04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

60. mál, sauðfjárbaðanir

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Ég tel það fullkominn misskilning hjá öllum, sem láta sér detta það í hug, að þetta frv. um þrifabaðanir sé sett útrýmingarböðunum til höfuðs. Hinsvegar vantar ákvæði í þá löggjöf, sem þessu frv. er einmitt ætlað að bæta upp.

Ég hefi heyrt það, að víða á landinu væru þrifabaðanir alls ekki framkvæmdar eins og stendur, eða þá svo ófullkomnar, að þær koma ekki að haldi. Hitt er mér þó líka kunnugt, að þrifabaðanirnar hafa haldið fjárkláðanum í skefjum víða um landið. En þótt svo sé, tel ég ekki nægileg rök, og jafnvel engin, til þess að vísa þessu máli frá. Lög um þrifabaðanir koma löggjöf um útrýmingarböðun ekkert við, nema hvað útrýmingarböðun þarf sjaldnar að fara fram, séu þrifabaðanir rækilega framkvæmdar.

Hv. 1. þm. Eyf. áætlaði, að kostnaður í meðalhreppi við baðstjóra myndi verða um 300 kr. Ég held, að þetta sé allt of hátt áætlað. Auk þess myndi baðstjórinn hjálpa til við böðunina, og á sveitabæjum kemur sú aðstoð sér vel yfirleitt. Auk þess álít ég, að fleiri en einn baðstjóri megi vera í hverjum hreppi til þess að spara löng ferðalög. Ég mun því greiða atkv. gegn dagskránni.