07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Frsm. (Jón Baldvinsson):

Sá rökstuðningur. sem hv. 1. þm. Reykv. færir fram gegn því, að þetta frv. verði samþ. nú, er tvennskonar: Í fyrsta lagi, að þetta mál sé ekki nægilega undirbúið, og í öðru lagi, að þessari kennslu mætti koma fyrir án þess að setja upp sérstakan skóla. Hvað viðvíkur því, að undirbúningur þessa máls sé of lítill, þá getur verið, að hv. 1. þm. Reykv. líti öðrum augum á það en ég, vegna þess að það á að leggja það í hendur stj. að hafa á hendi framkvæmd þess. Eins og kunnugt er, eru andstæðingar hv. þm. í stj. nú, og því skil ég þetta vel. Undirbúningur undir framkvæmd þessu máls hefir nú nokkur farið fram, en ég álít hann sannast að segja ekki svo ákaflega erfiðan eða mikilvægan, að það þurfi að valda neinum vandkvæðum, þótt ég játi, að undirbúningur sé til bóta í hverju einasta máli, en málið er nú satt að segja einfaldara en svo, að það þurfi að vísa því frá þinginu núna, ef menn aðeins treysta ríkisstj. til þess að fara ekki stærra af stað en svo, að þessi byrjun geti orðið myndarleg. Viðvíkjandi því að auka kennslu í garðyrkju við búnaðarskólana, fannst mér það eiga við, sem ég skaut fram í hjá hv. þm., hvers vegna væri verið að hafa sérstaka prestaskóla. Það mætti segja, að það mætti bæta við lýðskólana deild til kennslu í kristnum fræðum til þess að upplýsa menn í þessum efnum, ef það ættti ekki að búa menn sérstaklega undir það, sem menn hafa í hyggju að gera að lífsstarfi sínu. Þarna á einmitt að ala upp ég vil segja stétt til þess að stunda garðyrkju. Ég teldi það til ákaflega mikils gagns fyrir bændauppeldið, ef hver maður, sem færi á slíkan skóla, stundaði sérstaklega garðyrkjunám. Og það eru þegar nokkrir menn, sem hafa gert sér þetta að atvinnu, aðallega á hitasvæðunum. Ég sé því ekki annað, og ég er sannfærður um, að takist vel að hrinda þessu máli af stað, mun þetta koma að ákaflega miklu gagni, þegar fram í sækir, og miklu meira en menn gera sér grein fyrir. Ég vil því leggja á móti því. að þessu máli verði nú vísað frá, og legg til, að þessi rökstudda dagskrá, sem hv. 1. þm. Reykv. ber fram, verði felld. Ég held, að við höfum ekki ráð á því að kasta frá okkur því, ef við getum, að auka fjölbreytni framleiðslunnar í landinu, eins og kvartað er nú með réttu undan því, hve atvinnuvegirnir gangi illa. Ég hygg, að reynslan sé búin að sýna, að þetta sé unnt að reka með góðum árangri, ef búið er að vekja almennan áhuga á þessu. Ég er því á móti þessari dagskrá og teldi illa farið, ef þessu máli yrði frestað um ófyrirsjáanlegan tíma, og ég álít að þetta yrði betra, því fyrr sem á því yrði byrjað.