04.03.1936
Efri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

34. mál, atvinna við siglingar

Jón Auðunn Jónsson:

Það, sem sérstaklega þarf að athuga, þegar um löggjöfina um rétt til skipstjórnar á fiskiskipum er að ræða, er það, að þekking mannanna og verkleg kunnátta sé svo mikil, að ekki geti hlotizt slys af þekkingarskorti, jafnframt að þessir skipstjórnarmenn sem aðrir hafi fulla þekkingu á þeim veiðiaðferðum, sem skipunum er ætlað að stunda. Maður hefir rekið sig á, að þeir menn, sem tekið hafa meira próf, eru ekki gjarnir á að fara á smærri bátana, og þó að þeir fari á þessi minni skip, þá hefir þeim oftast mislánazt að fiska á þeim; það hefir ekki komið að gagni, þó duglegir og hæfir menn af togara hafi komið á línubát, af því að þeir eru ekki vanir línuveiðum, og þess vegna hafa þeir ekki getað gefið þann arð, sem atvinnuvegurinn þarfnast. Þegar skipin hafa svo stækkuð, hafa vitanlega komið kröfurnar um að auka réttindi minnaprófsmanna, vegna þess að nálega allir minnaprófsmenn hafa yfirleitt alizt upp við línuveiðar, og þetta mun verða svo, meðan þessi framför helzt þ. e. að línuveiðaskipin stækka. Ég held, að óhætt sé að fullyrða það, eins og hv. frsm. líka tók fram, að þessir menn hafa næg þekkingarskilyrði til að sigla skipum af þessari stærð með ströndum fram og eins langt út og fiskimiðin ná, þó að það skorti á, að þeir hafi tekið þau próf, sem þarf til að sigla milli landa.

Sá ljóður hefir hingað til verið á minna prófinu, að þessi próf hafa verið tekin á ýmsum námskeiðum víða á landinu, og hefir skort á, að nægilegt eftirlit hafi verið með kunnáttu manna, sem fengið hafa þessi prófskírteini. Þetta viljum við nú koma í veg fyrir með því að láta skólastjóra stýrimannaskólans hafa aðalumsjón með prófunum og ráða prófdómara. Ég vona, að það muni takast með till. til breytinga, sem nú felast í frv. um stýrimannaskólann. Sannleikurinn er sá, að mennirnir, sem hafa alizt upp á vélbátunum, hafa reynzt miklu betur og verið hæfari skipstjórnarmenn á línuveiðum en þeir, sem hafa meira próf og hafa oftast stunduð aðrar veiðiaðferðir. Ég held, að það sé því alveg hættulaust að frv. nái fram að ganga.

Það hafa verið háværar raddir um það frá Norður- og Vesturlandi að hækka réttindi minnaprófsmanna til að færa skip upp í 200 smál. N. hefir nú ekki farið svo hátt, en tekið þann kostinn að fara milliveginn. Ég verð samt að líta svo á, að það sé hættulaust að leyfa smáskipaprófsmönnum að færa skip allt að 100 smál. stærð, eða gefa þeim undanþágu um það, sem búnir eru að sýna það með löngu skipstjórnarstarfi, að þeim sé treystandi að færa stærri skip. Býst ég við að bera fram brtt. í þá átt við 3. umr. Það er rétt, að það er leiðinlegt að hafa ekki pláss fyrir þá góðu menn, sem tekið hafa meira próf, en það vill oft verða svo, að jafnvel þó þeir geti komizt að til skipstjórnar á smábátum eða línuveiðurum, ef þeir eiga kost á togaraplássi, þó ekki sé nema sem bátsmaður eða háseti, þá vilja þeir ekki fara á smærri skipin. Afkoman á smærri skipunum er svo misjöfn, og að auki er alltaf vonin fyrir duglega menn að verða stýrimenn og skipstjórar á togara, og þess vegna eru lítil brögð að því, að þeir sæki um eða vilji fara á smærri skip, eins og t. d. línuveiðara eða vélbát.

Menn verða að hafa þessi tvö sjónarmið í huga, annarsvegar að gæta leikni og þekkingar í starfinu, og hinsvegar að smærri útvegurinn fái þá menn, sem hafa sérþekkingu við hans hæfi, t. d. á línuveiðum, svo að afrakstur útgerðarinnar geti orðið sem mestur.