10.03.1936
Neðri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

65. mál, byggingarsjóðir í sveitum

*Héðinn Valdimarsson:

Það hefir sjálfsagt margur búizt við, að það myndi koma eitthvað annað fram á þessu þingi en frv. eins og þetta. Ef litið er á löggjöf síðustu ára, verður ekki séð, að neitt sérstaklega illa sé búið að landbúnaðinum og fólki í sveit. Það eru nú til peningastofnanir, sem reistar hafa verið sérstaklega fyrir landbúnaðinn, og þær hafa reynt að búa að sveitinni eftir því sem þótti nægilega traust. Til þess að koma þessum stofnunum upp, búnaðarbanka, byggingar- og landnámssjóði og ræktunarsjóði, hafa landsmenn að boði þingsins lagt sér miklar byrðar á herðar. Og menn mættu búast við því satt að segja, að þó að ekki sé hægt að byggja landið á mjög stuttum tíma, þá mundi þó verða auðveldara fyrir sveitina að byggja sig upp heldur en bæina, og þeir peningar, sem lagðir eru til þessa, hafa aðallega verið úr bæjum, en ekki sveitum.

Nú á þessum yfirstandandi tíma, þegar öllu hallar niður á við fyrir bæina og enginn veit, hvert stefnir, en aftur á móti — að undanteknum harðindunum í vetur — hefir heldur rætzt úr fyrir landbúnaðinum, hélt ég ekki, að tími væri til að koma með nýjar kröfur til bæjanna um fjárframlög til sveitanna. Ég ætla þá að lesa upp nokkra liði úr fjárlagafrv. fyrir1937, aðeins úr 16. gr. Framlögin, sem ætluð eru þar til landbúnaðar, eru þessi:

Búnaðarfélag Íslands ..........

180 þús. kr.

Nýbýli og samvinnubyggðir ......

180 — —

Sandgræðslan ..................

27 — —

Jarðabótastyrkur ................

585 — —

Verkfærakaupasjóður ............

60 — —

Byggingar- og landnámssjóður ...

250 — —

Búfjárræktin ....................

42 — —

Ræktunarsjóður .................

21 — —

Kreppulánasjóður ...............

.. 250 — —

Áburðarstyrkir ..................

.. 28 — —

Kláðaútrýming ..................

.. 24 — —

Fóðurtryggingar .................

.. 15 — —

Kartöflustyrkir .................

.. 20 — —

Skógræktin .....................

.. 29 — —

Flóaáveitan .....................

.. 4 — —

Þykkbæingar ....................

.. 5 — —

Þetta er alls 1720 þús. kr. Auk þess af atvinnubótafé 100 þús. kr. Er þetta samtals 1820 þús. kr. Loks má geta þess, að talað er um hækkun á fjárlögum til Búnaðarfél., 45 þús. kr. Jarðabókastyrkurinn mun minnst reynast 15 þús. hærri, og fóðurtryggingar sennilega 25 þús. kr. hærri, svo að fyrirsjáanleg útgjöld til landbúnaðarins aðeins í 16. gr. eru 1905 þús. kr.

Mér er nú spurn, og vildi gjarnan að hv. frsm. svaraði, hvort ætlazt er til að fara að leggja 180 þús. kr. fram í þessu augnamiði og leggja í því skyni nýjan skatt á bæina.

Ég ætla ekki að fara langt út í frv.; en ég vil benda á, að á því eru mjög mikil missmíði. Það er að sumu leyti sniðið eftir frv. um byggingarsjóði og verkamannabústaði. En það gengur miklu lengra. Hér er ekki um að ræða eins mikla lánastarfsemi, en meiri styrk. En byggingarsjóðum í bæjum er aðallega ætlað að starfa með lánum, þó að nokkur styrkur sé veittur til. Hér er á engan hátt tiltekið, hvernig byggingarnar eiga að verða, ekkert hvað dýrar þær mega vera, né hve miklar tekjur menn mega hafa, sem fá þessi lán.

8. gr. er alveg einstök. Þar er gert ráð fyrir, að lánað sé 85% með 1. veðrétti, en svo 15% tryggð með öðru veði. Það er m. ö. o. ekki heimilt, að menn hafi nokkuð skuldlaust, — það verður að taka 100% lán út á húsin. Ekki er heldur gert ráð fyrir neinum vöxtum, nema eftir á, sem svarar einu árgjaldi til viðbótar.

Það sjá nú allir, hversu fjarstætt er, að þetta sé sambærilegt við byggingarsjóði í kaupstöðum og verkamannabústaði. Það er lengi hægt að halda áfram að telja upp vansmíðin og formleysurnar á þessu frv. Um yfirstjórn sjóðanna er allt fjúkandi í lausu lofti, aðeins eitthvað vísað til ráðh. að segja til um þetta. Það kemur ekki fram, að neinum sé ætlað að sjá um sameiginleg innkaup eða á nokkurn hátt gera auðveldara og ódýrara þeim mönnum, sem byggja, eftir því sem hægt er í sveit, þegar ekki er hægt að færa byggingarnar saman. Einnig frá þessu sjónarmiði álít ég frv. algert vansmíð, auk þess, sem ekki er sá tími nú, að slíkt frv. ætti að verða að 1. Ég legg til, að frv. verði vísað til allshn. eins og frv. um verkamannabústaði.