05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

52. mál, skipun prestakalla

Gísli Sveinsson:

Ég skal ekki lengja umr. mikið úr þessu. Mál þetta mun ganga til n., og mun þá gefast kostur að ræða það frekar, ef það kemur frá henni aftur. Að þessu sinni vil ég aðeins víkja fáeinum orðum að hv. 1. þm. Árn. Hann var að tala um það, hv. þm., að enda þótt hann vildi taka mig til fyrirmyndar, þá treystist hann ekki til þess að gera það að því er snertir þekkingu á kirkjumálum. Þessu get ég vel trúað; slíkt myndi honum ofraun, ef til fulls ætti að vera, því að hann virðist ekki bera hið minnsta skyn á þau mál, en ég hefi fylgzt með þeim um lengri tíma. Ég átel hv. þm. ekkert fyrir það, þó að hann vilji fá að halda skoðun sinni á trúmálum sem öðrum málum, en hann ætti ekki að vera upp yfir það hafinn að taka fræðslu og leiðbeiningu frá mönnum, sem sýnilega bera meira skyn á þessa hluti en hann.

Þá var hv. þm. í þessu sambandi eitthvað að tala um mál, sem ég hefði haft einhver sérstök afskipti af. Hvað hann hefir átt þar við, veit ég hreint ekki. Hann nefndi eitthvert kosningalagaspursmál. Ég skal viðurkenna, að á síðasta þingi hélt ég því fram sem frsm. minni hl. kjörbrn., að Alþingi ætti ekki að taka gilda þingsetu manns, sem þar ætti alls ekki að vera. Þessu kunni hv. 1. þm. Árn. vitanlega illa, enda hefir nú svo farið, að stj. og allir fylgifiskar hennar hafa lifað á þessum manni, sem í raun réttri er Alþingi með öllu óviðkomandi eftir það, sem hann hafði haft í frammi.

Hvað snertir þennan bráðabirgðaembættisstyrk prestanna, þá átti hann vitanlega að veru uppbót á hin lágu laun þeirra og gilda, þar til önnur skipun væri gerð. En nú er ekki búið að gera aðra skipun um þessi mál, launakjör þeirra og annara starfsmanna ríkisins, síðan styrkur þessi var samþ. í lögum. Ég vil því spyrja: Hvers vegna er verið að fella þessa uppbót niður nú? Og hvers vegna fylgir hv. 1. þm. Árn. þessu? Og það á slíkum tímum sem þessum, þegar ýmsir menn, sem alls ekki eru embættismenn, heldur pólitískir snattmenn, hafa ekki aðeins hærri laun en prestarnir, heldur líka miklu hærri laun en þeir embættismenn, sem taldir eru sæmilega launaðir, eins og t. d. ég sem sýslumaður. Meðan því t. d. ekki er lækkað við þessa pólitísku hlaupamenn, þá fæ ég ekki séð, hvernig þessi hv. þm. getur haldið því fram, að rétt sé að fella þennan embættisstyrk prestanna niður.

Allt, sem hv. þm. var að tala um bókasöfn prestanna, var líka misskilningur. Hann hélt, að prestunum væru sendar bækur, sem þeir einu sinni kærðu sig ekkert um. Nei. prestarnir fá bækur eftir eigin vali.

Þá var hv. þm. að fetta fingur út í það, að ég taldi prestastéttina lakast launaða af öllum embættismannastéttum landsins. Það, sem þm. sagði um þetta, leit út sem vísvitandi útúrsnúningur. Hann fór að tala um aðrar stéttir manna, sem væru verr launaðar, og átti víst við kennarastéttina, þrátt fyrir það, þó að hann viti það eins vel eins og ég, að kennararnir eru ekki kallaðir embættismenn, þótt til starfsmanna geti heyrt. Aftur verður því ekki neitað, að prestarnir eru embættismenn, og þar sem ég talaði aðeins um embættismenn, þá getur hv. þm. ekki með rökum neitað því, að það var rétt, sem ég sagði, að prestastéttin væri lægst launuð allra embættisstétta í landinu. Ég talaði bara á réttan hátt eftir mæltu máli og lagamáli, en hv. þm. gerði tilraun til að rangfæra mál mitt.