08.05.1936
Efri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

120. mál, jarðræktarlög

*Pétur Magnússon:

Áður en ég sný mér að efni frv. þess, er hér liggur fyrir, vil ég með örfáum orðum víkja að meðferð málsins hér á hv. Alþingi. Hæstv. forsrh. hefir haldið því fram, að frv. hafi fengið óvenjulega góðan undirbúning, verið samið af hinum hæfustu mönnum og fengið nákvæm, athugun, áður en það var lagt fyrir Alþingi. Út af fyrir sig skal það ekki vefengt, að góðir menn og gegnir hafi staðið að samningu þess, né heldur að þeir hafi dregið að sér ýmiskonar fróðleik um íslenzk ræktunarmál og lagt mikla vinnu í samningu frv. En það er þá líka það eina, sem sagt verður lofsamlegt um undirbúning málsins. — Frv. kemur þá fyrst fram á Alþingi, er fáar vikur eru eftir til þingslita og eftir að þingannir eru orðnar hvað mestar. Hingað til Ed. kemur málið þegar 5 dagar eru eftir af þingi. Það er ekki einu sinni haft svo mikið við þetta stórmál hér í d., að það sé lesið yfir í n., enda enginn tími til þess. Og er þó vissulega sitthvað í frv., sem full þörf hefði verið að lagfærra, án tillits til höfuðefnis þess. En frv. fylgdu þau skilaboð til hv. Ed., að gagnslaust væri að bera fram brtt. við það, því að þær mundu eigi ná fram að ganga, hvers efnis sem þær væru. Er þetta alveg sama aðferð og höfð var hér í þessari sömu deild í 2 stórmálum á síðasta þingi. En slík aðferð er á allan hátt óverjandi og óviðurkvæmileg. Hæstv. forsrh. sagði að vísu hér í d. við 2. umr. málsins, að reglan væri sú, að lagafrv. breyttust sízt á betri veg í meðferð þingsins. (Forsrh.: Það sagði ég aldrei). Jæja, það mátti skilja það svo. En það mætti ef til vill spyrja þennan hæstv. ráðh., hvert hann telur vera hlutverk alþm., ef ekki að gagnrýna frv. þau, er fyrir þinginu liggja, og reyna að bæta úr ágöllum löggjafarinnar, sem ætið verða nægir, jafnvel þó vel sé til hennar vandað. Þessi hugsunarháttur ráðh. sýnir ekki annað en það, hversu rík er orðin einræðishneigð hans og hverja lítilsvirðingu hann hefir fengið fyrir lýðræðinu, sem flokkur hans þó jafnan er með á vörunum.

En þó ég telji það með öllu óverjandi að kaldhamra frv. þetta gegnum þingið, án þess a. m. k. önnur deildin fái nokkra aðstöðu til að hafa áhrif á það, þá álít ég samt hitt sýnu verra, að gera slíka breyt. á búnaðarlöggjöfinni, að sumu leyti hreina stefnubreytingu, án þess að búnaðarfélagsskapnum í landinu og bændunum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi. gefist nokkur kostur á að láta uppi álit sitt um málið. Og þetta harðfylgi við að knýja málið í gegn á þessu þingi verður ennþá óskiljanlegra, þegar þess er gætt, að sumar aðalbreyt., og það þær, sem mesta praktiska þýðingu hafa, eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en eftir 2 ár. Þegur þessa er gætt, þá virðist mér það ganga ósvífni næst að synja bændunum þess að athuga og ræða löggjöfina og gera till. sínar um hana. Það mætti ef til vill minna á það, að fyrir þessu sama þingi lá annað frv., sem önnur stétt manna — verkamenn — taldi varða hagsmuni sína. Á ég þar við frv. um vinnudómstól. Frv. það hafði þó áður verið sent Alþýðusambandinu, er hafði haft það alllengi til athugunar, en án þess að svo stöddu að vilja taka afstöðu til þess. Hæstv. forsrh. hafði lýst sig samþykkan efni þessa frv., og hann hafði langsamlega nóg atkvæðamagn til þess að gera það að lögum. En hann gerði það ekki. Hvers vegna? Af því að hann tók það mikið tillit til stéttarsamtakanna, sem þar áttu hlut að máli, að hann vildi ekki ganga í berhögg við þau. En mér er spurn: Eru stéttarsamtök bændanna svo miklu réttlægri, að rétt sé að knýja fram mál slíkt sem þetta án þess að svo mikið sé haft við, að álits þeirra sé leitað. Jarðræktarlagafrv. varðar vissulega hagsmuni bændastéttarinnar miklu meira en frv. um vinnudómstól varðar hagsmuni verkamanna, og það var því sannarlega ekki síður ástæða til að leita umsagnar hlutaðeigenda um þau en hitt frv., sem ég hefi nefnt. Frá hverju sjónarmiði, sem á málið er litið, tel ég því óverjandi að knýja málið fram svo sem gert er.

Skal ég þá snúa mér að efni frv. og mun aðallega eða máske eingöngu gera að umtalsefni 3 af þeim breyt., er frv. gerir á gildandi löggjöf. Mun ég taka þær í þeirri röð, sem þær eru í frv., og verður þá fyrst fyrir ákvæði 1. kafla frv. um stjórn ræktunarmála.

Þegar jarðræktarlögin upphaflega voru sett, árið 1923, var svo fyrir mælt í þeim, að Búnaðarfélag Íslands skyldi hafa á hendi framkvæmd þeirra ræktunarmála, sem lán eða styrkur er veittur til úr ríkissjóði. En jafnframt er það skilyrði sett, að meðan félagið fari með þessi mál í umboði ríkisvaldsins, skuli meiri hl. í stjórn þess tilnefndur af atvmrh. eftir till. landbn. Alþingis. Að öðru leyti var félagið látið sjálfrátt um, hvernig það skipaði málum sínum, enda var hér um gamlan félagsskap að ræða, stéttarsamtök bændanna, sem þeir árum saman höfðu falið forsjá mála sinna, svo langt sem starfsvið þess náði. Samt sem áður mæltist þessi íhlutun ríkisvaldsins um innbyrðismálefni félagsins illa fyrir og sætti mikilli mótspyrnu innan félagsins. Ár eftir ár krafðist búnaðarþing þess, að félagið fengi fullt forræði mála sinna, rétt til að velja sér stjórn á eigin spýtur, án íhlutunar ráðh. eða Alþingis. Þessi krafa mætti þó mótspyrnu á Alþingi frá ýmsum flokkum, og skal það mál ekki rakið frekar. Loks varð það þó úr á síðasta þingi, að ekki þótti fært að standa móti kröfum félagsins lengur, og var þá fellt burtu ákvæðið um, að meiri hl. stjórnar félagsins skyldi skipaður af ráðherra.

Í frv. því, er hér liggur fyrir, er nú haldið óbreyttu ákvæðinu um það, að Búnaðarfélag Íslands skuli hafa á hendi umsjón með framkvæmd þeirra ræktunarmála, sem styrkur er veittur til skv. lögunum. Og félaginu eru engin skilyrði sett um það, að það megi ekki velja sér stjórn á eigin spýtur. En sagan er ekki öll sögð með því. 2. og 3. gr. trv. fela í sér ákvæði, sem beinlínis svipta félagið forræði sinna eigin mála, svo framarlega sem það vill takast á hendur umsjón með framkv. jarðræktarlaganna. 2. gr. setur það skilyrði fyrir umboðinu, að skipulag félagsins og starfsreglur séu í samræmi við ákvæði laganna. 7. gr. setur svo reglur um skipulag félagsins, reglur um tilhögun hins æðsta valds þess, búnaðarþingsins, og mælir í höfuðdráttum fyrir um, hvernig kjósa skuli til þess. Þá mælir 2. gr. ennfremur svo fyrir, að meðan búnaðarfélagið þurfi umsjón með ræktunarmálunum, skuli val búnaðarmálastjóra bundið samþykki landbrh., og loks mælir 3. gr. svo fyrir, að ef stjórn félagsins og búnaðarmálastjóra greini á um þau mál, er félagið fer með í umboði ríkisvaldsins, megi skjóta ágreiningnum til landbrh., er fellir fullnaðarúrskurð um málið.

Það getur nú engum manni blandazt hugur um það, að með þessum ákvæðum, sem ég nú hefi nefnt, er sjálfsforræði félagsins mjög verulega skert. Það er ekki annað en argasta rökvilla, að þessi margnefndu ákvæði lúti aðeins að því að takmarka umboð félagsins til að hafa á hendi stjórn ræktunarmálanna. Hver getur talið þann félagsskap hafa fullt forræði sinna eigin málefna, sem ekki má ráða félagslögum sínum og ekki ráða sér mann á eigin spýtur til að stjórna framkvæmd málefna sinna? Það getur enginn gert í fullri alvöru.

Ég verð nú að segja það, að mér er ekki ljóst, á hvaða rökum það er reist að taka af þessum sléttarsamtökum bændanna sjálfsforræði, þótt þeim séu falin forræði vissra mála, sem einvörðungu snerta hagsmuni þeirra. Það mætti benda á það, að öðrum stéttarsamtökum, t. d. Alþýðusambandi Íslands, eru falin ýms störf í lögum, en ég hefi ekki orðið þess var, að nokkrum hafi komið til hugar að ákveða skipulag þess félagsskapar með lögum, enda er hætt við, að þjóta mundi í einhverjum skjánum, ef inn á þær brautir ætti að fara. En ég vil ekki kannast við, að bændastéttin sé það verr mennt en aðrar stéttir, að með löggjöf — og þá um leið með íhlutun annara stétta þjóðfélagsins — þurfi að leggja henni lífsreglur um það, hvernig hún eigi að byggja upp stéttarsamtök sín. Ég lít svo á, að samtök bændanna, búnaðarfélagið, séu með þessum ákvæðum algerlega að ástæðulausu óvirt, og breytir þar engu um, þótt bændur hafi að einhverju leyti staðið að samningu frv.

En það er önnur hlið á þessu máli, sem er þess verð, að henni sé gaumur gefinn. Það er sú takmörkun á umboði félagsins til að hafa á hendi stjórn ræktunarmálanna, sem frv. felur í sér. Í fyrsta lagi er landbrh. ætlað að samþ. val búnaðarmálastjóra, sem í framkvæmd mundi vitanlega þýða það, að ráðh. útnefni búnaðarmálastjóra. Hann hefir það í hendi sinni að neita að samþ. nokkurn annan en þann einn, sem hann sjálfur hefir augastað á. Og í öðru lagi hefir svo þessi umboðsmaður ráðh., sem ætla má, að yrði honum að jafnaði allháður, heimild til að skjóta til ráðh. hverju ágreiningsatriði við stj. félagsins, þó hún standi samhuga, ef málefnið að einhverju leyti telst varða framkvæmd ræktunarmálanna Í framkvæmdinni verður þetta því þannig, að búnaðarfélagsstjórnin verður aðeins ráðgefandi um ræktunarmálin, verður valdalaus stofnun, sem á pappírnum á að hafa stjórn ræktunarmálanna, en verður að lúta boði og banni ráðh. í hvívetna. Þessa tilhögun telur hæstv. landbrh. svo sjálfsagða, að hann fyllist djúpri hneykslun og vandlætingu, ef nokkur ber brigður á, að þetta sé hin eina rétta leið, þ. e. a. s. hann hefir ekki sýnt það hér í þessari hv. d. núna, heldur kom það fram við 2. umr. og í hv. Nd. við umr. þar. En vitanlega er hér um algera stefnubreyt. að ræða frá gildandi löggjöf, sem óskorað hefir falið búnaðarfélaginu stjórn ræktunarmálanna. Það, sem hér verður að gera sér grein fyrir, er það eitt, hvor leiðin sé heppilegri, — hvort heppilegra sé að leggja yfirstjórn þessara mála í hendur hins pólitíska ráðh., hver sem hann er og hvort sem hann ber nokkurt skyn eða ekkert á þau mál, sem um er að ræða, eða að fela hana Búnaðarfélagi Íslands, stéttarfélagsskap þeirra manna, sem að meira eða minna leyti eiga afkomu sína undir því, að vel takist til um úrlausn málanna. Á mig bíta ekkert slagorð um það, að ríkið eða ríkisvahlið megi ekki afsala sér íhlutun um jafnmikilvæg mál og þessi. Það er sjálfgefið, að Alþingi verður á hverjum tíma að ráða því, hve miklu fé er varið úr ríkissjóði til ræktunar og annara slíkra framkvæmda. Ég tel það ekki, þó annar endurskoðandi sé valinn af landbn. Alþingis, því að ekki er nema eðlilegt, að ríkisvaldið vilji hafa nokkurt yfirlit um fjárgeymslu félagsins sérstaklega. En að öðru leyti er ekkert athugavert við, að yfirstjórn ræktunarmálanna sé falin öðrum en ríkisstjórn, enda þess mýmörg dæmi um önnur málefni engu þýðingarminni fyrir þjóðfélagið. Ég vil líta á það eitt, í hvors höndum málunum sé betur borgið, búnaðarfélagsins eða ráðh., hvor aðilinn sé líklegri til að ráða yfir þeim hæfileikum og þeirri þekkingu, sem nauðsynleg er til góðrar úrlausnar málanna. Ég ætla, að á því leiki ekki vafi, að þegar farið var inn á þá braut að fela búnaðarfélaginu stjórn ræktunarmálanna, þá hafi það verið gert af þeim ástæðum — fyrst og fremst að minnsta kosti — að menn hafi ekki komið auga á aðra stofnun, sem betur þætti fær til að inna starfið vel af hendi. Og ég ætla, að þetta sé óbreytt ennþá. Það verður að gera ráð fyrir, að búnaðarfélagið á hverjum tíma ráði yfir þeim starfskröftum og þeirri þekkingu á málefnum landbúnaðarins, að ekki sé á betra völ. Auðvitað kemur mér ekki til hugar að halda því fram, að búnaðarfélagið sé óskeikult, og yfirleitt er ég lítið trúaður á óskeikulleika. Ég er þess vegna heldur ekki trúaður á óskeikulleika ráðh., og þó þeim mun síður fyrir það, að engin trygging er fyrir, að hann beri nokkurt skyn á þau mál, sem hér ræðir um, og engu fremur fyrir það, þó hann heiti landbrh. Skoðun mín er því sú, að þessi nýbreytni frv., að taka stjórn ræktunarmálanna raunverulega úr höndum Búnaðarfélags Íslands og leggja hana í hendur ráðh., sé afturför, en ekki framför.

Annað atriði málsins, sem ég vildi nokkuð gera að umræðuefni, er ákvæði 11. gr. um hámarksstyrkinn og hinar mismunandi styrkveitingar. Gr. mælir svo fyrir, að býli, sem samtals hefir fengið minni styrk en 1000 kr., skuli fá viðbótarstyrk miðað við þann venjulega stiga, er nemi 20%. Býli, sem hafa fengið 4000–5000 kr. styrk. eiga aftur að fá 20% minna, og býli, sem fengið hefir fullar 5000 kr., á einskis styrks að njóta. Hér er um algert nýmæli að ræða í lögunum og algerða stefnubreyt. frá hinni fyrri löggjöf, sem ákveðið hefir jafnan styrk til allra fyrir samskonar framkvæmdir og án tillits til, hvort meira eða minna hefir verið gert á býlinu. Til þess að gera sér grein fyrir réttmæti þessarar stefnubreytingar, er óhjákvæmilegt að gera sér það fyrst ljóst, á hverjum grundvelli styrkveitingar til ræktunar eru reistar og með hverju þær verða réttlættur. Það hefir komið fram sú skoðun upp á síðkastið, að jarðræktarstyrkurinn væri einhverskonar persónuleg ölmusugjöf til þess manns, sem hans á að njóta, væri náðarbrauð, sem ríkisvaldið léti hrjóta af borðum sínum til þeirra, sem við ræktun vildu fást í landinu. En ég er á allt annari skoðun í þessu efni, og ég held, að jarðræktarstyrkurinn yrði með engu móti réttlættur út frá þessu sjónarmiði. Ég tel, að það, sem til grundvallar liggur fyrir jarðræktarstyrknum, sé sú skoðun, að maður, sem ræktar jörðina eða kemur upp mannvirkjum, sem nauðsynleg eru í sambandi við ræktunina, auki með því þjóðarauðinn og skapi með því lífsskilyrði fyrir fleira fólk en ella myndi vera. Jarðræktarstyrkinn ber því að skoða sumpart sem uppörvun og sumpart sem framlag úr hinum sameiginlega sjóði borgaranna til þessarar aukningar þjóðarauðsins og til þess að skapa ný lífsskilyrði í landinu. Maðurinn, sem ræktar jörðina, gefur þjóðfélaginu miklu meira en það gefur honum, þótt það leggi fram styrk, sem nemur litlum hluta kostnaðarins. En sé þessi skoðun mín rétt, er afleiðing hennar líka sú, að sá maður, sem mest hefir ræktað, hefir gefið þjóðfélaginu mest og á því sízt að vera sviptur styrk.

Formælendur hinnar nýju stefnu halda því fram, að þegar búið sé að gera tiltekið hámark umbóta á einhverju býli, þá eigi það að vera komið í það horf, að það geti veitt ábúandanum sæmileg afkomuskilyrði. En það virðist augljóst, að þess meira sem gert er á býlinu, þess meiri gróða sem jörðin gefur af sér, þess fleiri menn eigi að geta haft lífsframfæri sitt af henni. Og einmitt nú á þessum tímum, þegar fólkið þyrpist í sjávarplássin og verður að lifa þar að meira eða minna leyti á atvinnubótastyrk, sem aftur er að sliga atvinnuvegina í landinu, virðist það í mesta máta aðgæzluvert að gera nokkrar þær ráðstafanir, sem orðið geta til að draga úr, að aukin séu lífsskilyrði fyrir fólkið í sveitunum. eða dregið sé úr möguleikum sveitanna til að nota eitthvað af vinnuaflinu, sem aðrir atvinnuvegir geta ekki hagnýtt sér. Með þessari takmörkun á ræktunarstyrknum er og verið að vinna móti þeirri eðlilegustu leið til býlafjölgunar á landinu, að jörðunum sé skipt, þegar þær gefa nægjanlega mikið af sér til að framfleyta fleiri fjölskyldum. Mér virðist þannig, að um leið og maður slær frá sér þeirri hugsun, að jarðræktarstyrkurinn sé persónuleg ölmusugjöf, heldur framlag ríkisins til þjóðþrifastarfsemi og hvatning til manna um að leggja á sig erfiði til að auka þjóðarauðinn, þá verði þetta nýmæli frv. á engan hátt varið.

Ég kem þá loks að síðasta nýmælinu, sem ég ætlaði að gera hér að umtalsefni, en það eru ákvæði 17. gr. um það, að jarðabótastyrkurinn skuli teljast vaxtalaust framlag ríkissjóðs, er sé óheimilt að selja eða veðsetja með jörðinni, og að ríkissjóður sé á þann hátt gerður meðeigandi í hverju því býli, sem styrks hefir notið skv. jarðræktarlögum. Um þetta er í sjálfu sér algerlega hið sama að segja og hið síðast umrædda ákvæði, um hámarksstyrkinn. Ef það er rétt, sem ég hefi haldið fram, að maðurinn, scm ræktar jörðina, gefi þjóðfélaginu meira en það gefur honum, þá er líka með öllu óréttmætt að ætla að sölsa undir sig eignir hans á þann veg, sem hér er farið fram á. Það er óréttmætt, a. m. k. meðan þó að nafninu til er verið að byggja þjóðskipulagið á einkaeign og meðan eignarrétturinn í orði kveðnu er verndaður í sjálfri stjórnarskránni. Hinsvegar skal það játað, að þetta getur verið þægileg aðferð til að koma fram því stefnumáli núv. stjórnarflokka að ná jarðeignum í landinu undir ríkissjóðinn. Þetta nýmæli er ekki hægt að rökstyðja út frá öðru en þeirri skoðun, að hér sé um ölmusu að ræða.

Ég hefi því sýnt fram á það í fyrsta lagi, að meðferð þessa máls á þinginu er á allan hátt óverjandi, og þó vegna þess sérstaklega, hvað því hefir verið flaustrað í gegnum aðra deildina (MG: Í gegnum báðar). Það lá þó fyrir Nd. dálítinn tíma, en hér í Ed. hefir enginn tími gefizt til að athuga frv., þar sem hér hafa verið fundir frá morgni til kvölds síðan frv. kom til d.

Í öðru lagi hefi ég sýnt fram á það, að algerlega er óverjandi að gera frv. þetta að lögum án þess að bændum og félagsskap þeirra sé gefinn kostur á að segja álit sitt um það, þar sem hér er um stefnubreyt. að ræða.

Í þriðja lagi hefi ég sýnt fram á, að skerða á stórkostlega — ef ekki er hægt að segja svipta algerlega öllu félagsfrelsi Bf. Ísl. — stéttarsamtök bændanna, og það ekki aðeins í því, sem sérstaklega viðkemur þeim málum, er Bf. Ísl. hefir með höndum fyrir ríkisvaldið, heldur lík, almennt um sín eigin félagsmál.

Ég hefi ennfremur sýnt fram á, að höfuðstefnubreytingin er byggð á skökkum forsendum — byggð á þeim forsendum, að jarðræktarstyrkurinn sé ölmusugjöf til bænda, að það sé verið að gefa þeim með því að veita þeim jarðræktarstyrk, í staðinn fyrir það, að menn, sem rækta jörðina, gefa þjóðfélaginu miklu meira heldur en þeir fá í aðra hönd. Þegar þessa alls er gætt, ræður það af líkum, að ég geri það að till. minni, að þetta frv. verði fellt. Ég hefi sýnt fram á, að jafnvel þó að ætti að koma þessu nýmæli í framkvæmd, þá er nægur tími til þess að setja þessa löggjöf á næsta þingi, því að höfuðatriðin eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en eftir 2 ár. — Af því að ég geri að till. minni, að frv. verði fellt, þá sé ég ekki ástæðu til þess að flytja víðtækar brtt. við frv., en til þess þó að gefa hv. dm. tækifæri til að greiða atkv. um þau efnisákvæði frv., sem ég tel mestu skipta, þá mun ég flytja sumpart með hv. 10. landsk. og sumpart einn nokkrar brtt. við frv. — Þær brtt., sem við hv. 10. landsk. flytjum saman. eru flestar við 1. kafla frv., en brtt., sem ég flyt einn, eru aftur á móti við 2. kafla frv. Þær eru einfaldar og óbrotnar, og er ég með þær skriflegur hér. Þær eru um það, að 4 greinar frv. verði felldar burt. Það eru 11., 12., 16. og 17. gr. frv. Það eru þær greinar, sem fela í sér þær stefnubreyt. frv., sem ég get alls ekki sætt mig við. Um þær vil ég þess vegna fá atkvgr. — Hv. 10. landsk. mun svo gera grein fyrir þeim brtt., sem við flytjum saman.

Afhendi ég svo hæstv. forseta mínar skrifl. brtt.