21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi nú ekki í augnablikinu hjá mér þau gögn, að ég geti lesið upp langan lista af slíkum mönnum. En ég man þó eftir nokkrum, sem hafa fengið að kaupa milliliðalaust fyrir andvirði vara sinna vörur frá útlöndum. T. d. fékk Ólafur Jóhannesson á Patreksfirði að kaupa þannig inn verksmiðju frá útlöndum. Og ég veit um það, að ýmsir síldarútflytjendur hafa fengið að greiða með andvirði vara sinna vörur sínar á sama hátt. Og um fleiri aðilja gæti hv. þm. G.-K. fengið samskonar upplýsingar.

En aðalmisskilningurinn í sambandi við málflutning hv. þm. G.-K. í þessu efni er, að hann talar um þetta eins og það sé meiningin að neita útvegsmönnum um að fá frá útlöndum þær vörur, sem þeir þurfa að fá þaðan. En það er ekki það, sem um er að ræða, heldur formið á þessum viðskiptum. Hér er ekki um annað að ræða en það, hvernig hagað skuli yfirfærslum á erlendum gjaldeyri. Hér er um að ræða tilraun til þess að bankarnir geti komizt hjá því að setja bankatryggingar fyrir greiðslum erlendra útgerðarvara. En nú liggur það fyrir, að sama árangri er hægt að ná með því að hafa þessa heimild fyrir gjaldeyris- og innflutningsnefnd. En ástæðan til þess, að ég vil ekki, að útgerðarmenn hafi skilyrðislausa heimild til þess að kaupa inn veiðarfæri, er sú, að alveg ókleift er að hafa eftirlit með því, að ekki verði í sambandi við þau innkaup hafðir í frammi ýmiskonar hrekkir. — Ætla ég svo ekki að fara lengra út í þetta. En mér virðist hv. flm. vera farnir að beita fullkomnu málþófi í þessu máli.