07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að taka undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, þó að það verði á nokkurn annan hátt. Hann sagði, að óheppilegt mundi vera að setja slíkan skóla á stað, þar sem ekki væru fyrir hendi skilyrði, sem menn almennt eiga við að búa. Þetta tel ég skynsamlegt. Nú er það vitanlegt, að skilyrðin til garðræktar eru nokkuð mismunandi eftir því hvar er á landinu. Loftslagið á Norðurlandi og Suðurlandi er ákaflega ólíkt, og jarðvegurinn á Vesturlandi og Suðurlandi er ákaflega ólíkur. Ef ætti því að reyna að finna einhvern meðalveg og haga kennslunni með það fyrir augum, að nemendurnir gætu stundað garðrækt hver í sínu héraði, þá hygg ég, að væri óhjákvæmilegt, að slíkir skólar væru a. m. k. á Vestur-. Norður- og Suðurlandi.

Það er ekki til neins að halda því fram, að það sé heppilegt að hafa þennan skóla austur á Reykjum. Það er öllum vitanlegt, að jarðhiti er ekki til nema á einum bæ af hverjum fimm eða sex hundruðum, svo að sú kennsla, sem veitt er þar, sem jarðhitaskilyrði eru fyrir hendi, kemur því ekki að almennum notum. Þess vegna er ég á móti þessum skóla, og ég hygg, að eins og nú hagar til á Reykjum, geti þeir, sem búa við hitaskilyrði, fengið þar fræðslu. Þess vegna þarf ekki annan skóla heldur en búið, eins og það er rekið á Reykjum, því að þar má efalaust mikið læra, og þar er sá maður, sem getur kennt mönnum mikið.

En hitt er jafnvíst, að það getur orðið til stórskaða, ef menn læra garðrækt við önnur skilyrði en þau, sem þeir stunda garðrækt við síðar.

Ég hefi átt tal við bændur í mínu héraði einmitt nú, meðan stóð á búnaðarsambandsfundi, og þeir telja varhugavert og alls ekki rétt að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir. Þeir töldu réttara að byrja með því að veita bændum, sem hafa stundað garðrækt með góðum árangri á köldum stöðum, styrk til þess, að þeir gætu tekið nemendur og kennt þeim. Það er ég sannfærður um, að mundi verða happasælast fyrir aukna garðrækt í okkar landi. Þess vegna get ég ekki greitt þessu frv. atkv.