24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

22. mál, námskeið fyrir atvinnulausa unglinga

Bjarni Bjarnason:

Ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði vísað til menntmn., og þar sem ég á sæti í þeirri n., get ég verið stuttorður. En ég vildi þó geta um það, að í lögunum um gagnfræðaskóla er gert ráð fyrir möguleika fyrir því að styrkja unglingafræðsluna í sveitum, kauptúnum og bæjum, og þeir nemendur, sem ekki komast í gagnfræðaskólana eða héraðsskólana, eiga kost á því að fá dálitla aðgengilega kennslu einmitt í gegnum þetta ákvæði, en til þess þarf auðvitað að vera fjárveiting. Nú er að vísu dálítil fjárveiting í þessu skyni, 15 þús. kr., 1936, og sama upphæð áætluð fyrir 1937. Þetta er vitanlega lág fjárhæð, en ég held, að miklu einfaldara væri að hækka hana dálítið heldur en að fara að setja um þetta nýja löggjöf. Þá geta þessir unglingar, sem um er að ræða, notið þessarar fræðslu, og þá ekki síður þeir atvinnulausu heldur en hinir. Mín skoðun á þessu máli hefir því ekki breytzt frá því á síðasta þingi með hliðsjón af þessu. Ég viðurkenni fullkomlega, að það er sjálfsagt og nauðsynlegt að auka alla okkar unglingafræðslu, og ég viðurkenni ennfremur, að það er ekki nema lítill hluti unglinganna, sem kemst í gagnfræðaskóla eða héraðsskóla. Þess vegna er þetta ágætis mál, en ágreiningurinn frá minni hendi er aðeins um það, að ég tel ekki þörf sérstakrar löggjafar um atvinnulausa unglinga. Og ég vil beina þessu inn á þær leiðir, að hækka fjárveitinguna til aukinnar unglingafræðslu. — Ég býst við að fá að gera nánari grein fyrir þessu bæði í menntmn. og við síðari umr. málsins hér í deildinni.