08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Það hefir nú lítið verið um þetta mál rætt í hv. deild. Því var aðeins fylgt úr hlaði með nokkrum orðum af hv. frsm. sjútvn., sem hefir flutt þetta mál. Ég sé á plöggum, sem fyrir liggja frá fiskiþinginu, sem nýlega var háð í Reykjavík, að það hefði haft allmikið að athuga við það frv. um þetta efni, sem sú n. hefir samið, sem til þess var nú kjörin og í voru forseti Fiskifélagsins, forstjóri Samábyrgðarinnar og fleiri menn. Því að ég sé, að fiskiþingið eða n. í fiskiþinginu er komin fram með till., sem ég ætla, að hafi verið samþ. þar; hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Fiskiþingið er því mótfallið, að lögleidd verði skyldutrygging fyrir vélbáta, nema því aðeins, að jafnframt verði fyrir því séð, að slík trygging veiti vátryggjendum ekki lakari kjör en nú gerast bezt. Telur fiskiþingið mjög skorta á, að frv. það, er fyrir liggur, uppfylli þessa sjálfsögðu kröfu, og mótmælir því, að það nái fram að ganga, nema úr verði bætt, þannig, að fyllilega verði gætt hagsmuna vátryggjenda.“

Þetta er nánar tiltekið með ýmsum atriðum, sem n. álítur varhugavert við þetta frv. Og eftir því, sem ráða má af þessu áliti fiskiþingsins, eru þau atriði töluvert stórvægileg, þar sem þeir álíta, að gengið sé á hagsmuni vátryggjenda framar því, sem þeir álíta rétt, samanborið við þau kjör, sem þeir nú búa við.

Ég minnist þess úr framsögu sjútvn., að í meðferð n. hefir þetta frv. tekið allmiklum breyt., og mér skildist hafa verið tekið tillit til þess, að einhverju leyti a. m. k., sem fram kom í fiskiþinginu um þetta atriði.

Ég hefi sannast að segja ekki átt kost á að bera þetta frv. til hlítar saman við það upprunalega frv. n., og er þess vegna ekki alveg viss um, hvort bætt hefir verið úr öllum þeim agnúum, sem bent hafði verið á í nál. fiskiþingsins. Það eru taldir upp átta liðir, og auk þess eru niðurlagsorð nál. þannig, að ýmsar fleiri breyt. en þar eru taldar verði að gera á frv., svo að það gefi talizt aðgengilegt fyrir skyldutryggingu. Nú er ekki nein skyldutrygging í l. á bátum og skipum hér á landi. En í framkvæmdinni er það þannig, að á flestum þessara skipa og báta mun hvíla nokkur veðskuld, og eru þau því vátryggð, og býst ég við, að svo muni vera í flestum tilfellum. Vátrygging þessara báta er ýmist með þeim hætti, að það hefir verið stofnað félag á útgerðarsvæðinu, sem svo hefir endurtryggt hjá Samábyrgðinni. Auk þess er mikill fjöldi báta vátryggður í Sjóvátryggingarfélagi Íslands, og tala þeirra hefir hækkað meir og meir upp á síðkastið, og hefir jafnvel verið lagður niður vátryggingarfélagsskapur í héruðunum og vátryggingin flutt yfir til Sjávátryggingarfélagsins, af því að ýmsir hafa talið sig fá þau kjör þar, að þeir ættu ekki kost á öðrum betri annarsstaðar.

Nú er vitanlega með þessu frv. slíkt frjálsræði um að vátryggja algerlega tekið af eigendum báta og skipa og þeir skyldaðir til að mynda vátryggingarfélagsskap, sem svo endurvátryggi í vátryggingarstofnun ríkisins. Nú kemur hvergi fram í þessu frv., hvort hægt verði að uppfylla það skilyrði, sem sett var frá fiskiþingsins hálfu, að menn eigi við að búa ekki lakari kjör en nú eru. Því að það á að ákveða, eftir að þessi 1. eru sett, um iðgjald og alla tilhögun þessa félagsskapar, á þeim grundvelli, sem lagður er í löggjöf þessari. Ég vildi þess vegna gera fyrirspurn um það til hv. sjútvn., hvort sú athugun, sem hefir verið gerð á þessu máli, fæli í sér nokkurn veginn tryggingu þess, að menn eigi þess, kost eftir að þessi l. eru samþ. að búa við ekki lakari kjör heldur en þeir búa við, sem bezt kjör hafa fengið um vátryggingu á sínum bátum. Af því að ekkert hefir komið fram um þetta atriði, en sjómenn eðlilega gera kröfu til þess um leið og þeir eru með l. þvingaðir inn í ákveðinn félagsskap, að sú breyt. verði þeim frekar til hagsbóta heldur en hins, að þeir bíði einhvern skaða, þá vildi ég gjarnan fá skýr svör við þessari spurningu.

Ég sé nú við samanburð á þeirri gagnrýni, sem fram hefir farið á upprunalega frv. í fiskiþinginu, að tekið hefir verið tillit til a. m. k. sumra þeirra aths. T. d. voru menn samkv. upprunalega frv. skyldir til að tryggja skip sín og bát, a. m. k. 8 mánuði ár hvert. Það hefir verið tekið tillit til þessa, að mér virðist, í 32. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að endurgreiða iðgjald fyrir skip, sem staðið hafa á landi eða lagt er tryggilega fyrir festar á öruggum stað, sem stj. félagsins telur gildan. Slík landstaða eða hafnarlega a. m. k. einn mánuð samfleytt skilst mér vera lágmarkið, en síðan er vitanlega talinn allur tími umfram þetta lágmark. En mér skilst, að með þessu ákvæði, sem hér er, sé þrengt nokkuð kosti skipanna frá því, sem nú er, þar sem ekki er tekið tillit til þessa nema minnst einn mánuð í senn. Því að ég ætla, að það sé svo hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands, að tekið sé tillit til sjö daga legu fyrir festum eða í lægi, samkv. því, sem tilskilið er, og þá endurgreitt af iðgjöldum. Það mun að vísu vera tekið fram í skírteini hjá Sjóvátryggingarfélaginu, að lágmarkið sé 15 dagar. En í framkvæmdinni hefir þetta orðið þannig, að það varð alger regla að miða við sjö daga.

Það var ennfremur lögð áherzla á, að það þótti ábótavant við það upphaflega frv., að mönnum var ekki tryggð endurgreiðsla á tjóni á festum og akkerum. Það er nefnilega mjög algengt, að menn verði að leggjast upp við land, heldur en inni á höfnum, og lendi menn á hraunbotni, sem iðulega kemur fyrir, missast oft festar og akkeri. Í slíkum tilfellum hefir nú Sjóvátryggingarfélagið bætt skaðann. Ég sé, að ákvæði þetta hefir vantað í frv.; kann að vera, að mér hafi sézt yfir, og upplýsir sjútvn. þetta þá væntanlega.

Ég veit ekki, hvort það kemur nógu skýrt fram, að bættar skuli skemmdir á vélum og bátum, t. d. af eldsvoða og þess háttar, svo sem þegar vélar springa. En hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands er það svo, að meðan vélar eru ekki komnar yfir fimm ára aldur — tíu ár hygg ég reiknaðan meðalendingartíma þeirra —, þá er slíkur skaði að meira eða minna leyti hættur. Getur verið, að með þessu frv. sé einnig gert ráð fyrir þessu, þó að ég hafi ekki beinlínis rekið mig á ákvæði um það.

Þá sé ég, að Fiskifélaginu eða fiskiþinginu hefir ekki þótt ákvæðin um endurgreiðslu á tjóni, sem verður á opnum vélbátum (svokölluðum trillubátum), fullnægjandi, þ. e. a. s., að ekki sé nægilega séð fyrir bótaskyldu til vátryggjenda. Það er tekið fram í frv., að það sé eingöngu í þeim tilfellum, þegar bátur ferst eða er dæmdur algerlega ónothæfur, sem eigi að borga út vátryggingarupphæðina, en þegar um smærri skemmdir sé að ræða, verða bætur ekki greiddar, nema skemmdirnar hafi hlotizt af nauðlendingu eða öðru slíku. Fiskiþinginu hefir þótt þetta nokkuð harðir kostir, og það að vonum.

Þá en hér í 26. gr. frv. gert ráð fyrir því, að ef það sannast, að skipstjóri hafi af ásettu ráði eða í sviksamlegum tilgangi valdið tjóni, þá eigi að draga 20% frá skaðabótafénu. Það virðist vera sjálfsagt aðhald gagnvart eiganda báts, að ef hann verður uppvís að því að hafa reynt að eyðileggja bátinn eða gera ráðstafanir til þess, þá gangi það út yfir hann svo sem verða má. En að ætla að refsa eigendum báts fyrir slíkt tiltæki hjá skipstjóra, það virðist mér vera nokkuð harðir kostir gagnvart eiganda, sem væri alsaklaus af slíku tiltæki. Enda er það svo t. d. að taka hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands, að þar eru ekki neinir slíkir kostir settir. Þær varúðarráðstafanir, sem gerðar eru, snúa beint að eigendum bátanna, en það er ekki gert ráð fyrir að „straffa“ eigendurna með fjártjóni, þó að slíkt komi fram hjá skipstjóra, sem eigandinn á ekki sök á. Ég vildi leiða athygli að þessu í sambandi við það, að ég er að bera saman þau kjör, sem menn koma til með að fá eftir þessum l., og þau kjör, sem menn nú eiga við að búa í öllum vátryggingarfélögum. Ég hefi sérstaklega gert hér samanburð á því félagi, sem bátaeigendur á Akranesi hafa tryggt sína báta hjá, en það er Sjóvátryggingarfélag Íslands. Ég get fullyrt það, að þeir vilja ógjarnan ganga frá þeim viðskiptum, nema þeir fái a. m. k. sömu kjör og kosti eins og þeir eiga þar við að búa. Það hefir ennfremur verið talað hér um eitt atriði, sem ekki snertir einasta þá fjárhagslegu hlið, heldur og mannslífin. Það er ákvæðin um það, hvernig gjaldið skuli borgað til þeirra skipa, sem bjarga nauðstöddum bátum á hafi úti eða undir öðrum kringumstæðum. Það er gert ráð fyrir því, að það verði dregið frá vátryggingarupphæðinni. Það er gert ráð fyrir, að borgunar fyrir slíka hjálp verði ekki krafizt eftir venjulegum björgunarreglum, heldur skuli þau ákveðin af stjórn hlutaðeigandi félags. Ég sé, að fiskiþingið hefir lagt mikla áherzlu á þetta atriði og hefir litið svo á, að ákvæðin eins og þau voru í upphaflega frv. gætu verið stórhættuleg lífi manna og öryggi skipa. Ég skal ekkert um þetta segja. En það verður að sjálfsögðu að haga þannig þessum ákvæðum, að af því geti ekki hlotizt það tjón, sem fiskiþingið hefir álitið, að af þessum ákvæðum gæti orðið. Ég veit, að þetta hefir verið fært í betra horf. Það er sérstaklega þetta, sem ég vildi leggja áherzlu á og beina til n., hvort ekki væri hægt að byggja þennan félagsskap þannig upp, að ekki þurfi að greiða gjöld né sæta verri kostum um skaðabætur heldur en menn eiga nú við að búa. Því að sjávarútvegurinn er ekki þannig staddur nú, að hann geti tekið á sig neinar nýjar viðbótargreiðslur.