07.05.1936
Neðri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Hv. þm. Hafnf. lauk máli sínu með því að ítreka, að til væri í landinu nóg af fulllærðum mönnum. Ég býst við, að hann hafi einhverntíma heyrt talað um svokallaða leppa. Það eru menn, sem einhverntíma hafa haft réttindi, en hafa svo komizt á stærri skip, sem þeim hefir þó ekki verið trúað fyrir, svo að þurft hefir að fá mann með þeim.

— Fjöldi manna, sem verið hafa hér á stýrimannaskólanum, hafa ekki lagt fyrir sig þá sjómennsku, sem línuveiðarnar krefjast. Þegar ég var á stýrimannaskólanum fyrir 6 árum, var þar 21 nemandi, en aðeins 1 eða 2, sem höfðu, svo að nokkru næmi, verið á línubátum.

Þá talaði hv. þm. um öryggistap, sem fólgið væri í því að taka skipstjórn úr höndum fulllærðra manna og fá hana í hendur ólærðum mönnum. Ég býst við, að hvorttveggja sé svipuð fullyrðing, um fulllærðu mennina og þá ólærðu. Ef hann læsi frv. um stýrimannaskólann, kæmist hann að þeirri niðurstöðu, að maður með fiskiskipstjóraprófi getur ekki talizt fulllærður, frekar en hægt er að segja um hina, að þeir séu ólærðir.

Þá sagði hann, að það væru ekki miklar kröfur, sem gerðar væru til smáskipaprófsmanna. Ég tók það fram, að ég myndi telja æskilegra, að þetta smáskipapróf félli burt. En reynslan hefir sýnt, að menn þurfa hér við land ekki að nota öllu meira en það, sem krafizt er til þess prófs.

Þá minntist hv. þm. á lækkun þá, sem gerð var á blaðsíðufjölda íslenzkukennslunnar í stýrimannaskólanum. Ef hann hefir verið hér í d., þegar um þetta var rætt, hlýtur hann að muna, að ég gerði grein fyrir, hvernig á þessari breytingu stæði. Var hún gerð samkvæmt tilmælum íslenzkukennarans, því að hann taldi ekki hægt að fara yfir meira en 50 bls. á námstímanum. Og ég held, að hægt sé að læra eins mikið með því að fara vel yfir 50 bls. eins og með því að fara illa yfir 100.