28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

95. mál, sveitarstjórnarlög

*Garðar Þorsteinsson:

Í fyrri ræðu hv. 1. þm. Árn. var hann að reyna að færa rök að því, að það væri óeðlilegt að gera greinarmun á því, hvort eigendur þessara húseigna, sem hér um ræðir, væru búsettir innan þess hrepps, þar sem húseignin stendur, eða utan hans, og þegar ég tók fram í fyrir hv. þm., þá fann hann hvöt hjá sér til þess að slá því fram, að þetta kæmi fram hjá mér vegna þess, að ég ætti sjálfur sumarbústað, m. ö. o., að ég gæti alls ekki tekið afstöðu til þessa máls eins og aðrir, af því að ég væri bundinn af mínum eiginhagsmunum í þessu efni. Ég held, að það séu ekki margir, að hv. þm. undanteknum, sem trú, því, að það hafi áhrif á mig í þessu máli, hvort ég ætti sumarbústað, sem er ef til vill 1000 kr. fasteign. Gjaldið af slíkri eign næmi aðeins örfáum krónum. Þetta sýnir, að hv. þm. þarf ekki mikið tilefni til þess að rjúka upp á nef sér, — og hver var ástæðan? Sú, að ég sagði, að það væri ekki einsdæmi, að við niðurjöfnun gjaldsins væri gerður greinarmunur á því, hvort viðkomandi maður er búsettur innan hrepps eða utan. Ég vil benda hv. þm. á það, að við aðalniðurjöfnun er fyrst og fremst spurt um það, hvar maðurinn eigi heima; það er ein aðalreglan í útsvarslögunum. Ég held, að hv. 1. þm. Árn., sem vinnur hér í bænum bæði á þingi og eins við önnur störf, greiði ekki útsvar í Rvík, af því að hann er hér ekki búsettur, og þannig mætti lengi telja. Þegar ég tók fram í fyrir hv. þm., þá benti ég aðeins á það, að það væri engin undanteknig í þessu tilfelli, þótt álagning væri óheimil. Þótt viðkomandi utansveitarmaður ætti sumarbústað, af því að hann er ekki sjálfur búsettur í sveitinni. Ég er viss um, að hv. þdm. telja það ekkert eftir sér að láta það í ljós við atkvgr., að þeir álíti ekkert óeðlilegt, að gerður sé greinarmunur á þessu, því að þetta er aðalreglan við aðalniðurjöfnun, eins og ég minntist á áðan, en hitt er undantekningarregla, að lagt sé á fasteign án tillits til eigandans; undir það heyra gjöld, sem hafa lögveð í húseignum, eins og t. d. brunabótagjald.

Við umr. hér í hv. deild um útsvarslögin sagði þessi sami hv. þm., og eins hv. 2. þmn. N.-M., að ef svo færi, að það myndaðist heilt hverfi af sumarbústöðum, eins og t d. í Ölfusi og Mosfellssveit, þá gæti það haft áhrif á það, hve mikinn hluta af sýslusjóðsgjaldi viðkomandi hreppar ættu að greiða, af því að niðurjöfnunin fer eftir fasteignamati húseigna innan hreppsins. Þetta frv. ætti að verða til þess, að þessir hv. þm. gætu orðið því fylgjandi, vegna þess að það gengur einmitt út á að íþyngja ekki viðkomandi hreppum, jafnvel þótt slík sumarbústaðahverfi myndist. Við skulum hugsa okkur þann tíma, þegar engir sumarbústaðir voru til í Ölfusinu, og að þær húseignir, sem þá voru þar, hafi verið jafnmikils virði við fasteignamat eins og þær eru nú, og að sama hlutfall hafi verið milli þessara fasteigna innan sýslunnar, þá er þar með fengin föst upphæð, sem viðkomandi hreppar ættu að greiða til sýslusjóðs. Þegar sumarbústaðirnir koma svo til sögunnar, þá raskast þetta, en ef þetta frv. verður samþ., þá verður aðstaðan að þessu leyti tiltölulega sú sama og hún var fyrir þessa hreppa gagnvart sýslusjóðsgjöldunum — að öðru óbreyttu — áður en sumarbústaðirnir komu. — Þau rök, sem þessir tveir hv. þm. komu fram með við umr. um útsvarslögin, sem ég játa, að höfðu nokkuð til síns máls, ættu þess vegna að verða til þess, að þeir gætu fylgt þessu frumvarpi.

Í þessu sambandi má minna á það, að hér í bæ eru tvö hús, Austurstræti 1 og Aðalstræti sem gefa eigendum, sem búsettir eru utan Rvíkur, mörg þús. kr. í arð á ári. Þessir menn eru ekki útsvarsskyldir í Rvík, af því að þeir eiga þar ekki heima. Þetta dæmi ætti að nægja til þess, að hv. þm. gæti séð, að það er eðlilegt að gerður sé greinarmunur á því, hvort þessir menn, sem hér um ræðir, eru búsettir þar, sem eignir þeirra standa, en hinsvegar greiða þeir útsvar af þessum tekjum, sem þeir kunna að hafa af eignum sínum, í sinni heimasveit. Ef hreppsfélögin, sem fá verulegar leigutekjur eftir sumarbústaðina og hafa auk þess hagnað af viðskiptum við þessa eigendur sumarbústaðanna, fara að elta þessa menn með útsvörum, sem yrðu mismunandi há eftir gjaldgetu annara hreppsbúa, þá verður afleiðingin af því vitanlega sú að önnur hreppsfélög, sem líkt stendur á um að þessu leyti, fara sömu leiðina og leggja útsvör á eigendur ýmsra eigna, sem standa í viðkomandi hreppi, enda þótt eigendurnir séu búsettir unnarsstaðar. Ef þess vegna á að gera hér einhverja breyt., þá á að koma fram með breyt. á útsvarslögunum, þannig að þeir verði útsvarsskyldir, sem eiga eignir innan annars hreppsfélags en þeir eru búsettir í. Ég stóð aðeins á fætur til þess að sýna hv. 1. þm. Árn., að mitt framígrip var ekki gert að ástæðulausu, heldur til að benda honum á þá aðalreglu, sem gilt hefir í þessum efnum, en hann tók ekki tillit til.