01.04.1936
Neðri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Hv. þm. Vestm. hefir borið fram till. um það, að þessi breyt. á l. um gjaldeyrisverzlun verði látin ná yfir veiðarfæri, til viðbótar við kol, olíu og salt, eins og 4 af 5 nm. í fjhn. hafa orðið sammála um. Ég gat um það við 1. umr. þessa máls sem 1. flm., að ég ætlaðist til þess, að l. næðu ekki aðeins til kola, olíu og salts, heldur einnig veiðarfæra og annara þarfa útgerðarinnar. og enda þótt ég hafi nú borið fram till. um það ásamt tveimur öðrum nm., að frjáls ráðstöfunarréttur á gjaldeyri nái aðeins til kola, olíu og salts, þá erum bæði ég og hv. þm. V.-Sk. að sjálfsögðu óbundnir um að greiða till. hv. þm. Vestm. atkv., úr því hún er fram komin. Nál. og brtt. þá, sem því fylgir, ber ekki að skilja öðruvísi en þannig, að þar er mörkuð sú leið, sem þessir fjórir nm. geta komið sér suman um, þó þeir hinsvegar hafi óbundin atkv. um einstakar till. aðrar, sem fram koma. En ég get viðurkennt það, að ég vildi að sjálfsögðu ekki greiða till. hv. þm. Vestm. atkv., ef samþykkt hennar ætti að kosta það, að frv. nál. ekki fram að ganga. Því ég tel eins og hann talsverða réttarbót í því útvegsmönnum til handa að fá frjálsa ráðstöfun á þeim gjaldeyri, sem þeir þurfa fyrir kol, olíu og salt, þó ekki sé lengra gengið, enda þótt ég telji hitt eðlilegra og æskilegra, að þetta nái einnig til veiðarfæra. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, gengum við hv. þm. V.-Sk. inn á þetta til samkomulags, enda þó við gætum ekki alveg aðhyllzt það sjónarmið, sem hinir tveir nm. lögðu til grundvallar fyrir sinni afstöðu, hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. V.-Ísf. En þeirra sjónarmið markaðist af umsögn bankastjórnanna, hæstv. fjmrh. og skrifstofustjóra gjaldeyrisnefndar um það, að það mundi valda allmiklum erfiðleikum í framkvæmd, ef þessi ívilnun væri einnig látin ná til veiðarfæra. Ég játa fyrir mitt leyti, að ég er ekki alveg sannfærður um, að sneitt verði að öllu leyti hjá vandkvæðum við þetta, en ég er ekki heldur sannfærður um, að þarna væri um svo mikil vandkvæði að ræða, að þess vegna sé nauðsynlegt að láta þetta eigi ná til veiðarfæra.

Ég geri þess vegna ráð fyrir, að það verði ekki talin brigðmælgi af okkur hendi, þó við greiðum till. hv. þm. Vestm. atkv. Og ég treysti á, að okkur flm. verði a. m. k. gert aðvart, sé það ætlun stjórnarliðsins í heild að leggjast á móti frv. sjálfu, ef þessi brtt. yrði samþ.

Mér þykir rétt að geta þess í tilefni af ummælum, sem fallið hafa út af þeirri vatill., sem meiri hl. fjhn. flytur á þskj. 235, að hv. þm. V.Sk. og ég höfum ekki viljað vera með í að flytja þessar till., af ástæðum, sem nú skal greina.

Tilgangur þessara till. er sá, eins og frsm. meiri hl. n. tók fram í ræðu sinni í gær, að fyrirbyggja ónauðsynlega notkun á erlendum gjaldeyri til utanfara. Það kann vel að vera, að þessi till. eigi að því leyti við rök að styðjast, að einhver brögð hafi verið að slíkum ónauðsynlegum siglingum; um það er mér ekki kunnugt. En ég hefi ekki ástæðu til að vefengja umsögn hæstv. ráðh. um þetta. En spurningin í þessu efni er, hvort með þessum ákvæðum sé hægt að setja undir þann leka, og hinsvegar, hvort tilvinnandi sé að heita slíku harðræði. Við hv. þm. V.-Sk. lítum svo á, að orsök þessa meins, að erlendur gjaldeyrir er notaður til miður þarfra utanfara eða ónauðsynlega kostnaðarsamra, sé sú, að einhver gjaldeyrir hljóti að vera hér á markaði, sem gengur kaupum og sölum. Mig undrar, að slíkur gjaldeyrir skuli vera til á markaðinum. Ég hugði, að eins og nú er hagað gjaldeyrismálunum hjá okkur, væri erfitt að koma slíkum undanbrögðum við. Saltfisksverzlunin við útlönd er nær öll í höndum S. Í. F., kjötverzlunin að mestu leyti í höndum S. Í. S. og síldarverzlunin í hömlum síldarútvegsnefndar. Það er ekki mikill hluti af útflutningsverzluninni, sem er í böndum einstakra manna. Ég hélt því, að erfitt væri að hafa undanbrögð í þessu efni.

Spurningin er sú: Er hægt að lækna þetta mein með ákvæðum þessarar vatill.? Ég er ekki í vafa um það, að þó hindruð yrði notkun þessa erlenda gjaldeyris til ónauðsynlegra siglinga, mundi þessi gjaldeyrir, sem gengur óeðlilega kaupum og sölum, aðeins leita útrásar annarsstaðar. Það er engin skynsamleg ástæða til að halda, að þeir, sem vilja brjóta þessi gjaldeyrislög og kunna að hafa einhvern erlendan gjaldeyri undir höndum, fái ekki tækifæri til að selja sinn gjaldeyri. Það er engin ástæða til að ætla, að hin ólöglega notkun gjaldeyris hætti, þó að takast mætti að taka fyrir hana í þessu vissa augnamiði, til óþarfs ferðakostnaðar erlendis. Það verður ekki tekið fyrir ræturnar á meininu, þó að þessi vatill. verði samþ. Og ég hygg, að jafnvel sé engin trygging fyrir því, að ákvæði brtt. kæmu í veg fyrir ónauðsynlega fjáreyðslu í utanförum Íslendinga, því að áreiðanlega mun meiri hl. þeirrar misnotkunur á erlendum gjaldeyri, sem hér kann að eiga sér stað, liggja í því, að menn, sem fá gjaldeyrisleyfi hjá innflutnings- og gjaldeyrisn. til utanfara, eyða þegar út kemur þessum gjaldeyri og miklu meiri í viðbót, sem þeir þá hafa aflað sér á ólöglegan hátt, Fyrir slík, misnotkun gjaldeyris verður ekki tekið með samþykkt þessarar vatill., sem hér liggur fyrir. Við hv. þm. V-Sk. lítum svo á, að ákvæði þessarar vatill. nái ekki tilgangi sínum, en verði, eins og öll slík bönd, hvimleið.