03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2583)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Ólafur Thors):

Það mun enginn sakna hv. þm. Ísaf., þótt hann komi ekki stundvíslega á fundinn, og hans menn mega vel við una, ef hann getur haldið mér hér um stund, því að ég á að mæta þar líka. Hann gerir ekki sínum mönnum annað þarfara.

Ég vil enn benda á það, sem ég hefi áður sagt, að af þessu frv. hafa sízt gagn stærstu félögin í landinu, af þeim ástæðum, að þessi félög fá helzt bankaábyrgð. Bankarnir stöðva varla svo mikinn rekstur með því að vilja ekki taka ábyrgð á kolum og salti, sem þau þurfa til útvegsins. Hinsvegar hefi ég fært rök að því, að ef olían verður getin frjáls, þá lækkar verð hennar um 2–3 aura á lítra miðað við það, sem hún nú er seld hér úr geymi gegn staðgreiðslu og eftir að allur afsláttur hefir verið tekinn til greina.

Ég fullyrði, að hv. þm. Ísaf. skýrir rangt frá, er hann segir, að skuldir Samvinnufél. Ísf. umfram eignir séu 141 þús. og 500 kr. Ég skal bíða rólegur þangað til búið er að gera upp í skuldaskilasjóði og sjá, hvað þá verður uppi á teningnum, en mikið þykir mér, ef sú verður ekki raunin á, að skuldir umfram eignir reynist nær þrefaldar við það, sem hv. þm. hefir látið í ljós.

Út af dylgjum hv. þm. um skuldir mínar við h/f Kveldúlf vil ég upplýsa, að með fullu samþykki lánardrottna félagsins skulda ég félaginu andvirði íbúðarhúss míns. En húsið stendur eins og allar mínar eignir að veði bæði fyrir skuld minni við félagið sem og öllum skuldum félagsins til bankanna og annara lánardrottna.

En nú langar mig til að spyrja hv. þm. Ísaf., hvort hann standi í samskonar ábyrgð með öllum sínum eignum í nútíð og framtíð til skuldagreiðslu fyrir Samvinnufélag Ísfirðinga. Hv. þm. sagði, að það væri tilhæfulaust, að hann hefði á einn eða annan hátt reynt að koma sér undan skuldbindingum félagsins. En svo kom þessi fyrirkomulagsbreyting og leiddi það af sér, að þeir fengu lán til að greiða í bankann. Þetta hefir sjálfsagt verið mjög notaleg fyrirkomulagsbreyting, en hún var sviksamleg, svo sviksamleg, að þessi hv. þm. þorir ekki fyrir sitt lifandi líf að fá málið upplýst fyrir dómstólunum.

Það var þessi hv. þm., sem drap þann skuldaskilasjóð útgerðarmanna, sem allir áttu að hafa gott af, en kom svo upp þessu skuldaskilasjóðskríli, sem hann sjálfur hefir gott af. Það er sjálfsagt líka notaleg fyrirkomulagsbreyting — fyrir fjárhag þessa hv. þm. —, en ekki fyrir mannorðið. Mig fer að gruna, að það sé ekki ofmælt, að þessi hv. þm. hafi komið sér með sviksamlegum tilgangi undan ábyrgð í Samvinnufélagi Ísfirðinga. Mig skortir skjöl til að leggja á borðið og sanna þetta, en mig skortir ekki skjöl til að hrekja það, sem hann bar á mig, um að hugur minn til að aflétta útflutningsgjaldinu sé ekki heill og að ég hafi ekki virt bréf frá sjútvn. svars. Ég hefi hér afrit af því bréfi, sem ég skrifaði, og skal lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta: Bréfið vantar í handr. innanþingsskrifarans, og hefir ekki tekizt að hafa upp á því.

Þetta er skrifað 14. marz, og þá var erindi sjútvn. nýkomið til okkar. Nú í dag er 3. apríl, og nú stendur þessi hv. þm. hér upp og segir, að við höfum ekki virt sjútvn. svars. Það er stundum gott að eiga við hv. þm. Ísaf., — það þarf stundum dálitla vitsmuni til að vera varmenni.