07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

109. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins benda hv. fyrra þm. Eyf. á það, að hann er með sinni afstöðu að setja þá gildru fyrir þetta mál, að það nái ekki afgreiðslu, þó að það hafi í raun og veru fylgi til þess. Því að mér er nær að halda, að eftir að búið er að afgr. frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga í Nd., þá verði ekki tími til þess að breyta þessu frv. og koma því í gegnum hv. Nd. öðruvísi en með afbrigðum, og þar með er tiltölulega fámennum hóp gefið tækifæri til þess að setja fót fyrir frv., af því að hér er ekki um stjórnarfrv. að ræða, en þau þurfa aðeins einfaldan meiri hl. Ég vil aðeins benda hv. þm. á þetta, því að Siglufjörður græðir ekkert á því, þó að Vestmannaeyjar verði sviptar þessu nauðsynlega gjaldi. Ég vil líka segja það viðvíkjandi Siglufirði, að aðstaðan er þar ekki sú sama að innheimta slíkt gjald. Svo vil ég benda hv. þm. á það, að í frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga er Siglufirði ætlaður mikill tekjustofn, þar sem hann hefir síldarverksmiðjurnar, sem eiga að gjalda 0,8%, svo að ef frv. verður samþ. óbreytt, fara Vestmannaeyjar lakar út úr þessu heldur en Siglufjörður,

En aðalatriðið er það, og ég vænti þess, að hv. þm. setji ekki fót fyrir málið, ef það hefir eðlilegan meiri hl. til þess að ná afgreiðslu.