21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Pétur Ottesen:

Það hefir nú komið skýrt í ljós með flutningi þessa frv., og ekki síður við umr., sem fram hafa farið um þetta mál, að það er alveg aukaatriði í flestum tilfellum sá kostnaður, sem leiðir af því að gera hitt og þetta. Það er talað um, að framkvæmdin sé nauðsynleg og hvers árangurs megi vænta af henni. En hitt er alveg aukaatriði, hvort kostnaðurinn, sem það hefir í för með sér, er mikill eða lítill. Það er yfirleitt litið með svo mikilli fyrirlitningu á kostnaðarhlið málanna, að þó að bent sé á leið til að ná sama takmarki með minni kostnaði, þá er ekki talið vert að athuga málið neitt út frá því sjónarmiði. Það hefir hingað til verið svo, þegar rætt hefir verið um skólastofnanir, eins og t. d. alþýðuskólana, að í upphafi hefir verið gert ráð fyrir kostnaði. Afleiðingin hefir orðið sú, að fjárveiting hefir verið tekin upp á fjárl., svo unnt yrði að gera sér grein fyrir, hver kostnaður mundi hljótast af fyrir ríkissjóð.

Nú þykir þetta ekki lengur athugunarvert, og í sambandi við þetta mál hefir ekki verið gerð áætlun um, hver kostnaður mundi verða við stofnun og starfrækslu garðyrkjuskóla að Reykjum í Ölfusi, því síður að þyki taka því að setja hann á fjárl. Nú á bara að taka lán. Ríkið er ekki enn búið að fylla mælinn með lántökunum.

Hv. frsm. meiri hl. hefir einungis talað um kostnaðinn, sem yrði af rekstri skólans, og ætlast hann til, að búskapurinn beri hann uppi. Það vill nú svo vel til, að við höfum yfirlit um kostnaðinn á þessu búi, þar sem nú eru komin upp mikil gróðurhús og allmiklar framkvæmdir í garðræktinni á okkar mælikvarða. Þessi mikla garðrækt hefir verið rekin á hagkvæmum stað nú um nokkur ár, og árangurinn sjáum við í fjárl. og LR., m. a. í fjárlfrv. fyrir 1937 er gert ráð fyrir tekjuafgangi, 4 þús. kr., af öllum búrekstrinum, innifalið garðræktin, mjólkurbú o. fl. Ég býst við eftir þeirri reynslu, sem við höfum af skólahaldi. að þessar 4 þús. kr. hrökkvi skammt. Það kann að verða mikil breyt. á, en hún má verða ærin, ef hv. frsm. getur gert sér vonir um, að búið beri uppi þann kostnað, sem leiðir af rekstri skólans og stofnun, eins og t. d. af byggingu.

Ég vildi benda á þetta atriði, af því að það eru líka til menn, sem vilja gjarnan líta á, hver kostnaður verði af þessum framkvæmdum

Eins og hv. frsm. minni hl. landbn. hefir lýst, þá höfum við lagt til að athugað yrði a. m. k., hvort ekki mundi hægt að auka þekkingu manna í garðrækt að verulegum mun með því að auka og umbæta skilyrði til garðyrkjunáms við bændaskólana, þar sem svo hagar til, að hægt er án mikils kostnaðar að koma þeirri kennslu við. Verklega námið yrði að vori til eða sumri, þegar húsakostur er nægur, og nauðsynlegri bókfræðslu mætti sinna að vetrinum.

Ég held, að með samstarfi milli verklegrar og bóklegrar fræðslu búnaðarskólanna við fyrirmyndarbú þau, sem til eru í garðyrkjunni, muni vera hægt að ná alveg sama árangri og næst með því að reisa garðyrkjuskóla á Reykjum í Ölfusi; munurinn yrði aðeins sá, að kostnaðurinn yrði margfalt minni.

En þar sem sá andi ríkir nú á Alþingi, að kostnaðurinn sé algert aukaatriði. og um hann þurfi ekki einu sinni að gera áætlun, þá getur maður búizt við. að málið fái framgang. En ég vildi láta þetta koma fram út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að við, sem erum í minni hl. landbn., viljum engu síður en meiri hl. styðja aukna garðrækt, og að þeir menn, sem hana stunda, fái aukna hagnýta þekkingu, en við sjáum bara leið til að gera það á ódýrari hátt, eins og reynslan mun sýna, ef lög þessi verða samþ.