31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjmrh. hefir gert nokkrar aths. við 15. og 17. gr. frv., sem eru á rökum byggðar. Ég mun sjá um, að þetta verði athugað í n. Hvað viðvíkur lántökunum og ábyrgðum ríkissjóðs er það að segja, að þetta er gamalt mál. Það væri að mínum dómi engin ósköp, þó að ekki þyrfti að standa á ríkissjóði, þegar héruðin eru reiðubúin að leggja fram sinn hluta. En mér er kunnugt um, hvað þetta hefir gengið illa, og ég geri mér ekki vonir um betri endalok þessa máls nú á þessu þingi heldur en áður hefir orðið raun á.

Hv. 11. landsk. hefir ekki gætt þess, að í frv. er heimild til að veita undanþágu frá skólaskyldu 7–9 ára barna. Hitt tel ég nauðsyn, að færa skólaskylduna niður í 7 ár í kaupstöðunum. enda er hún víst nú þegar komin niður í 8 ára aldur.

Í sveitum ganga óskir manna allar í þá átt að fá þar heimavistarskóla. Og það þarf enginn að óttast, að reistir verði þar heimavistarskólar annarsstaðar en þar, sem fólkið óskar sérstaklega eftir því. Á meðan tillagið til þeirra er ekki nema 50–60 þús. kr. á ári, þá þarf áratugi til þess að byggja upp skóla landsins. Nú bíða jafnan milli 10 og 20 skólahéruð árlega eftir að fá styrk úr ríkissjóði til þessara hluta.

Um námsstjórana lít ég svo á, að skólastjórar í kaupstöðum séu hér í frv. ekki gerðir að eftirlitsmönnum með sjálfum sér, heldur með kennslunni yfirleitt og hinum kennurunum, og það eru þeir raunar, eins þó að þessi l. verði ekki samþ.