28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Sigurður Kristjánsson:

Það er að sönnu víst ekki venjulegt, að það séu umræður um þetta mál; þó er það að engu leyti lítilfjörlegt mál og ég geri ráð fyrir, að sú venja, sem um þetta hefir verið, byggist á því, að þingið hefir sína trúnaðarmenn, þar sem endurskoðendur landsreikninganna eru, og menn eiga þess venjulega kost að lesa þann reikning sjálfan, sem frv. fylgir, og geta þar lesið aths. endurskoðenda og grg. ríkisstjórnarinnar móti þeim aths. En nú er svo orðið að í þessum reikningum, sem fylgja með frv., er margt fleira en það, sem endurskoðendur samkvæmt sinni skipan eiga að rannsaka. Eru það reikningar hinna ýmsu stofnana ríkisins, og eins og hv. þm. er kunnugt hafa þær hraðvaxið og þeim hraðfjölgað nú á undanförnum árum, og er nú svo komið, að rekstur ríkissjóðs sjálfs er orðinn minni hl. af því, sem ríkið hefir með höndum, og að því leyti það einfaldasta að þar er fylgt ströngum reglum og fyrirmælum, sem þingið setur, en í ríkisstofnunum er ekki slíku til að dreifa. Þar fer fram starfræksla á ábyrgð ríkissjóðs, sem þingið hefir lítið um að segja, hvort er svo gætilega hagað sem reynt er um rekstur ríkissjóðs sjálfs. Út af þessu er það sjálfsagt tímabært að athuga, hvort ekki ætti að breyta starfi endurskoðenda þannig, að þeir hefðu aðstöðu og skyldu til að fylgjast með rekstri ríkisstofnana og sjá, hversu vel þar er farið með fjárhaginn, og legðu um það fram álit og rökstuddar aths. um leið og þeir leggja fram aths. við ríkisreikninginn.

Mér hefir dottið þetta í hug fyrir löngu, en ég geri ráð fyrir, að það þyki að nokkru leyti fyrir þessu séð með þeim rekstrarráðum, sem sett hafa verið um ríkisstofnanir, en það er athugandi, að þar er þessu dreift á margar hendur, og í þessi ráð hefir ekki verið valið með það fyrir augum, að þau gæti sérstaklega fjárhagshliðarinnar, og um hana fæst ekki fullt eftirlit og samræmi, nema það sé í höndum sömu manna um allar ríkisstofnanir og loks má geta þess, að sumar ríkisstofnanir falla ekki undir neitt af þessum ráðum.

Þegar komið er svo mikið af áhættusömum ríkisrekstri og nú er — og þá því fremur sem hann er sífellt að aukast —, þá væri full ástæða til, að endurskoðendum væri sérstaklega falið að hafa eftirlit með honum, og að þeir legðu alúð við að fylgjast með honum og gagnrýna hann samhliða því, sem þeir endurskoða landsreikninginn, og að þær aths., sem þeir gerðu við rekstur ríkisstofnana, fylgdu með aths. við landsreikninginn.

Mér hefir dottið þetta í hug fyrr, en það, sem sérstaklega kom mér til að vekja nú máls á þessu, var m. a. það, að þegar ég var að fara yfir skilagrein þeirrar stofnunar, sem heyrir undir það ráð, sem ég er í — ég hygg, að þetta fyrirtæki sé eitt hið einfaldasta af þeim sem ríkið rekur, það er ekki verzlunarstofnun og að vísu að ganga —, en þegar ég fór að skyggnast um meðferð ríkisfjár hjá þessu fyrirtæki, sem er skipaútgerð ríkisins, þá rakst ég þar á reikning, sem ég ætlaði að spyrja nánar um hjá forstjóranum, en þóttist sjá, að þótt hann væri þar birtur, ætti hann ekki þar heima. Þetta var reikningur um rekstur einnar bifreiðar, sem ríkissjóður telst eiga, hún er kölluð bifreið ríkissjóðs, enda finnst hún ekki á eignareikning skipaútgerðarinnar.

Þetta er nú örlítið fyrirtæki, að reka eina bifreið, en þó kemur mér það undarlega fyrir sjónir, þegar ég sé hér rekstrarreikning einnar bifreiðar, og þessi reikningur er á 17. þús. kr. yfir árið. Ég veit ekki til, að skipaútgerðin hafi neitt sérstakt með bifreið að gera, og ég hélt, að þetta væri kannske ein af landhelgissjóðsbifreiðunum, en það lítur út fyrir, að svo sé ekki. Mér finnst þetta allmerkilegt, og mér finnst að endurskoðendur eigi að standa fyrir svörum um það, hvernig þetta getur staðizt.

Ég vil nefna það, að á þessum reikning eru laun bifreiðarstjóra á sjötta þús. krónur. Þetta er árið 1934. — Nú getur það naumast verið að bifreiðin hafi verið í gangi allt árið, en hvernig sem því hefir verið háttað, þá eru launin hér tilfærð 5406 kr., og það virðist allrífleg þóknun fyrir smásnattferðir út úr bænum öðruhverju. Þá hefir benzíneyðslan orðið allmikil; hún er tilfærð 3607 kr. 85 au. — Ekki skortir nákvæmnina. — Mér skilst eftir því, sem ég þekki um benzíneyðslu, að þessari bifreið hafi orðið að aka um 50 þús. km., en það mun vera um það bil tvöfalt meira en þær bifreiðar aka, sem notaðar eru mest hjá bifreiðastöðvunum.

Viðhaldið er 5078 kr. 84 au. — Ekki skortir nákvæmnina heldur hér. — En þetta mun að minnsta kosti vera fullt bifreiðarverð. Ég held, að það megi vel fá bifreið fyrir 4000 kr., og þá skilst mér, að það hefði verið meiri fjármálaspeki að henda þessari bifreið og kaupa aðra nýja í hennar stað heldur en að kosta svo miklu til viðhalds. Þetta er fyrir utan gúmmí, en það er 1403 kr. og 50 au.

Ég ætla ekki sérstaklega að gagnrýna þennan reikning, en hann varð til þess að ég frestaði því ekki að innleiða umræður um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé ekki nema lítill hluti þess, sem kann að vera falið í reikningum hinna einstöku ríkisstofnana.

En ef þetta eru aðeins eyrun eða eyrnabroddarnir á því mikla ríkisrekstrarferlíki — því mér datt í hug, að þetta kynnu að vera aðeins eyrun og samsvarandi höfuð, búkur og útlimir héngju við — þá er þetta efni til nákv. athugunar, og það getur ekki hjá því farið, að Alþingi vilji láta endurskoðendur hafa umboð og skyldu til að athuga og geta skýrslu um þessa hluti.

Ég vil ekki lengja þetta mál, og var heldur ekki undir það búinn að fara út í það, sem við kemur þeim stofnunum, sem ég hefi ekki aðgang að. En ég vil spyrja hæstv. ríkisstj. að því. hve margar bifreiðar hún hafi. Ég hefi farið í gegnum eignareikninginn, en finn þar enga bifreið, en mér finnst það ólíklegt, að bifreiðar séu færðar á rekstrarreikning, ef þær eru engar til. Nú hygg ég eigi að síður, að það sé víst að ríkið eigi fleiri bifreiðar en þessa einu, og þess vegna vil ég spyrja, hversu margar þær séu og hvort rekstrarreikningar þeirra allra séu eins þriflegir eins og þessi reikningur.