21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

Hv. frsm. meiri hl. komst ekki framhjá því. að ef reisa á garðyrkjuskóla að Reykjum í Ölfusi þá verður að byggja skólahús, því að það er ekki til. Við höfum nú allmikla reynslu af kostnaði við byggingu skólahúsa, jafnvel þó að við jarðhita sé. En með þeirri tilhögun, sem við í minni hl. landbn. leggum til, að verði, þá þarf ekki að byggja neitt hús, en það álít ég höfuðkost.

Af áhöldum er allmikið til, a. m. k. á Hvanneyri, en þar álít ég heppilegt að hafa skólann. Annars eru áhöldin aukaatriði í stofnkostnaðinum og ekki sambærilegt við byggingu skólahúss.

Það er sjálfsagt að taka til athugunar það, sem hv. þm. Mýr. benti á, en ég tel sjálfsagt að nota þá fjárhagslegu hagkvæmnisaðstöðu. sem búnaðurskólarnir bjóða.

Það er rétt, sem hv. frsm. benti á, að fullskipað er á Hvanneyrarskóla, en vitað er, að hinn skólinn hefir ekki verið fullskipaður, og mætti auðveldlega haga því svo til í framkvæmdinni, að garðyrkjunemendum yrði beint til Hvanneyrar, en venjulegum landbúnaðarnemendum að Hólum. Hvernig sem á þetta er litið, þá er mikill munur á fjárhagshliðinni.

Að því er snertir garðyrkju á köldum og heitum stað, þá hefir garðyrkja á bersvæði ólíkt meiri þýðingu. Eftir því, sem mér er tjáð, þá er jarðhiti aðeins á 230 býlum af 6000. Má því sjá, að vegna fjárhagslegrar aðstöðu er miklu meira atriði að veita nauðsynlega undirstöðuþekkingu um garðrækt við venjuleg skilyrði, eins og f. d. kartöflurækt.

Hitt er heldur alls ekki útilokað, sem ég hefi bent á, að hafa samvinnu milli búnaðarskólanna og þeirra garðyrkjubúa, sem við eigum og eru við heitar lindir, eins og t. d. Reykjabúið í Ölfusi og Reykjabúið í Mosfellssveit, sem stjórnað er af sérfróðum manni.

Það þýðir ekkert að gera lítið úr stofnkostnaðinum, því að hann er ærið mikill. — Um þá von hv. þm. Mýr., að búskapurinn muni standa undir skólakostnaðinum, má segja, að alltaf sé hægt að gera sér vonir, en reynslan hefir bara sýnt, að tekjuafgangur búsins hefir hæst numið 4 þús. kr. Þarf heldur ekki um það að deila, að fjárhagshliðin hangir svo í lausu lofti sem frekast getur verið, og hvergi er tiltekið í frv. þessu, að taka skuli lán, og ekki heldur ætlað fé á fjárl. til þessa skóla.

Hv. 9. landsk. þm. sagði, að minni hl. landbn. vildi hrekja málið út af réttri leið, þar sem við vildum, að það færi til búnaðarskólanna. Ég veit ekki, hvort álit hv. þm. á bændaskólunum er þannig, að hann telji bezt að sigla sem flestu framhjá þeim. En það hefir verið bent á með fullnægjandi rökum, að hægt væri að ná sama marki með notkun búnaðarskólanna, ef samkomulag og samstarf yrði tekið upp við þau garðyrkjubú, sem eru við heita staði, og þar sem full þekking er fyrir hendi.