27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

120. mál, jarðræktarlög

*Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það eru aðeins nokkur orð nú, því að ég vona, að síðar gefist tækifæri til þess að ræða málið ýtarlega. Það var ekki nema eðlilegt, þó að ýmsar aths. kæmu fram, og hafa þær ekki verið meiri en ég gat búizt við. Það er svo, að um þau atriði málsins, sem eru ný, getur alltaf orkað nokkuð tvímælis, og verður ekki með vissu sagt, fyrr en reynslan sker úr, hvað bezt er. Þess vegna er fjarri því, að ég amist við, þó að menn líti misjöfnum augum á sum atriði frv. Hitt er miklu undarlegra, þegar menn eru að gera sér hugmyndir um, að alveg skýr og augljós ákvæði feli í sér og geti til vegar komið allt öðru en möguleikar eru til eftir eðli málsins, eins og hv. 7. landsk. gerði í sambandi við reglurnar um kosningar til búnaðarþings, þar sem hann segir, að með þeim sé verið að snúa þá hengingaról að hálsi búnaðarfélagsins, sem muni drepa það. Það er naumast, að hv. þm. gerir bændunum hátt undir höfði, þegar hann talar um, að það muni verða hengingaról á búnaðarfélagið að veita bændunum sjálfum aukin réttindi til áhrifa á stj. þess og framkvæmdir. (ÓTh: Er verið að auka réttindi bændanna?). Hv. þm. G.-K. mun ekki komast hjá að viðurkenna, að það er að treysta um of á einfeldni bændanna, að þeir kunni ekki að dæma um þetta atriði. Ég ætla ekki að fara langt út í einstök atriði nú, enda hefir ekki mikið komið fram umfram það, sem snertir kjör til búnaðarþingsins, og nokkur atriði, sem hv. þm. A.-Húnv. vék að um skiptingu styrksins. Hv. 7. landsk. vék að því, að það kynni að vera meira en hæpið valið á búnaðarmálastjóranum, t. d. séu engin ákvæði, sem geri ráð fyrir ágreiningi milli ráðh. og búnaðarmálastjóra vegna ráðherraskipta. En það er gert með ráðnum hug, að ekki felist í l. neitt það, sem gefi tilefni til ágreinings. Fari svo, að búnaðarmálastjóra og ráðh. greini á, þá verður tíminn og reynslan að skera úr, hvernig því farnast. Hinsvegar fannst mér hv. þm. ekki færa sterk rök fyrir sínu máli. Eins og hv. 2. þm. N.-M. tók fram, fer búnaðarmálastjórinn með mörg mál fyrir hönd ríkisvaldsins, og á meðan svo er, er eðlilegt, að hann sé ráðinn með samþykki ráðh., því að það er nauðsynlegt, að milli þessara tveggja manna sé gott samkomulag. En það er vitaskuld ekki höfuðatriði, hvernig þetta er orðað, og mætti taka til athugunar bendingu hv. 7. landsk. og setja innskotssetningu um, að úrskurður ráðh. næði aðeins til þeirra mála, sem búnaðarfélagið fer með fyrir það opinbera. Ég bjóst við, að það mundi verða talið nægilegt, ef skýrt væri tekið fram í framsögu, hve víðtækt þetta skyldi vera, en ef menn vilja hafa það á annan veg, er ég ekki á móti, að tekið sé fram, að ekki sé ætlazt til, að ráðh. hlutist til um þau mál, sem búnaðarfélagið fer með utan hinna opinberu mála fyrir ríkisvaldið, svo sem framkvæmd ýmsra 1. Hv. 7. landsk. vék að mörgu, en ræddi þó einkum um skipun búnaðarþingsins. Þá sagði hv. þm., að landssamband bænda gæti haft nægileg verkefni. Það má e. t. v. segja svo, en ég býst þó við, ef búnaðarfélagið yrði verulega öflug stofnun, að þess væri ekki þörf, en með þessum ákvæðum er ekki verið að leggja neinn stein í götu þess félagsskapar, og vil ég ekki fullyrða, nema verkefni geti verið fyrir hann. Þá vildi hv. 7. landsk. telja þetta kosningafyrirkomulag af pólitískum toga spunnið og nefndi því til styrktar, að form. Framsfl. væri óánægður með skipun búnaðarþings. Mun ég leiða hjá mér að blanda mér inn í umr. um skrif hv. þm. S.-Þ. um þessi efni.

Ég vil spyrja hv. 7. landsk., hvort hann álíti tryggara til þess að halda félaginu utan við pólitík, að halda bændunum sem lengst frá lífrænu sambandi við félagið með þeim krókaleiðum, sem nú eru farnar við kosningu til búnaðarþings. Það er vitanlega alveg eins að því er pólitíkina snertir. En hvað þýðir að vera að þyrla upp öllu þessu ryki um það, að hér sé verið að leiða pólitík inn í félagið, þar sem ekki er hægt að banna með lagaákvæðum, að þar komi fram pólitísk áhrif? Það verður alltaf komið undir viðhorfi manna á hverjum tíma. Þess vegna er allt þetta skraf aðeins moldryk, sem á sér enga stoð í veruleikanum.

Hv. 7. landsk. vék að því, að ef þetta væri réttmæt íhlutun um fyrirkomulag búnaðarfélagsins af hálfu löggjafarvaldsins, þá væri óeðlilegt, að fulltrúar SíS. skuli ekki kosnir á sama hátt. Ég skal ekki fjölyrða um þetta atriði, því að það er alls ekki sambærilegt, vegna þess að þar stendur allt öðruvísi á. Þó er ekki svo að skilja, að starf kaupfélaganna og SíS, sé ekki þýðingarmikið, en þess verður að gæta, að þeim félagsskap er ekki falin forsjá eða umboð á framkvæmdum l. fyrir það opinbera, eins og búnaðarfélaginu. Og þeirri íhlutun er heldur ekki ætlað að standa, nema meðan því er falin forsjá á málum fyrir það opinbera. Ég ætla, að SíS, sé ekki falin forsjá eða umboð fyrir annað en áburðarsöluna. En um það má semja við hvaða verzlun sem er, hvort heldur er við Sís, eða einhvern kaupmann, og þykist ég vita, að þeir samningar, sem um þetta hafa verið gerðir, séu bundnir við stuttan tíma. Er slíkt á engan hátt sambærilegt við það, sem búnaðarfélaginu er falið samkv. 1. Ég kann ekki við þetta tal hv. 7. landsk., að með þessu sleppi bændurnir stjórn búnaðarmálanna úr hendi sér, einmitt þegar hér er lagt til, að bændurnir hafi kjörið til búnaðarþings alveg á valdi sínu. Í frv. er enginn varnagli sleginn fyrir því hvernig það verður skipað. Var helzt að heyra á hv. þm., að fyrirfram væri ákveðið, hvernig kjörið félli. Um það get ég ekki sagt, en eitt er víst, að viðhorf bændanna nýtur sín þannig betur en nú, og það á það að gera. Hans góðu ummæli um búnaðarþingsfulltrúana skal ég fúslega viðurkenna, enda hefir ekkert hnjóðsyrði fallið í þeirra garð frá mér.

Hv. 7. landsk. leyfði sér að lokum að segja, að með þessu væri verið að draga búnaðarfélagið niður í pólitískt sorp. Þó margt gerist í pólitíkinni, sem ekki er glæsilegt, þá kemur það úr hörðustu átt, að þm. séu að tala um pólitískt sorp. Ef svo væri, að störf þeirra bæru þann keim, þá væri æskilegra og viðkunnanlegra, að hv. þm. reyndu að koma því í betra horf. (ÓTh: Og reyna mikið). Ég skal taka undir það með hv. þm. G.-K.

Ég vil að lokum spyrja hv. 7. landsk. um, hvað búnaðarfélagið hafi til saka unnið. Ég veit ekki, hvers vegna hv. þm. er með þetta tal um sekt og refsingu, sem í frv. sé fólgin, á hendur búnaðarfélaginu. Ég kann ekki við þetta tal hv. þm., því að fyrirmæli frv. gefa ekki tilefni til þess, og hvorki í grg. frv. eða ræðu minni hefir verið vikið að því, að búnaðarfélagið hafi ekki gert skyldu sína eftir beztu getu.

Eins og nú er, þarf ráðh. að samþ. áætlun búnaðarfélagsins, og er hann þó pólitískur maður. En ég vona, að það sæti verði þannig skipað, að ekki verði ástæða til að gera aths. við hans störf þar, enda hafa menn fallizt á þá ráðstöfun ágreiningslaust. Þó búnaðarfélagið hafi ekki getað sinnt öllum áhugamálum bænda, þá verður ekki um það deilt, að það hefir unnið margt vel. Hinu er ekki hægt að neita, að meðan búnaðarfélagið hefir með böndum framkvæmdir ýmsra búnaðarmála og mikil fjárráð, er ekki óeðlilegt, að valið sé til búnaðarþings með þeim hætti, að þeir menn, sem stunda búskap í landinu, kjósi sjálfir. En svo er verið að segja, að með því sé búnaðarfélagið dregið niður í sorpið. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. ætlar að sanna það, sem hann sagði, að pólitísk ríkisstj. geti eftir frv. farið með félagið eftir vild. En ég vil vona, að hvenær sem ráðh. ætlar að nota aðstöðu sína í pólitísku augnamiði, en félaginu til skaða, verði því svarað á þann veg, að sá ráðh. fari ekki lengi með þau mál.

Hitt held ég, að sé ekki óviðfelldið á 100 ára afmæli búnaðarfélagsins, að bændur sjálfir kjósi fulltrúa á búnaðarþingið. Ég hygg, að það verði fremur talið vegsauki fyrir bændurna en þeim til minnkunar. Það er satt að segja hart að heyra menn vera að tala um slíkt.

Þá skal ég í stuttu máli víkja að hv. þm. A-.Húnv. En að svo miklu leyti, sem hann kom inn á sömu atriði og hv. 7. landsk., mun ég ekki svara því aftur. En mér þykir undarlegt að heyra, að búnaðarfélagið sé að afsala sér völdunum í hendur ríkisins, eða jafnvel að verið sé að leggja það niður. Ég verð þó að segja, að það að tilnefna 2 stjórnarmenn af 3 er þó sterkari íhlutun en í þessu frv. felst.

Hv. þm. A.-Húnv. taldi, að hæpið væri að greiða svo misháan styrk til framkvæmda eins og hér er lagt til, og hann taldi, að fyrir okkur hefði ekki vakað annað en að styrkurinn hefði ekki verið nægilegur, og það hefði staðið í vegi fyrir því, að meira væri búið að gera á sumum jörðum. En þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það er látið í ljós í grg., að það geti stafað af ýmsum ástæðum, og sýnilegt, að við komum auga á það. Sumpart getur það verið vegna þess, að á þeim jörðum, þar sem lítið hefir verið gert, séu góð engja- eða áveitulönd, og ábúandanum hafi þar af leiðandi ekkert verið um það gefið að leggja í jarðrækt, og sumpart getur það stafað af því, að tún hafi frá náttúrunnar hendi verið svo góð, að ábúanda hafi ekki fundizt sérstök þörf á miklum umbótum. En ef til vill eiga þó ábúðarskilmálar meiri þátt í því, hve lítið er gert á einstökum býlum. Ég hygg, að það geti verið mjög mikilsvert atriði.

En það er eftirtektarvert og athugavert, að á 753 býlum er meðalstyrkur á býli ekki nema 49 krónur og á 2141 býli ekki nema 276 krónur. Það er eitthvað, sem stendur hér í vegi, annað en jarðargæði og að menn gefi ekki um jarðrækt.

Því ber ekki að neita, að það dæmi, sem hv. þm. A.-Húnv. tók um land, sem hefði verið brotið og jarðrækt væri komin undir það hámark, sem hér er sett, getur átt sér stað. En það verður þá að vera framúrskarandi mikil ræktun, nema sérstaklega mikil framræsla sé í því fólgin, ef styrkurinn er orðinn svo hár og ekki er búið að byggja. Ég gæti trúað því fremur, ef búið væri að byggja mikið, en jarðrækt komin stutt áleiðis, að þetta gæti komið óþægilega við. Það getur verið misjafnt, hvernig til hagar, en það kemur ekki til mála, að ekki megi setja hámark. Ég þori ekki að fullyrða, að þetta hámark sé það heppilegasta, en ég held, að það sé bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að setja hámark.

Hv. þm. A.-Húnv. vék að 17. gr. og sagði, að hér eftir mætti ekki telja styrkinn gjöf, heldur lán, sem fylgdi býlinu. Þetta er rétt. Ef jörð selst fyrir ofan fasteignamat, þá á að draga frá þann hluta verðhækkunarinnar, sem af styrkveitingunni leiðir, og greiða hann til hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóðs. Hátt jarðarverð er plága fyrir landbúnaðinn, og það þarf að vinna á móti því, að jarðir geti hækkað óeðlilega í verði. Þótt þessu sé varpað fram, þá vil ég ekki staðhæfa, að þetta sé það bezta og sjálfsagðasta ákvæði, sem að haldi geti komið, en þarna er bent á leið til þess að hindra, að jarðir komist í óeðlilega hátt verð, sem alltaf hlyti að verða landbúnaðinum til tjóns. Ef komið er með annað heppilegra fyrirkomulag en það, sem þarna er bent á, þá skal ég vera manna fúsastur til að fallast á það, ef sýnt er fram á, að það sé til bóta. — Þá vék hv. þm. að því, eins og rétt er, að ef jarðir lækka í verði, þá er ekki gert ráð fyrir hlutfallslegri lækkun af því fé, sem gengið hefir til styrktar býlinu. Um þetta töluðum við, og þótt það sé í enga staði óeðlilegt, að ákvæði sé sett um þetta, þá er það svo hæpið og vandasamt, að okkur virtist bezt að láta það liggja á milli hluta. Það getur verið skoðanamunur á þessu, en það yrði vandasamt verk í framkvæmd. Það er hægt að setja þetta á pappír, en að það leiddi ekki til misbeitingar, þegar eigendaskipti verða á býlum. það er ég ekki eins viss um.

Hv. þm. A.-Húnv. lét þess getið að lokum, að hann gæti gengið inn á þá leið, að mishár styrkur væri greiddur, en hér væri ekki stungið upp á heppilegustu leið, og væri þá heppilegra að taka tillit til þess, hversu vel jarðabætur væru vandaðar. Nú er það meining okkar, að allar jarðabætur séu vandlega unnar og að það tíðkist ekki, eins og verið hefir, að greiddur sé styrkur fyrir þær umbætur, sem engar eru. Það eru engar jarðabætur, þótt land sé plægt niður og síðan látið liggja í plógstrengjunum og gróa þannig á ný. Ég er ekki að ásaka búnaðarfélagið fyrir þetta, en þetta á ekki að ganga þannig til. En í þessu frv. eru ákvæði, sem snerta einmitt þetta atriði og ætla að koma að haldi og verða til þess, að betur verði vandað til jarðabóta eftirleiðis heldur en tíðkazt hefir síðan jarðræktarlögin komu í gildi.

Ég ætla svo ekki að víkja frekar að þessu; ég sé ekki ástæðu til þess. Það skyldi gleðja mig, ef kæmu fram till. um þetta mál frá hv. þdm. Ég efast ekki um, að þeir beri þetta mál mjög fyrir brjósti. Þetta er þýðingarmikið mál og varðar bændastéttina miklu, hve vel er til þess vandað, og ég tek með ljúfu geði hverri brtt., sem má verða til góðs fyrir þetta mál.