26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Guðbrandur Ísberg:

Frá því að 2. umr. þessa máls fór fram hér í d., hefi ég athugað frv. þetta neinar en ég hafði gert þá, og því betur sem ég hefi skoðað það í kjölinn, því sannfærðari er ég um, að breyt. þær, sem í því felast frá gildandi lögum, eru til bóta. Við athugun málsins hafði ég og í huga þá breyt. á þessari löggjöf að aðskilja meira en gert er lögregluvaldi og dómsvald og hafa t. d. fjórðungsdómara, en við nánari athugun þykist ég sjá, að þær breyt. eiga ekki við hér enn sem komið er. Get ég því fallizt á frv. eins og það liggur fyrir a. m. k. í aðalatriðum. Það eru því aðeins nokkur smærri atriði, sem ég hefði óskað að fá breytt, sérstaklega að því, er orðalag snertir. Það hefir t. d. verið breytt orðalagi á eiðstafnum, sem ég felli mig illa við. En eigi að síður mun ég ekki fara fram á, að því atriði sé breytt í frv., þar sem hér er einungis um smekksatriði að ræða, en ekki lagalegi atriði, sem ég vil ekki fara að vekja deilur um. Þannig mætti og nefna fleiri atriði, sem ég hefði frekar kosið, að orðuð væru á annan veg, en um það skal ég ekki fara fleiri orðum nú. Aftur á móti tel ég alveg nauðsynlegt að breyta 27. gr. frv., en hún fjallar um greiðslur til sáttanefndarmanna. Að sjálfsögðu tel ég, að sáttanefndarmenn eigi tilverurétt, því að sú aðferð að láta mál ganga til sáttanefndar er bæði ódýr og hentug leið til þess að ljúka málum á fyrsta stigi. En eins og gr. er orðuð, geta reikningar frá sáttanefndarmönnum orðið háir, sérstaklega utan kaupstaða. Noti sáttanefndarmenn t. d. bíl til þess að komast á fundarstað og þaðan aftur, getur kostnaðurinn við sættagerðina eða sáttatilraunina tæplega orðið undir 24 kr. Þetta finnst mér óþarflega stórt spor frá því, sem nú er. Ég vildi því leggja það til, að greiðslan til sáttanefndarmanna yrði 1 kr. til hvors, þegar ekki gengur úrskurður um mál, en 2 kr. til hvors, þegar úrskurður gengur í málinu, eða samtals 4 kr., en það er sama og greiða ber til dómara fyrir úrskurð samkv. aukatekjulögunum. Auk þessa vildi ég, að sett yrði fast ákvæði um ferðakostnaðinn, að hann verði t. d. ákveðinn 7 kr. á dag, eins og hjá sýslunefndarmönnum.

Þá vildi ég leggja til, að gerðar yrðu lítilsháttar breyt. á 17. gr. frv. Þar er haldið þeirri reglu. að menn geti leitað til dómara og krafið hann um að gefa út stefnu endurgjaldslaust. Þetta getur í sumum tilfellum verið mjög óþægilegt. Það kemur nfl. oft fyrir, að ýmislegt, sem ekki er tekið fram í stefnunni, kemur fram undir rekstri málsins. En það er leiðinlegt fyrir dómara að hafa gefið út stefnu, ef sakarefni eyðileggst af þeim ástæðum. að það er ekki réttilega tilfært í stefnunni. Hjá þessu mun þó tæplegu vera hægt að komast upp til sveita, þar sem engir málaflutningsmenn eru. Ég myndi nú alls ekki vera að hafa á móti því að halda þessu ákvæði í lögum eins og það er, ef það skipti eingöngu fátækari mennina, gæti verið þeim eingöngu til hagsbóta. En því fer fjarri, að svo sé, a. m. k. er það mín reynsla og fjölda annara starfsbræðra minna, að flestar stefnur úti á landi komi frá verzlunarmönnum eða iðnrekendum. Þeir spara sér fé með því að fleygja blaði í sýslumanninn með áletruðum kröfum sínum og biðja hann að gefa út stefnuna. Ég hefi sjálfur orðið fyrir þessu. Það hefir komið til mín kaupmaður og fengið mér lista með mörgum nöfnum skuldunauta sinna og beðið mig að gefa út stefnur á þá hvern fyrir sig. Þetta var vitanlega töluvert mikið verk, og tilgangur stefnanda að komast hjá sérstökum kostnaði á þennan hátt. Mér finnst því, að ekki megi minna vera en að eitthvað sé fyrir það borgað, ekki sízt þegar gefið er upp rangt heimilisfang skuldunauta, svo að það hefir þurft að endurrita stefnur á þá og gefa þær út á ný. Að vísu er það sök kröfueigenda. En þegar það stendur skýlaust í lögum, að þetta skuli gert borgunarlaust, þá hika dómarar við að krefjast endurgjalds fyrir það.

Sáttanefndir geta tekið ritlaun fyrir eftirrit af málsskjölum, og prestar fyrir vottorð, sem þeir eru beðnir að gefa. Þess vegna finnst mér, að það megi ekki minna vera en að héraðsdómarar fái einnig þóknun fyrir það. Þetta er að vísu ekkert stórmál, en það er ástæðulaust að ætla þeim að gefa afrit af slíkum skjölum endurgjaldslaust í viðbót við það, að þeir verða að semja stefnur fyrir ekki neitt. Ég vil því leyfa mér að leggja til að 87. gr. verði breytt þannig að greitt verði fyrir að semja stefnur, er samsvari ritlaunum.

Sömuleiðis legg ég til, að gerðar verði orðabreytingar í 135. og 137. gr. — Nú hefi ég ekki gengið frá þessum brtt. né látið prenta þær, og vil helzt komast að samkomulagi við hv. frsm. allshn., hvort heldur þær skuli orðaðar á þann hátt, sem ég hefi gert, eða með lítilsháttar breyt., er hann kynni að óska eftir. Ég vil því leyta mér að beina því til hæstv. forseta og hv. frsm., hvort þeir geti ekki fallizt á, að umr. verði frestað og málið tekið af dagskrá, til þess að mér gefist kostur á að tala við hv. n. um þessar brtt.