28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Hannes Jónsson:

Ég heyri það, að hv. fjhn. hefir ekki þótzt geta tekið til greina brtt. mína um það að fella niður 15. tölulið frv. Ég vildi vegna þessa mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sæi sér fært að taka málið út til mánudags, svo að ég geti á þeim tíma fengið fullkomna skýrslu frá vegamálastjóra, er sýni, hver áhrif 15. liður frv. hefir á hag sýsluvegasjóðanna yfirleitt. Ég veit, að hv. fjhn. hefir enn ekki fengið allar þær upplýsingar úr sumum héruðum um þetta efni, sem til eru og sýna það glöggt, hve stórkostlega eru skert framlög til sýsluvegasjóða með ákvæðum frv. í sumum héruðum. Sum héruð, sem hafa lagt á hámarksgjaldið 6‰, hafa auk þess lagt fram úr hreppssjóðum upphæðir, sem eru hærri en niðurjöfnunargjaldið. Þetta hefir þó vitanlega ekki átt sér stað nema þar, sem þörfin á samgöngubótum hefir verið allra brýnust.

Það er eðlilegt, að reynt sé að draga úr gjöldum ríkissjóðs á erfiðum tímum. En það má ekki gera á þann hátt að ganga sérstaklega á rétt þeirra, sem mesta þörf hafa á vegum í sínum héruðum. En það ber vitni um hina brýnu þörf, hve sumar sveitir leggja stórkostlegar byrðar á sig til þess að þoka samgöngubótum áfram. Ef draga á úr vegagerð, þykir mér rétt að athuga, hvort ekki væri réttara að draga úr byggingu þjóðvega í bili, en halda sýsluvegunum í horfi. Ég veit, að því er haldið fram af sumum, að ef frv. það til vegalaga, sem nú liggur fyrir þinginu, verður samþ., muni það létta mjög á sýslufélögunum. En þess er að gæta, að mörg sýslufélög koma hér alls ekki til greina. Samþykkt frv. myndi því skapa ósamræmi á þann hátt, að öllum gjöldum til vega yrði létt af sumum sýslufélögum, en öðrum væri fyrirmunað að fá nokkuð úr ríkissjóði, þótt þau vildu leggja á sig stórkostlegar byrðar, verði 15. liður þess frv., er hér liggur fyrir, einnig samþ. Þetta myndi því leiða til hinnar fyllstu ósanngirni.

Ég veit, að hv. fjhn. mun sannfærast um það við nánari rannsókn, að með lækkun framlags ríkissjóðs samkv. 15. lið er höggvið svo stórt skarð í samgönguframkvæmdir á ýmsum stöðum, að ekki er við unandi.

Í mínu héraði hagar t. d. svo til, að ýmsir hreppar hafa mjög langa sýsluvegi, sem eru svo skammt komnir, að þá þarf að leggja fyrir mörg þúsund krónur árlega, ef þeim á nokkuð að miða áfram. Þannig þarf Þverárhreppur að leggja 30–40 km. langan veg, og er ekki nema hálfnaður. Ef nú á að fara að draga stórkostlega úr framlagi ríkissjóðs, sjá þeir menn, sem lagt hafa af litlum efnum stórfé í þann vegarspotta, sem búinn er, að líkurnar eru svo litlar til þess, að vonir þeirra um samband við þjóðvegina geti rætzt á næstu árum, að þeir missa trú og áhuga á verkinu. En áður voru til hálfgildings loforð frá þeim um það, að þeir héldu fjárframlögum sínum áfram, unz hreppurinn væri kominn í gott vegasamband.

Nú geta þeir ekki staðið við þetta loforð sitt, því að þá yrðu þeir að leggja fram sjálfir a. m. k. 2/3, ef ekki meira, af því fé, sem til vegalagningarinnar færi. Það hafa þeir vitaskuld ekkert bolmagn til, því að þeim hefir veitzt jafnan erfitt að leggja fram það, sem þeir eru skyldugir til samkv. lögunum, þó að fullt framlag komi frá ríkissjóði á móti.

Ég efast ekki um, að n. muni afgreiða þetta mál þannig, að enginn verði fyrir barðinu á því, en til þess að skapa sér rökrétt álit í því efni verða menn að hafa öll fullkomin gögn, sem sýna, hvað miklu fé hefir verið varið í hinum einstöku héruðum í þessum tilgangi, hvað mikið hafi fengizt úr ríkissjóði á móti og hvaða áhrif þessi lagabreyting muni hafa.

Ég vil því fastlega vænta þess af hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá að þessu sinni, ef hann fær samþ. n. fyrir því. Ég hafði beðið vegamálaskrifstofuna um skýrslu um þessa hluti, en hún hefir ennþá ekki komið, og mér er sagt, að hún hafi heldur ekki komið til n. En hún hlýtur að vera tilbúin, og ég mun seinna í dag reka á eftir henni, en í gær tók ég satt að segja ekki eftir því, að þetta mál væri á dagskrá í dag; annars hefði ég kannske fengið þessar upplýsingar.

Ég fullyrði, að hér sé um stórkostlegan niðurskurð á fjárframlagi til sýsluvega í einstökum héruðum að ræða, svo mikinn, að það mundi skapa mikið ósamræmi, ef að lögum yrði.