27.02.1936
Efri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Frsm. Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv. er flutt af sömu n. og vélstjórafrv., eftir tilmælum hæstv. atvmrh. Það lá fyrir síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgr. N. gerði þá við það nokkrar brtt., sem sjá má á þskj. 461 frá því þingi, og hefir n. tekið þann kost nú að fella þær brtt. inn í frv., en þær eru engar veigamiklar, heldur eru þær leiðréttingar aðallega. — Við 2. umr. mun verða gerð nánari grein fyrir þessum breyt., og ætla ég því ekki að ræða þær ýtarlega nú, enda hygg ég, að þær séu hv. þdm. þegar kunnar. — Annars er þetta frv. um eina af þeim sérfræðigreinum, sem þeir einir, er sett hafa sig inn í málið, eiga létt með að dæma um. Frv. er samið af mþn. í sjávarútvegsmálum, og í þeirri n. var að verki sá maður hér á landi, Friðrik Ólafsson, sem manna bezt vit mun hafa á þessum efnum, og mun því óhætt að treysta því, að vel sé vandað til frv. Hinsvegar vill n. hafa rétt til að gera brtt. við frv., ef henni svo sýnist, en ekki tel ég þó ástæðu til, að frv. sé vísað til n., en óska, að því verði vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni.