04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Pétur Ottesen:

Það má sjálfsagt taka undir það með hv. þm. Mýr. og hv. 7. landsk., að mikil þörf sé á því að hækka tillagið til búfjárræktarinnar, en það var einn af þeim liðum á 16. gr. fjárl., sem lækkaður var í fyrra samkv. till. fjvn. En lækkun á þessari gr. bæði að því, er snertir stuðning við landbúnaðinn og við sjávarútveginn, nam þó ekki meira en sem svaraði 10‰, að því undanskildu, að styrkurinn vegna tilbúins áburðar var lækkaður nokkuð meira. Og nú er komin fram till. um að lækka þennan styrk ennþá verulega, svo það má segja, að ef þetta verður samþ., þá sé hann næstum því þurrkaður út samanborið við það, sem hann hefir verið að undanförnu, því ég ætla, að ef þessi lækkun nær fram að ganga til viðbótar við lækkunina í fyrra, þá nemi það um 70% af því, sem greitt var á árinu 1935, og er þá komið langleiðis með að gera þennan styrk að engu. Á sínum tíma, þegar 1. um tilbúinn áburð voru sett, þótti það mikilsvert atriði í sambandi við ræktunarmál landsins, að mönnum væri gert sem aðgengilegast með að geta notfært sér erlendan áburð til uppbótar á þeim áburðarskorti, sem þeir menn ættu við að stríða, sem fengjust við að auka ræktun í landi sínu. Eftir þessu að dæma eru hugir manna það umhverfir, að nú þykir minnst um það vert að styrkja þessa grein landbúnaðarins, sem sé ræktunina, þar sem hér er farið fram á að lækka styrkinn til áburðarkaupa um 70% samtímis því, sem styrkir til annara búnaðarframkvæmda eru ýmist ekki lækkaðir eða því aðeins um 10%. Ég hefi spurnir af því, að nú sé í smíðum hjá hæstv. stj. og stjórnarflokkunum breyt. á jarðræktarlögunum, þar sem að nokkru leyti að minnsta kosti er gengið í þessa sömu átt, að líta ekki með jafnmikilli velþóknun á ræktunina eins og gert var, þegar jarðræktarlögin voru sett á sínum tíma, og gert hefir verið síðan með því að uppfylla ákvæði þessara laga. Maður hefir nú reyndar ekki séð framan í neinar slíkar till. ennþá, en hér blasa við manni till. um að lækka styrkinn vegna tilbúins áburðar um 70%, og þykir mér það harkalega að gengið, þar sem svo verður að telja, eins og nú er komið í sveitum landsins með fólkshald og annað, að aðallíftaugin sé það, þegar frá er tekið afurðasöluverðið, að menn geti aflað heyja á ræktuðu landi. Að vísu gegnir dálítið öðru máli þar, sem beit er sérstaklega góð og um er að ræða sauðfjárbúskap. Undir öðrum kringumstæðum er það undantekning, ef hægt er að fleyta búskap í sveit, nema stuðzt sé að meira eða minna leyti við ræktað land, það land, sem hægt er að koma vélvinnslu við. Ég vildi þess vegna vekja athygli á því, hvort gerlegt sé að ganga svo harkalega til verks hvað þennan lið snertir, þó að ég hinsvegar viðurkenni mikla og brýna nauðsyn á því að lækka útgjöld fjárl. í heild. Og af þessari ástæðu er það, sem ég er í miklum vafa um, hvort það sé til hagsbóta fyrir íslenzkan landbúnað, að þessi tilfærsla, sem hér er um að ræða milli tveggja liða, eigi sér stað, þó að ég viðurkenni búfjárræktina sem þarft og gott fyrirtæki hjá landsmönnum. — Nú má einnig á það líta í þessu sambandi, að út frá kaupstöðum landsins er hafin allmikil ræktun, og sú ræktun verður að sjálfsögðu að styðjast enn meir við notkun erlends áburðar heldur en ræktunin í sveitunum. — Og þar sem nú blasir við mikið aflaleysi við Faxaflóa og víða um land, þá virðist mér líka hvað aðstöðu þeirra manna snertir, sem þar eiga hlut að máli, mjög varhugavert að veikja aðstöðu þeirra til þess að fá þar nokkurt mótvægi með aukinni ræktun með því að ganga svo frá þessum hnútum, að það sé næstum felldur niður allur sá verulegi styrkur, sem hingað til hefir verið veittur til kaupa á erlendum áburði.