10.03.1936
Neðri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

65. mál, byggingarsjóðir í sveitum

Flm. (Þorbergur Þorleifsson):

Ég bjóst satt að segja ekki við, að einn af þeim mönnum, sem fulltrúar eru hér á Alþingi fyrir alþýðuna, myndi nota fyrsta tækifæri til þess að ráðast á þetta frv. á þann hátt, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði nú. Það er nú út af fyrir sig, þó að hann reyni að finna allt hvað hann getur að formi frv. og kalli það vansmíð að einhverju leyti. Þótt svo væri, sem hv. þm. hefir nú lítil rök fært fyrir, þá væri ákaflega auðvelt að laga form þess.

Þar sem hv. þm. talaði um, að ekki væri heimilt samkv. frv. að hafa nokkuð skuldlaust, þá er það mesti misskilningur, ef ekki hártogun og útúrsnúningur. Í frv. er vitanlega hvergi haldið að lánþiggjendum að taka meiri lán en þeir þurfa á að halda. Það er enginn skyldur til að taka meira lán en hann hefir þörf til. Ef svo er ástatt fyrir bónda, að hann getur ekki byggt hús án láns, þá heimilar frv., að hann fái það, sem hann þarf. Þó verður að tryggja með veði, sem láninu nemur.

Um það, að þetta sé ekki hliðstætt framlagi byggingarsjóða kaupstaða, þá er slíkt alveg rangt. Framlag til byggingarsjóða kaupstaða er 2 kr. á íbúa. En nú er það aðeins hluti af fólki bæjanna, sem hefir rétt til að fá lán úr þessum sjóðum. En samt á ríkissjóður að greiða, að því er mig minnir, 2 kr. á hvern íbúa til slíks sjóðs. Ég þori fullkomlega að bera það saman við framlag það, sem ríkið á að greiða til sveitanna samkv. frv., til jafnmargra manna í sveit, sem eiga að fá lán úr þessum sjóði, eins og til jafnmargra manna í kaupstöðum, sem hafa rétt til að fá lán úr byggingarsjóði kaupstaða, og það mun verða hlutfallslega meira framlag ríkisins til byggingarsjóðs bæja en sveita.

Annars er öll hreppapólitík svo fjarri mínu eðli, að ég hirði ekki að bítast við hv. þm., hvor þessara aðilja hafi ofurlítið meira. En það, sem fyrir mér vakir, er það, að hér er nauðsynjamál alþýðu, sem Alþingi er skylt að leysa og Alþingi verður að leysa fyrr eða síðar. Og þó að hv. 2. þm. Reykv. geti staðið gegn lausn þessa máls nú, þá mun slíkt ekki geta staðið lengi. Nauðsynin mun krefjast þess, að þetta byggingarmál sveitanna verði leyst, og það verður gert.

Hv. 2. þm. Reykv. fór í samanburð um framlag úr ríkissjóði til bæja og sveita og sagði, að sveitirnar lifðu hreint og beint á bæjunum. En hann gleymdi að taka með í reikninginn, að bæirnir eru byggðir upp af sveitunum. Þessi stóra borg, Rvík, er mest byggð upp af sveitamönnum. Sveitirnar hafa alið upp fjölda af Rvíkingum og öðrum bæjarmönnum þessa lands og kostað til þess uppeldis sínum fjármunum. Og jafnframt því að sveitafólkið hefir flutt í bæina, hefir ógrynni verðmætis flutzt frá sveitinni í bæina. Svo að slíkur samanburður sem þessi er allt að því heimskulegur. Ef á að gera slíkan samanburð, þá þori ég að fullyrða, að hlutur sveitarinnar verður að þessu leyti engu léttari á metum en hlutur kaupstaðanna, þó að atvinnulíf sé ekki blómlegra en þetta í sveitum. En hvert má nú rekja orsakir þess?

Fyrir nokkrum árum var ofurlítilli lind af auðmagni jarðarinnar veitt hingað til landsins. Þessi lind var látin seytla um bæina og vökva atvinnulíf þeirra, en ekki til sveitanna. Þetta var gert á kostnað allrar þjóðarinnar. Því að það eru ekki frekar þeir, sem búa í bæjum en sveitum, sem eiga kröfu á fjármagni til að koma krafti í atvinnurekstur sinn. — Hversu svo sem litið er á þetta mál, þá get ég ekki annað en sagt það, að þessi árás hv. 2. þm. Reykv. á þetta mál er hrein og bein árás á landbúnaðinn allan; hún er hnefahögg í andlit sveitamanna, — og hún er hnefahögg í andlit allrar alþýðu í landinu. Það er sameiginleg hugsjón allrar alþýðu, að líf og kjör allrar alþýðu geti batnað, bæði í sveit og til sjávar. Og þó að ég sé sveitamaður, vil ég jafnan styðja að viðgangi bæjanna. Og það er undarlegt, ef hv. 2. þm. Reykv. er varnað þess að sjá, að þetta er nauðsynjamál, að byggja upp sveitirnar. Ég trúi ekki öðru en að þessi hv. þm. sjái, að hann fer villur vegar. Enda hlýtur svo að fara, að menn verði sammála um það, að byggingarmál sveitanna verður að leysa á næstu árum.