05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Pétur Magnússon:

Það á ekki við við 2. umr. að taka upp almennar umr. um þetta frv. Ég hefi lagt á móti því, að frv. sé samþ., því hér er um að ræða tilraun til þess að þjóðnýta jarðirnar á ný, en sú tilraun hefir áður verið gerð, og allir, sem hér eru, vita, hvernig hún gafst þá. Ég held, að það vanti alla tryggingu fyrir því, að það takist betur í þetta skiptið en hitt.

Það er talað um, að þetta eigi að vera til léttis fyrir þá, sem á jörðunum búa, að þær séu í eign ríkisins. Það mun verða mögulegt fyrir því að komast af á þennan hátt, en til þess að svo sé, þá verður að ívilna ábúendunum þannig, að eftirgjaldið sé lágt og þeir borgi minni vexti en ríkið sjálft á að borga af skuldum þeim, sem ætlazt er til, að það taki að sér. En til þess að svo megi verða, þá verða að vera aðrir atvinnuvegir í landinu, sem geti tekið á sig þann halla sem af þessu verður, og það væri þá æskilegt að fá að heyra hjá þeim hv. þm., sem gera sig að talsmönnum þessa frv., hvaða atvinnuvegir það eru, sem þeir telja færa um að taka að sér þennan vaxtahalla, sem gera má ráð fyrir, ef þeim er alvara með það, að búskapurinn léttist hjá mönnum, eftir að ríkið hefir tekið jarðirnar í sínar hendur. En ég get ekki komið auga á það, að svo muni vera. Annars verð ég að segja, að ég er undrandi á því, að þeir, sem hafa sjálfir upplifað þá breyt., sem varð á búskaparháttum og meðferð jarða, eftir að farið var að selja þjóð- og kirkjujarðirnar, að þessir sömu menn skuli gerast málsvarar þess, að ríkið eignist jarðirnar almennt.

Um einstök atriði frv. er ekki verulega margt að segja. Það má benda á það, að samkv. ákvæðum 2. gr. er ætlazt til þess, að fé náist í þennan sjóð með því að taka í hann afgjöld núverandi þjóð- og kirkjujarða og afgjöld þeirra jarða, sem keyptar verða. En þetta fé, sem á þennan hátt fæst í jarðakaupasjóðinn, er að nokkru leyti a. m. k. tekið frá annari stofnun, sem ætluð er að vinna fyrir landbúnaðinn, ræktunarsjóðnum, sem undanfarin ár hefir fengið afgjaldið af þjóðjörðunum. Hitt er tekið frá kirkjujarðasjóðnum, og býst ég við, að það þyki kenna þar, að ríkisvaldið gerist nokkuð fingralangt gagnvart kirkjunni, ef það ætlast til þess, að afgjöld kirkjujarðanna eigi að taka til þess að kaupa á ný jarðir handa ríkissjóði.

En annars þýðir náttúrlega ekki að taka upp langar umr. um þetta. Meiri hl. þingsins ætlar sér að koma þessu í gegn, og er það í raun og veru í fullu samræmi við þá stefnu, sem er ríkjandi. Það eru jafnaðarmenn, sem yfirleitt segja til um það, hvað á að verða að 1., og þetta er í samræmi við þeirra stefnu. En maður hefði ekki búizt við því fyrir nokkrum árum, að Framsfl. treysti sér óskiptur til þess að ljá fylgi sitt til þess að þjóðnýta jarðirnar.

Ég taldi rétt að gera hér stutta grein fyrir atkv. mínu, en till. mín er sú, að þetta frv. verði fellt.