22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Af því að ég var ekki viðstaddur 1. umr., en 2. umr. er ekki ætluð til almennra aths., vil ég grípa tækifærið til þess að skýra frá því, hvers vegna ég gat ekki flutt þetta frv. með meiri hl. fjhn.

Þegar þetta frv. var fyrir síðasta þingi, gerði ég grein fyrir andstöðu minni gegn því, sérstaklega aðallögunum. Nú á að framlengja þessi lög, og sannast að segja er flutningurinn á þessari framlengingu fyrir neðan allar hellur. Hér er mörgum lögum grautað saman í einhvern óendanlegan hrærigraut, sem enginn getur botnað i. Það er byrjað á 2. gr., 1. gr. verður 3. gr. o. s. frv. Þó hefir stj. ekki talið það ómaksins vert að semja ný lög upp úr þessu og nema hin úr gildi, enda þótt það hefði legið næst. Ég tel þetta óafsakanlegt og benda á allt annað en góða samvizku hjá stjórninni.

Annars er ekkert nýtt í þessu lagafrv., nema það, að loforðin um það, að álögurnar skyldu gilda aðeins um eitt ár, hafa öll verið svikin. Þó var lögð á það mikil áberzla af stj. og fylgifiskum hennar á síðasta þingi, að „bráðabirgðatekjuöflun ríkisins“ skyldi ekki gilda nema eitt ár, en nú hafa þessi loforð verið þverbrotin, eins og búast mátti við. Annars verð ég að segja það, að þessi aðferð í skattamálunum, að framlengja skatta og tolla sífellt frá ári til árs, er orðin lítt þolandi. Áður þótti það óheppilegt að framlengja einn og einn skatt eða toll frá ári til árs, en nú er svo komið, að mikill hl. af tekjum ríkissjóðs cr þannig til kominn. Auk þessa frv. bætist við framlenging á lögum þeim, sem hlotið hafa nafnið „bandormurinn“, um frestun ýmissa framkvæmda. Það er augljóst, að hæstv. fjmrh. hugsar ekki í þessum efnum langt út fyrir sína eigin ráðherratíð, sem að líkindum verður ekki mjög löng, því að eftirmaður hans verður sannarlega ekki öfundsverður af því að botna í öllum þessum frámunalega hrærigraut eða gera sér ljóst, hvaða fjármálastefnu hæstv. núv. fjmrh. hefir eiginlega fylgt. Ég er satt að segja hissa á hæstv. fjmrh. með báða sína flokka að baki, að hann skuli a. m. k. ekki sýna lit á því, hvað hann vill í fjármálunum. Þetta eru þær almennu ástæður fyrir því, að ég er á móti frv.

Ég mun ekki fara út í að rekja efni hinna einstöku laga, sem hér á að framlengja. Fyrstu greinarnar eru um 10% álag á tekju- og eignaskatt, 25% á verðtoll og 80% á skemmtanaskatt. En aðalefni frv. er bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs. Eins og ég hefi lýst yfir áður, er ég gersamlega mótfallinn hátekjuskattinum, nema því aðeins, að bæjar- og sveitarfélögum sé trygt eitthvað í stað hans, því að staðreyndirnar sýna, að bæjar- og sveitarfélögum er nú orðið ókleift að ná inn þeim tekjum, sem þau þurfa til eigin nauðsynja, vegna ágengni ríkissjóðs við skattborgarana. Hér liggur að vísu fyrir álit frá n., sem ríkisstj. skipaði til að athuga tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. En enginn áhugi virðist vera hjá stj. fyrir því máli. En það er alveg augljóst, að ef hátekjuskatturinn á að verða áframhaldandi skattur til ríkissjóðs, verður að finna nýja tekjustofna handa bæjunum.

Um annan liðinn í þeim 1., nefnilega vörugjaldið, er það sama að segja og um slíkar stórfelldar hækkanir á tollum, að það eru að vísu gerðar undantekningar um ýmsar vörur, sem beinlínis þarf til framleiðslunnar. En hinsvegar er ómögulegt að neita því, að hið stórkostlega hækkaða gjald á fjöldamörgum vörum, sem enginn getur komizt hjá að nota, hlýtur vitanlega óbeinlínis að lenda á framleiðslunni, vegna þess að allur kostnaður þeirra, sem að henni standa, er aukinn. Dýrtíðin í landinu er yfirleitt aukin með þessum álögum.

Það er nú tekið fram mjög greinilega í upphafi þessa frv., til hvers eigi að verja þessum gjöldum, og skal ég ekki fara út í það, hvað lítið gagn er að slíkum ákvæðum. En það er þó við það að athuga, að í einum af þeim liðum. sem þar um ræðir, nefnilega alþýðutryggingunum, sem hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð, felast líka ákaflega mikil bein gjöld fyrir einstaklingana, sem þó ekki eru heimt inn af þeim sem fastur skattur. Og fjöldi manna á að greiða þennan skatt án þess að fá nokkuð fyrir hann, og ég sé ekki, hvað langt þá er orðið að markinu fyrir því, að slíkir skattar náist inn.

Síðasti liðurinn er benzínskatturinn. Það hefir nú farið giftusamlegar um hann heldur en útlit var fyrir, þar sem bifreiðarstjórarnir með sínum samtökum og verkfalli knúðu það fram, að þessi skattur lenti að mestu eða öllu leyti á steinolíufélögunum, sem selja benzín hingað.

En það er eftirtektarvert, að þessar aðgerðir bifreiðarstjóranna, sem veltu þessum stóra skatti yfir á steinolíufélögin, mættu svo miklum fjandskap frá ríkisstj., að þeir voru blátt áfram meðhöndlaðir eins og glæpamenn í blöðum stj. Það var meira að segja settur hlustvörður við símann, sem nú er yfirlýst, að ekki skuli gera nema þegar um stórglæpamál er að ræða. Svona var litið á þessar athafnir, sem þó urðu til þess að bjarga þessu axarskafti stj. Ég skal ekki fara frekar út í þetta spæjaramál, sem rekið var í sambandi við verkfallið, því mér þykir ólíklegt, að hæstv. stj. komist hjá því að verða að svara fyrir það alveg sérstaklega.

Þetta frv., sem sagt, fer fram á það að halda því hæsta horfi, sem fram hefir komið til útgjalda á þinginu. En á hinn bóginn stendur hæstv. stj. eins og veggur fyrir öllum tilraunum til þess að fá færð niður einhver gjöld, eins og sjást við afgreiðslu fjárlfrv. í Sþ., þar sem stj. og hennar flokkar stóðu á móti því að létta af því háskalegasta gjaldi, útflutningsgjaldinu,af sjávarútveginum, til þess að opna honum möguleika til þess að vera rekinn með arði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að svo stöddu. Ég vildi aðeins gera grein fyrir því í örfáum orðum, hvers vegna ég ekki gat verið meðflm. að frv.