05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Jón Auðunn Jónsson:

Ástæður hv. frsm. fyrir því, að hann fylgdi þessu frv., voru þær, að það mundi þurfa á næstu árum að selja margar jarðir. Þetta eru ákaflega kyndugar ástæður. Ég veit, að það hefir verið svo um mörg ár, að það hefir þurft að selja mjög mörg skip, og það þarf nú að selja marga tugi skipa, vegna þess að þeir menn, sem hafa haft útgerð með höndum, eru þrotnar. (PHerm: En hér er verið að tala um jarðir). Ég veit það, en þetta er hliðstætt. Það ætti því að stofna annan sjóð ti1 þess að kaupa skip, og vænti ég þess, að hv. þm. taki afleiðingunum af skoðun sinni, ef það kæmi fram frv. um það, að ríkissjóður keypti skip.

Annars hélt ég satt að segja, að það væri ekki til hagsbóta fyrir búnaðinn í landinu, að ríkið færi að kaupa jarðir.

Ef það væri nokkur alvara á bak við það, sem hv. frsm. sagði, að þeir, sem eiga jarðirnar, kæmust léttara út af búskapnum, ef ríkið keypti þær, þá þyrfti í því að liggja það, að ríkið keypti jarðirnar fyrir lágt verð, miklu lægra en þær eru virtar, og gæti þess vegna látið ábúendurna fá miklu hagkvæmari kjör í leigu jarðanna en annars væri. En þetta leiðir til þess, að þeir, sem lánað hafa út á jarðirnar, og lánað kannske fullvirði, eins og lánað hefir verið út á margar jarðir, eiga að tapa einhverju af sínu fé. Að öðru leyti er ætlazt til þess, að teknar séu tekjur ræktunarsjóðs til þess að standa undir þessum jarðakaupum. En það er mér kunnugt um, að af öllu því, sem gert hefir verið fyrir íslenzkan landbúnað, þá álíta nálega allir bændur, að ræktunarsjóðurinn hafi verið ein sú almest, lyftistöng fyrir landbúnaðinn á undanförnum árum. Nú á ríkið að taka hann til þess að kaupa af einhverjum tilteknum mönnum jarðir, sem þeir eru í vandræðum með, af því að þær eru of dýrar eða þeir eru of skuldugir til þess að geta búið á þeim.

Ég held, að þó að það færi svo, að búnaðarbankinn þyrfti að taka nokkrar jarðir, en það mun ekki ósennilegt, og eignast þær með opinberu uppboði, að hann mundi ekki verða lakari landsdrottinn en ríkissjóður. Mér er kunnugt um, að búnaðarbankinn hefir leigt tvær jarðir. þar sem ég þekki til, fyrir miklu lægra afgjald en nemur vöxtum að þeirri skuld, sem á viðkomandi jörðum hvílir. Það er ekki nema eðlilegt, að lánsstofnun, sem veitir lán, taki á sig einhverja áhættu og einhvern halla, þegar illa gengur. Það mun svo vera um hina bankana, að þeir þurfa oft að taka aðrar fasteignir, eins og t. d. skip, fyrir hærra verð en þeir geta selt eða leigt þau, og verða því að standa undir þeim halla, sem af þessu leiðir.

Ef bændur landsins væru yfirleitt spurðir um það, hvort þeir vildu, að ríkið tæki eitthvað af tekjum ræktunarsjóðs til þess, að ríkissjóður gæti fengið nokkrar jarðir til þess að braska með, og það ef til vill á miður heppilegan hátt, eftir því, sem stjórnarfarið er í landinu, þá mundu bændur segja, að þeir vildu heldur, að ræktunarsjóðurinn væri látinn halda sínum tekjum, svo að hann gæti hjálpað til þess að auka ræktunina í landinu.

Þetta er eitt af þeim málum, sem jafnaðarmenn hafa fengið Framsfl. inn á, þvert á móti yfirlýstri stefnuskrá hans.