25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

83. mál, síldar- og ufsaveiði

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Það er óþarfi að hafa langa framsögu fyrir þessu frv. Það er shlj. frv., sem flutt var 1934 og varð þá að lögum, en voru afnumin á næsta þingi á eftir af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. En nú hefir síðasta fiskiþing samþ. einróma áskorun um það, að taka ákvæði frv. í lög aftur, og samkv. þeirri áskorun flyt ég þetta frv. nú.

Þegar tilskipun um síldar- og ufsaveiði með nót var sett 1872, var herpinótin ekki til sem veiðarfæri hjá oss. Þetta mál horfir því allt öðruvísi við nú, enda hefir það alls ekki verið tilgangur hinna eldri laga að torvelda veiðina, eins og þau gera nú, ef þeim er beitt út í æsar. Auk þess er augljóst, að hin gamla löggjöf getur aldrei orðið nema til málamynda, og leiðir ávallt til leiðinda að krefja landshlutar af síldveiðaskipi, enda orkar ávallt nokkurs tvímælis, hvar veiðin hafi fengizt. Ég held líka, að ákvæðum gömlu laganna sé mjög sjaldan beitt nú orðið, enda tæplega gengið á rétt landeigenda, þótt skip fari inn fyrir netalög. — Eins og ég sagði áðan, hefir fiskiþingið mælt einróma með efni frumvarpsins.