06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég þarf ekki að svara hv. þm. Borgf. með löngu máli. Hann sagði, að þetta frv. bæri blæ sérhagsmuna lögfræðinganna. En ég vil segja það, og segi það með fullum rökum, að það er endurbót á réttarfarinu í landinu. Í því felast miklar umbætur á meðferð einkamála, sem ég ætla, að séu hagkvæmar öllum almenningi í landinu. Hv. þm. taldi sjálfsagt, að sama regla væri látin gilda um það hér í Reykjavík eins og annarsstaðar á landinu, hverjir mættu taka að sér að fara með mál fyrir aðra. Þarna kemur fram greinilegur skoðanamunur um það meginatriði, hvort þeir, sem hafa aflað sér sérþekkingar og eru orðnir öðrum færari í ákveðnum greinum, eigi að hafa forréttindi fram yfir þá menn, sem engrar þekkingar hafa aflað sér í sömu fræðum. Það mætti eftir sama þankagangi og fram kom hjá hv. þm. leyfa hverjum ólærðum manni sem væri að stunda lækningar, Og hverri konu sem væri að stunda ljósmóðurstörf, og annað þess háttar. En ég hygg að það yrðu fáir til þess að mæla með því, að í þessum efnum yrði leitað til ófaglærðra manna sem ekki hefðu ástæðu til að leysa verkin af hendi svo að vel færi. Ég álít, að það sé hinn versti greiði við almenning, ef á að fara að setja við sama borð þá, sem faglærðir eru, og hina, sem ólærðir eru, og veita þeim ólærðu sama rétt eins og hinum, sem varið hafa miklum hluta æfi sinnar til að afla sér sérþekkingar. Ég er þess viss, að eins og það yrði til óhagræðis fyrir almenning, ef skottulæknar og skottuyfirsetukonur fengju að vaða uppi, eins yrði það til óhagræðis, ef ólöglærðir menn fengju jafnt rétt til að flytja mál eins og löglærðir menn. Ég vil ekki með þessu niðra þeim góðu og greindu mönnum utan lögfræðingastéttarinnar, sem hafa fengizt við að flytja mál og eftir aðstöðu sinni farizt það prýðilega, en þó er ég ekki í vafa um það, ef hv. þm. Borgf. talaði við þá menn, sem flesta dóma hafa dæmt og vandasamasta, svo sem hæstarétrardómara eða þá Jóhannes Jóhannesson fyrrv. bæjarfógeta og Björn Þórðarson lögmann o. fl., að þeir mundu allir svara á sömu lund, að það væri erfiðara að komast að réttri dómsniðurstöðu, ef ólöglærðir menn flyttu málin, heldur en ef þau væru flutt af lærðum lögfræðingi. Eins og eðlilegt er,þá getur ólöglærðum manni fatazt ýms tök, sem getur leitt til þess, að niðurstaðan samkv. lögum verði óhagstæð fyrir skjólstæðings hans.

Ég tel, að það sé algerður misskilningur, að hér sé um að ræða eiginhagsmuni vissrar stéttar. Það er verið að tryggja rétt borgaranna í landinu. Sú sérstaða lögfræðinganna, sem hér kemur fram, er ávöxtur þekkingar, og það á að láta sérþekkinguna á hverju sviði sem hún er, njóta sín sem bezt til góðs fyrir alla menn í landinu.