að rekja nokkuð sögu hins svonefnda „ömmufrumvarps“.

Þegar frumv. þetta kom fram á Alþingi 1928 var því vísað til hv. sjútvn. Nd. Í nefndinni áttu þá m. a. sæti þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. G.-K. Gáfu þeir út minnhl.nál. og lögðu til, að málinu væri vísað frá með rökstuddri dagskrá. Niðurlag nál. og hin rökstudda dagskrá er þannig:

„Minni hl. vill leiða athygli að því, sem höfundum frv. virðist hafa verið óljóst, að ríkisstj. hefir næga stoð í gildandi lögum til þess að hafa það eftirlit með sendingu loftskeyta, sem nægilegt er til að hindra misnotkun þeirra í þágu landhelgisveiða, sbr. m. a. lög nr. 82 14. nóv. 1917, og reglug. nr. 32 frá 17. maí 1928 samkvæmt þeim lögum.

Minni hl. leyfir sér því samkv. því, sem hér hefir sagt verið, að leggja til, að málið verði afgr. með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Með því að ríkisstj. hefir næga stoð í gildandi lögum til að hafa opinbert eftirlit með sendingu loftskeyta, telur d. eigi þörf á nýrri lagasetningu í þessu efni og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 27. marz 1928.

Jóhann Þ. Jósefsson, frsm.

Ólafur Thors.“

Eins og menn geta séð af þessu nál. og sérstaklega þó af hinni rökstuddu dagskrá, sem d. samþ., er það skoðun þessara háttv. þm., þar á meðal hv. núv. formanns Sjálfstfl., hv. þm. G.-K. að „ríkisstj. hafi næga stoð í gildandi lögum til að hafa opinbert eftirlit með sendingu loftskeyta“. Menn taki eftir því, að hér er því fortakslaust slegið föstu, að ríkisstj. hafi ekki aðeins heimild til þess að láta líta eftir loftskeytum frá og til togara, heldur loftskeytum almennt. Af þessu er auðsætt, að ríkisstj. hefir, með því að láta skoða skeytin frá og til togara, ekki notað nema örlítið af þeirri heimild, sem formaður Sjálfstfl. hefir lýst yfir með þessari rökstuddu dagskrá, að ríkisstj. hafi.

Þegar þetta sama frv. um eftirlit með loftskeytum, er borið fram á þinginu 1931, þá liggur fyrir í grg. frv. bréf frá dómsmálarn. til landsstímastjórans þáverandi, Gísla heitins Ólafssonar, þar sem spurzt er fyrir um það hjá honum, hvort hann álíti ríkisstj. heimilt að skoða loftskeytin. Því bréfi svarar svo landssímastjóri með bréfi til dómsmrn., dags. 30. ágúst 1930. Bréfið hljóðar þannig:

„Út af bréfi hins háa dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dags. 24. f. m., skal ég leyfa mér að geta þess, að ég hefi ekki látið uppi álit mitt um þetta mál við aðra en sjútvn. Nd. Alþingis, enda ekki aðrir um það spurt, en henni tjáði ég, að ég liti svo á, að stj. hefði samkvæmt lögum nr. 82 14. nóv. 1917 fortakslausa heimild til að gera hverjar þær ráðstafanir, sem henni þóknaðist til að reyna, að koma í veg fyrir misbrúkun loftskeyta.

Gísli J. Ólafson.“

fyrrv. landssímastjóra á heimild ríkisstj. til þess að láta skoða loftskeyti eftir geðþótta er því engum vafa undirorpið.

Ákvæðin, sem þessi skoðun fyrrv. landssímastjóra byggist á og þm. tveggja, sem gengu frá hinni rökstuddu dagskrá, er ég hefi áður minnzt á, er aðallega að finna í 19. gr. reglug. frá 1918, og er niðurlag hennar þannig:

„Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins.“

Það er óneitanlega nokkuð teygjanlegt hugtak, hvaða loftskeyti geta skaðað velferð landsins, og ákvæði þessarar reglug. því dálítið vafasöm, og meira að segja vafasamt, hvort heimild hefir verið í lögunum til þess að setja þau í reglug. En eftir að landssímastjóri hefir gefið út þennan úrskurð, sem fram kemur í bréfi hans til dómsmálaráðuneytisins, og eftir að þessi rökstudda dagskrá var samþykkt, sem undirstrikar þennan skilning á reglugerðinni og lögunum, að ríkisstj. hafi þessa heimild, þá tel ég alveg tvímælalaust, að mér hafi verið fengnar í hendur þær heimildir, þótt andstæðingarnir hafi sennilega gert það óafvitandi, að ég hafi haft vafalausan rétt til þess að láta skoða loftskeytin til og frá togurunum, ef ég gæti fært verulega sterkar líkur að því, að slíkar skeytasendingar væru misnotaðar. En án þess vildi ég ekki grípa til þess að láta skoða loftskeytin, þótt allir geti séð, að bæði í hinni rökstuddu dagskrá frá formanni Sjálfstfl. og í bréfi landssímastjóra til dómsmálaráðuneytisins kemur fram sú skoðun, að ríkisstj. hafi „fortakslausa heimild“ til skoðunar allra loftskeyta, án þess að hinn minnsti grunur liggi á um misnotkun þeirra. Ekkert kemur fram um það, hvorki í hinni rökstuddu dagskrá eða bréfinu, að um grun þurfi að vera að ræða til þess að stj. sé heimilt að rannsaka skeyti. Stj. hefir „,fortakslausa heimild“, segir fyrrv. landssímastjóri.

Hvernig í ósköpunum geta nú þessir menn, sem á Alþingi 1928 báru fram hina rökstuddu dagskrá um, að ríkisstj. hefði heimild til þess að láta rannsaka öll loftskeyti, menn sem fengu flokksbróður sinn, landssímastjórann þáverandi, til þess að segja í bréfi til dómsmálaráðuneytisins, að ríkisstjórnin hafi „fortakslausa heimild“ til skeytaskoðunarinnar, — hvernig geta þeir deilt á þann ráðh., sem notar þau gögn, sem þeir hafa sjálfir lagt honum í hendur? Og hvernig í ósköpunum dettur þeim í hug, að nokkur maður taka þá ádeilu alvarlega, sem þeir beina gegn núv. landssímastjóra fyrir það, að hann hefir hlýtt fyrirskipunum mínum, sem honum bar skylda til samkv. þeirra eigin rökstuddu dagskrá og úrskurði fyrrv. landssímastjóra í þessu máli.

Í þessu máli taldi ég rétt, þrátt fyrir þau vopn, sem háttv. andstæðingar hafa mér í hendur lagt, sumpart með hinni rökstuddu dagskrá og sumpart með úrskurði landssímastjóra, að fara mjög gætilega, og þess vegna aflaði ég mér ýtarlegra sönnunargagna fyrir því, að loftskeytin væru misnotuð, og fyrst að þeim sönnunargögnum fengnum krafðist ég þess, að skeytin væru rannsökuð. Rannsóknin í þessu máli er ekkert launungarmál. Henni var sumpart hagað þannig, að varðskipin voru látin athuga, hvenær skeyti væru aðallega send til togaranna, og kom þá í ljós, að hvenær sem varðskipin hreyfðu sig úr höfn eða komu til hafnar, rigndi niður loftskeytunum frá þeim mönnum, sem síðar hafa orðið uppvísir að njósnum. Um þetta lágu fyrir svo ýtarlegar skýrslur, að ekki gat verið um neitt að villast. T. d. var það svo einu sinni, er „Ægir“ hafði legið lengi í Reykjavíkurhöfn til viðgerðar, að hann fór reynsluferð hér út fyrir eyjar, og voru þá samstundis send ógrynni af skeytum til togaranna. Varðskipið kom næstum strax inn aftur, en þegar það lagði frá landi næsta dag, hófst sama skeytaregnið til togaranna og áður. Með þessi sönnunargögn í höndum ásamt fleirum, sem ég sé ekki ástæðu til að geta um hér, var mér tvímælalaust heimilt og meira að segja skylt að gefa út fyrirskipun um skeytarannsóknirnar.

En þrátt fyrir þetta tel ég það alveg tvímælalaust, að lögin um eftirlit með loftskeytum til og frá togurum væru nauðsynleg, vegna þess að með þeim er ríkisstj. fengið vald til þess að koma í veg fyrir, að loftskeytin verði notuð til þess að gera lögbrotin auðveldari.

Það er ekki hægt að neita því, að málstaður andstæðinganna er næsta ömurlegur í þessu máli. Í hinni rökstuddu dagskrá frá háttv. núv. formanni Sjálfstfl. er því lýst yfir, og einnig í bréfi fyrrv. landssímastjóra, að ríkisstj. hafi „fortakslausa heimild“ til þess að láta rannsaka öll loftskeyti. En hv. 5. þm. Reykv., sem fyrstur bar hér fram fyrirspurn í þessu máli, sagðist nú álíta, að skoðun á loftskeytum milli skipa og lands, milli hinna fjölmennu heimila á sjónum og heimilanna í landi, sem full væru af einkamálum þessa fólks, væri alveg hliðstæð því, að hlustað væri á símtöl í símanum hér í bænum, m. ö. o. það verk, sem þeir eru að deila á lögregluna í Reykjavík og lögreglustjórann fyrir að hafa framkvæmt samkv. dómsúrskurði.

Ég ætla að ljúka þessari grg. minni fyrir þeirri aðferð, sem notuð var til þess að koma upp um njósnarana í landhelgismálunum, með því að benda andstæðingunum á það, að þegar litið er á, hvað hefir upplýstst í því máli og hvernig framkoma þeirra hefir verið þar, þá mun þessum góðu mönnum ráðlegast að hafa hægt um sig. Það væri e. t. v. fróðlegt, að þeir reyndu að gera grein fyrir því, hvers vegna hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. G.-K. notuðu ekki þessa heimild til skeytaeftirlits, þegar þeir voru dómsmrh.

Ég kem þá að þeirri ádeilunni, sem beint er gegn lögreglustjóranum í Reykjavík fyrir 2 úrskurði, sem hann hefir kveðið upp um að hlusta á tiltekin símanúmer. Hvorugur þessi úrskurður er kveðinn upp eftir kröfu eða beiðni frá mér. Og hvorugan úrskurðinn lét dómarinn mig fá nokkra vitneskju um, eins og líka vera bar. Dómarinn getur bezt borið vitni um þetta sjálfur, og ég gæti leitt að þessu nægar sannanir, ef ég annars nennti að eltast við það. En það vill nú líka svo til, að úrskurðirnir bera þetta með sér.

Dómarar landsins, þar á meðal lögregludómarinn hér í Reykjavík, kveða vitanlega upp tugi af allskonar úrskurðum, úrskurðum um að gera húsleitir, skoða einkabréf manna, svipta þá frelsi og setja þá í fangahús, án þess að ríkisstj. fái nokkra vitneskju þar um. Nákvæmlega sömu reglur gilda um þá úrskurði lögreglunnar að hlusta á tiltekin númer, ef hún telur það nauðsynlegt fyrir rannsóknir eða vegna öryggis í bænum. Ríkisstj. getur hvorki boðið né bannað dómsvaldinu viðvíkjandi úrskurðum þess.

Dómsvaldið er samkvæmi 56. gr. stjskr. sjálfstætt vald, óháð framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið verður einmitt að lúta úrskurðum dómsvaldsins á þeim sviðum, sem dómsvaldið nær til.

Þetta verða menn að gera sér ljóst, þegar þeir eru út í bláinn að deila á ríkisstj. fyrir úrskurði lögregludómarans í Reykjavík. Þeir gætu með jafnmiklum rétti deilt á ríkisstj. fyrir úrskurði eða dóma, sem sýslumaðurinn á Sauðárkróki eða sýslumaður Þingeyinga og sýslumaður Skaftfellinga kunna að hafa kveðið upp; hvorttveggja er nákvæmlega sama fjarstæðan.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á það, að þeirri kröfu hefir skotið upp, að símnotendur hér í bænum fengju eftirlitsmann við símann til öryggis — eins og það er kallað. Sá eftirlitsmaður virðist eiga að líta eftir dómsvaldinu. En leyfist mér að spyrja — hvaðan á sá eftirlitsmaður að fá vald? Svo mikið er víst, að hvorki símanotendur né ríkisstj. gætu að lögum fengið þessum eftirlitsmanni vald til þess að stöðva framkvæmd á úrskurðum lögreglustjórans eða annara dómara í opinberum málum — vegna þess að það hefir ekkert vald í þjóðfélaginu rétt að lögum til þess að gera það, meðan úrskurðurinn er ekki felldur úr gildi af æðri dómstól.

Borgararnir gætu með nákvæmlega sama rétti og að heimta eftirlitsmann við símann krafizt þess að fá eftirlitsmann, sem segði til um það, hvenær dómarinn mætti láta taka menn fasta, hvenær mætti skoða einkabréf manna, og hvenær lögreglan mætti gera húsrannsóknir o. s. frv. Til þess að setja slíkan eftirlitsmann yrði hvorki meira né minna en að breyta stjórnskipulaginu og afnema hið óháða dómsvald, sem er eitt af einkennum okkar stjórnskipulags og annara lýðræðislanda.

Eftir að slíkur eftirlitsmaður væri kominn yfir dómsvaldið, væri hið óháða dómsvald afnumið.

Af þessu geta menn jafnframt séð, á hve miklum rökum ádeilan á landssímastjórann er reist fyrir það, að hann hefir hlýtt úrskurðum dómarans, eins og honum var skylt samkv. 55. gr. stjskr. Og ef hann hefði reynt að torvelda framkvæmd á þessum úrskurði dómarans, þá hefði hann beinlínis skapað sér refsiábyrgð samkvæmt 12. kap. hegningarlaganna. Þetta tel ég rétt, að komi hér fram, þar sem ráðizt hefir verið á landssímastjórann hér á Alþingi, þar sem hann getur ekki borið af sér árásirnar.

Ég tel jafnframt og af sömu ástæðu rétt að skýra málstað lögreglustjórans, og er þá eðlilegt, að í þessu sambandi séu athugaðar fyrri aðgerðir dómara viðvíkjandi símanum.

Andstæðingarnir hafa deilt mjög á lögreglustjóra fyrir áðurnefnda úrskurði, og þeir staðhæfa, að ekkert svipað hafi átt sér stað áður. Það er að vísu ekki dregið í efa, að lögreglustjóra sé þetta heimilt, þegar um stór afbrot og víðtæk lögreglubrot er að ræða. Enda þýðingarlaust að reyna að halda slíku fram, því að hér er um að ræða viðurkenndan rétt dómsvaldsins öllum menningarlöndum. En það, sem deilt er um, er þá það, að við uppljóstrun í áfengismálunum hafi ekki legið fyrir nægilega alvarlegt brot til þess að grípa til þessa ráðs. Það er vitanlega dómsvaldsins og þess eins að úrskurða þetta atriði, og það er æðra dóms að ákveða það, hvort undirrétturinn hefir farið út fyrir sitt svið, en það má þó benda á það, að því er lýst yfir af hv. 8. landsk. þm. hér á Alþingi, að allur bærinn hafi vitað, að flestir þeir menn, sem áttu símanúmerin, sem hlustað var á, seldu áfengi. Það má líka benda á það í þessu sambandi, að lögreglan verður þráfaldlega að gera það, sem alvarlegra er, til þess að koma upp m. a. áfengislagabrotum; hún verður þráfaldlega að svipta menn persónulegu frelsi og hafa í gæzluvarðhaldi, hún verður þráfaldlega að rjúfa heimilisfriðinn og gera þar húsrannsóknir, og hún verður oft að rjúfa bréfhelgina. Allt þetta hefir verið talið nauðsynlegt til að auðvelda lögreglunni að upplýsa afbrotamál, þar á meðal áfengismál, enda vitanlegt, að það er oft ómögulegt að upplýsa þessi mál, nema nota þessi meðul. — En hversu miklu alvarlegra er ekki þetta vald lögreglunnar en það vald hennar að hlusta á samtöl þeirra símanúmera, sem hún hefir rökstuddan grun um, að séu notuð til að fremja afbrot.

Viðvíkjandi rétti lögreglustjórans til þess að úrskurða, að hlustað skyldi á viss símanúmer í bifreiðastjóraverkfallinu, er því og haldið fram, að þá hafi engin lögbrot verið framin, sem gæfu heimild til þessara ráðstafana. Voru það ekki lögbrot að stöðva alla bifreiðaumferð í þessum bæ með valdi? Eru það ekki lögbrot að taka m. a, einkabifreiðar með valdi, loka þeim og taka lyklana? Eru það ekki lögbrot að taka bifreiðar konsúla erlendra ríkja, hvar sem þær voru á ferð? Voru það ekki lögbrot að taka yfirvald úr öðru lögsagnarumdæmi — ég á þar við sýslumann Skaftfellinga — og banna því að fara heim til síns embættis? Máttu lögbrjótarnir sjálfir nota vitneskju, fengna að því er virðist gegnum landssímastöðvar hér rétt við bæinn, fyrir milligöngu manna, sem þar virðast hafa legið á hleri, til þess að hefta heimför þm.?

Vitanlega voru framin mörg lögbrot og alvarleg lögbrot í bifreiðastjóraverkfallinu, einmitt svo mörg og af svo mörgum að þjóðfélagið taldi hyggilegt, eins og líka oft hefir verið gert áður, bæði hér og annarsstaðar, að láta sakir falla niður, þegar um afbrot mjög margra manna er að ræða, framin í æsingarástandi.

Átti svo lögreglan og lögreglustjóri, sem lögbrjótarnir stöðvuðu bifreiðar fyrir, og tóku úr sumum bílunum ýmsa hluti, svo að ekki væri unnt að aka þeim. að horfa á, að þessir lögbrjótar legðu undir sig tæki þjóðfélagsins, eins og símann í Skíðaskálanum og í nánd við Elliðaárnar og notuðu þessi tæki til þess að ráðgast um, á hvern hátt þeir ættu að framkvæma næstu lögbrot? Átti lögreglustjóri að horfa á allt þetta án þess að honum væri heimilt að kveða upp úrskurð þess efnis, að hlusta skyldi á, hvað fram færi á milli þessara manna í símanum, og hvort þeir væru að stöðva matvælaflutninga til bæjarins eða eitthvað þess háttar? Ég ætla að láta almenning um að dæma um það, hvort lögreglustjóri átti að sitja og halda að sér höndum, meðan þessu fór fram, og álíta tæki þau, sem lögbrjótarnir höfðu lagt undir sig og misnotuðu, svo heilög, að lögreglan hefði ekki heimild til að koma þar nálægt?

En menn skyldu ætla, að þeir, sem eru svo sárlega hneykslaðir yfir því, að ég hafi ljóstrað upp um njósnarana í landhelgismálunum, og yfir lögreglunni og lögreglustjóra út af því, að hann hefir kveðið upp úrskurð um að láta hlusta á símanúmer lögbrjótanna, — menn skyldu ætla, að þeir hefðu ekki notað samskonar aðferðir sjálfir, og því síður skyldu menn ætla, að þeir hefðu sjálfir bæði viðvíkjandi loftskeytunum og, bæjarsímanum notað aðferðir, sem eru miklu víðtækari og miklu alvarlegri heldur en þær aðferðir, sem þeir eru nú að deila á. Það skyldi nú ekki einmitt vera svo að árásirnar og öll tortryggnin stafaði af því, að þessir sömu menn, sem nú deila á mig fyrir að hafa ljóstrað upp um landhelgisbrjótana og deila á lögreglustjóra fyrir að hafa kveðið upp 2 framannefnda úrskurði, hefðu ekki aðeins notað samskonar aðferðir sjálfir, sem heldur ekki væri ádeiluvert, heldur beinlínis misnotað bæði vald sitt yfir loftskeytastöðinni og bæjarsímanum, þegar þeir fóru með völd, — og það skyldi ekki einmitt vera svo, að árásirnar og tortryggnin stafaði af því, að þeir ætli nú öðrum sömu misnotkunina og þeir frömdu sjálfir?

Og við skulum athuga hvernig þessir sömu menn, sem nú deila á mig fyrir að hafa látið skoða skeyti til og frá togurunum, notuðu vald sitt yfir loftskeytastöðinni. Menn mun reka minni til þess, að árið 1921 stofnuðu íhaldsmenn hér í bænum til óeirða út af því, að þeir vildu taka með valdi unglingspilt af Ólafi Friðrikssyni, sem þá var ritstjóri Alþýðublaðsins, og átti að flytja drenginn af landi brott undir því yfirskini, að hann væri sjúkur af smitandi og jafnvel ólæknandi sjúkdómi, en það reyndist síðar rangt. Ólafur Friðriksson vildi ekki beygja sig, og út af þessu stofnaði íhaldið til mikilla æsinga hér í bænum. Og hvernig notaði Íhaldsflokkurinn þá vald sitt yfir símanum? Hann notaði það þannig, að um tíma var sett hér á stofn almenn skoðun á öllum skeytum, er send voru til útlanda og komu frá útlöndum. Og þetta var gert án dómsúrskurðar, án þess að landsímastjóra virðist hafa verið skrifað, án þess að hinn minnsti grunur lægi fyrir, hvað þá heldur rökstuddur grunur um það, að skeytin til og frá landinu væru misnotuð. Það eru til næg vitni til þess að sanna það, að þetta var gert. Skeyti sumra firma hér í bænum voru tafin heilan dag vegna þessarar skeytaskoðunar, og þegar verzlunarmenn sneru sér til stjórnarráðsins með fyrirspurnir um, hverju þetta sætti, var þeim skýrt frá af einum ráðh. að almenn skeytaskoðun væri sett á. Það eru til verzlunarmenn hér í þessum bæ, sem geta borið um, að þetta er rétt. Þannig notaði eða öllu heldur misnotaði Íhaldsflokkurinn vald sitt yfir símanum.

Það eru þessir sömu menn, sem nú eru að deila á mig fyrir það að hafa notað vald mitt til skeytaskoðunar, eftir að hafa aflað ýtarlegra sannana, og ljóstra á þann hátt upp einhverju alvarlegasta glæpamáli, sem þekkzt hefir hér á landi. En það er hinsvegar ekkert undarlegt, þótt þessir menn, sem svo herfilega hafa misnotað vald sitt yfir símanum, séu tortryggnir og ætli öðrum sömu misnotkunina og þeir framkvæmdu sjálfir. En ég vil einungis benda þeim sömu mönnum á það, að ríkisstj., sem nú situr, hefir ekki notað nema lítinn hluta af því valdi, sem formaður Sjálfstfl. vill gefa henni í hinni rökstuddu dagskrá, úrskurði fyrrverandi landssímastjóra og með eigin framkvæmdum þeirra manna, sem nú deila fastast á stj. Þeir geta sannarlega ekkert sagt, þessir menn.

Og hvernig notuðu þessir sömu menn bæjarsímann? Menn skyldu ætla, að í þeirra tíð hafi ekki verið hlustað á símtöl manna á milli. Þessir vandlætarar, sem nú eru að ráðast á lögreglustjóra fyrir að hafa kveðið upp úrskurð um, að hlusta skyldi á tiltekin símanúmer í lögbrotamáli, ættu sjálfir að vera hreinir af slíku. En lögregluþingbækur Rvíkur bera vitni um ýmislegt, sem stjórnarandstæðingar hafa ekki ætlazt til, að kæmi í dagsins ljós. Sama daginn og aðförin var gerð að Ólafi Friðrikssyni, hinn 18. nóvember 1921, kl. 12½, mætti annar af núv. ritstjórum Morgunblaðsins, þáverandi fulltrúi lögreglustjórans í Rvík, á skrifstofu bæjarfógeta. Þar var réttur settur, og þar gerði þessi fulltrúi þá kröfu, að lögreglunni væri heimilað að loka símanúmerum að húsinu nr. 14 við Suðurgötu og símanum á afgreiðslu Alþýðublaðsins. Hinn uppkveðni úrskurður er svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Ár 1921, föstudaginn 18. nóvember kl. 12½ var lögregluréttur Reykjavíkur settur í bæjarfógetaskrifstofunni og haldinn af fulltrúa bæjarfógetans, Lárusi Jóhannessyni, með undirrituðum vottum. Var þá tekið fyrir:

Mætti fyrir réttinum Jón Kjartansson, lögreglufulltrúi, og upplýsti, að hann teldi brýna nauðsyn bera til, ef mótstaða væri sýnd af hálfu Ólafs ritstjóra Friðrikssonar við brottflutning drengsins Nathan Friedman, að heimild væri til þess, að einangra hús það, sem hann býr í Suðurgötu 14, frá símasambandi svo og afgreiðslu Alþýðublaðsins, sem Ólafur Friðriksson er ritstjóri að. Í húsinu Suðurgötu 14 eru símar nr. 401 og 980, en afgreiðsla Alþýðublaðsins hefir síma nr. 988. Dómarinn kvað upp svohljóðandi úrskurð:

Með því að lögreglan telur nauðsynlegt, að lokað verði símum þeim, er liggja til hússins Suðurgötu 14 og afgreiðslu Alþýðublaðsins við brottflutning drengsins Nathan Friedman úr húsinu, ef mótstaða verður sýnd, þá úrskurðast:

Lögreglan má, ef þörf þykir, láta loka símanúmerum nr. 401, 980 og 988 meðan á brottflutningi Nathan Friedman stendur.

Rétti slitið.

Lárus Jóhannesson

Jón Kjartansson

ftr.

ftr.

Vottar: Kristján Jónasson. Guðlaugur Jónsson.“

Og það var jafnframt eftir kröfu Jóhanns P. Jónssonar, sem þá var ólöglega settur aðstoðarlögreglustjóri í Rvík, kveðinn upp svolátandi úrskurður hinn 24. sama mánaðar á skrifstofu bæjarfógetans:

„Ár 1921, fimmtudaginn 24. nóv., var lögregluréttur Reykjavíkur settur í bæjarfógetaskrifstofunni og haldinn af bæjarfógeta Jóh. Jóhannessyni með undirrituðum vottum. Var þá tekið fyrir.

Fyrir réttinum mætti settur aðstoðarlögreglustjóri í Reykjavík, varaliðsforingi Jóhann P. Jónsson, og upplýsti að lögreglan teldi nauðsynlegt að rannsaka bækur, bréf og skjöl, sem Ólafur ritstjóri Friðriksson, sem tekinn hefir verið fastur fyrir mótþróa gegn lögreglunni og fleira, hefir haft í vörzlum sínum, og óskaði að fá réttarúrskurð fyrir því að þetta væri heimilt. Rétturinn kvað upp svo hljóðandi úrskurð:

Með því að lögreglan telur nauðsynlegt, til upplýsingar í máli, sem hún hefir með höndum út af mótþróa gegn henni o. fl., að rannsakað sé bækur, bréf og skjöl, er Ólafur ritstjóri Friðríksson hefir haft með höndum, en hann er tekinn fastur í nefndu máli, þá úrskurðast:

Rannsaka má lögreglan bækur, skjöl og bréf, sem Ólafur ritstjóri Friðriksson hér í bænum hefir haft í vörzlum sínum, hvar sem það finnst.

Úrskurðurinn var lesinn upp í réttinum.

Rétti slitið.

Jóh. Jóhannesson. Jóh. P. Jónsson.

Vottar: F. Árnadóttir. St. Jóh. Stefánsson.

Af þessum 2 úrskurðum og af mörgum öðrum gögnum, sem sjálfsagt er að finna í lögregluþingbókum, þótt þau hafi enn ekki komið fram, geta menn séð spegilmyndina af því hvernig núv. stjórnarandstæðingar notuðu vald sitt yfir símanum og hvernig þeir notuðu vald sitt yfir einkabréfum, einkaskjölum og bókum, þegar þeim bauð svo við að horfa.

Það er vitað mál, og fór alls ekki leynt, að á sama tíma og þessi aðför var gerð að Ólafi Friðrikssyni voru tiltekin símanúmer jafnaðarmanna hlustuð án úrskurðar. Fjölmörgum, sem með valdi voru úrskurðaðir í „hvítaliðið“, er það fullkunnugt, og þeir muna það vel, að ekki fór leynt í hernum, hvað talað var í þessi númer. Slík var nú samvizkusemin og þagmælskan. Hvað segja menn svo um árás Morgunblaðsins og Jóns Kjartanssonar á núv. lögreglustjóra fyrir að hafa í lögreglumálum úrskurðað, að hlusta skyldi á tiltekin númer? Og það var þannig gert, að enginn leyfir sér að halda því fram, að almenningi hafi verið skýrt frá því, hvað talað hafi verið í þessi símanúmer. Hafa sjálfstæðismenn og Morgunblaðið gert sér það ljóst, hvaða fordæmi þeir gáfu, þegar þeir 1921 án dómsúrskurðar hlustuðu á símtöl sinna pólitísku andstæðinga eftir geðþótta, og hefir núv. ritstjóri Morgunblaðsins, Jón Kjartansson, athugað, hvaða fordæmi hann hefir gefið, þegar hann mætti 1921 á skrifstofu bæjarfógetans í Reykjavík og gerði þá kröfu og fékk um það úrskurð bæjarfógeta, að símanúmerinu hjá Alþýðublaðinu, málgagni aðalandstöðuflokks íhaldsmanna hér í bænum, skyldi lokað?

Hafa andstæðingarnir nú loksins gert sér það ljóst, hvaða fordæmi þeir gáfu, þegar þeir sama ár án dómsúrskurðar og án rökstuddra grunsemda settu á almenna skeytaskoðun í landinu? Ef þeir hafa gert sér það ljóst, til hvers þessi fordæmi þeirra gætu leitt, ef þau væru notuð, þá get ég skilið og þá býst ég við, að mönnum skiljist það almennt, af hverju stafar öll þessi tortryggni, allur þessi taugaæsingur og öll þessi hræðslu andstæðinganna við að hér sé búið að setja upp samskonar njósnakerfi og þeir starfræktu árið 1921.