14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Ólafur Thors:

Ég hygg, að þetta frv. hafi í aðalatriðum við rök að styðjast, en hinsvegar get ég ekki annað en viðurkennt, að hugsun sú, sem kemur fram í hinni rökst. dagskrá hv. þm. Borgf., á einnig við full rök að styðjast.

Ég treysti mér ekki með því, sem liggur hér fyrir í þessu frv. og þeirri grg., sem því fylgir, og því, sem fram hefir komið í framsöguræðu, að dæma um það fyrir umbjóðendur mína, hvort þau ákvæði, sem hér er lagt til að lögfesta, eru þess eðlis, að þeim verði það hagkvæmt eða ekki, að þau séu lögfest. — Ég hygg, að þegar setja skal löggjöf um svo veigamikil ákvæði sem þessi, þá sé það í alla staði sanngjarnt og til góðs, að þeir, sem við löggjöfina eiga að búa, fái meiri umsagnarfrest en hér býðst.

Ég viðurkenni það, að hér í grg. kemur fram eitt atriði, sem mælir með því, að ekki sé lengi látið undir höfuð leggjast að skipa þessum málum með löggjöf. Það hefir valdið vandræðum, að sumir skipaeigendur gera ekki gangskör að því að vátryggja skip sín báta, og af því leiðir, að saklausum aðiljum er unnið tjón. Ef þessi óvátryggðu skip vinna skaða öðrum skipum, þá fellur það á eigendur skipanna að bæta þann skaða, en þeir eru oft ekki færir um að standa undir þeim skaðabótum, og fellur þá tjónið á þann, sem saklaus er, en ef skipin, sem valda skemmdunum, eru vátryggð, þá fellur skaðabótagreiðslan á vátryggingarfélagið. Þetta mælir með því, að málið sé ekki látið dragast á langinn, en samt ekki svo sterklega, að þar með sé sagt, að ekki megi velja þá leið, sem hv. þm. Borgf. leggur til, að verði farin.

Svo að segja hver einasta gr. frv. felur í sér ákvæði, sem full ástæða er til að gagnrýna, ekki aðeins frá sjónarmiði samtrygginganna, heldur líka frá sjónarmiði þeirra, sem standa fyrir vélbátaútvegi.

Mig skortir kunnugleika á þeim tryggingarkjörum, sem vélbátaeigendur almennt eiga við að búa. Ég þekki þau ekki til hlítar, en nóg almennt til þess að vita, að mörg atriði eru í þessu frv., sem hljóta að orka tvímælis.

Það eru nú liðin um 15 ár síðan togaraútvegsmenn stofnuðu sitt tryggingarfélag. Hafði Gunnar Egilson forgöngu í því, en hann var þeim málum manna kunnugastur og hafði í ráðum með sér þaulvana enska tryggingarfræðinga.

Það tók okkar útveg mjög langan tíma að athuga, hvaða ákvæði yrðu tekin upp fyrir okkur skip. Ég veit, að það sama hlýtur að eiga sér stað um vélbáta, og ég endurtek það, að mér er nokkuð suma, á hvaða gr. ég lít af þessum 39 gr., því að það eru svo að segja í hverri gr. ýms ákvæði, sem orka tvímælis, eins og t. d. í 15. gr., en þar eru tekin upp eldri ákvæði, en mér finnst það orka tvímælis, hvort það er löglegt, að ef skip eru meira en eins árs gömul, þá skuli afföllin af vátryggingarkostnaðinum vera 15%, og þegar þau eru sjö ára, þá skuli afföllin vera 25%. Ég tek það fram, að mér er ekki kunnugt um, hvaða ákvæði eru nú gildandi í þessu efni, en yfirleitt er það svo, að í lögunum er fullt af ákvæðum, sem mér finnst, að hv. þm. verði að fá leiðbeiningar um frá útvegsmönnum. Ég veit ekki heldur um það, hvort það er eðlilegt, að tjón á vélum verði því aðeins bætt, að það stafi af árekstri o. s. frv. Ég veit ekki, hvort það er á viti byggt, að innheimtugjaldið sé 4% af iðgjöldunum, að frádregnum endurgreiddum iðgjöldum; ef gert er ráð fyrir því, að endurgreidd iðgjöld séu allt að helmingur af gjöldunum, þá er hér um að ræða 2%, og ef miðað er við það, að félagið frekar hagnist en tapi, þá nema innheimtulaunin meira en því, sem svarar til þess tjóns, sem af því leiðir, að fimmtugasta hvert skip, sem vátryggt er, færist á hverju ári.

Það er ekki tilgangurinn að gagnrýna í einstökum atriðum ákvæði þessa frv.; ég hefi nefnt þessi sérstöku atriði af handahófi, aðeins til þess að vekja athygli á því, að svo að segja, hver einasta gr. felur í sér ýms ákvæði, sem hljóta að geta orkað tvímælis, en hitt veit ég af reynslunni, að það skiptir miklu máli að fá þegar í öndverðu lögfest þau ákvæði, sem geta staðið sem mest óröskuð í framtíðinni. Þar sem við þm. hljótum að viðurkenna, að okkur skortir nægilega þekkingu í þessum efnum, og þar sem það skiptir ekki verulegu máli, hvort þetta frv. verður samþ. á þessu þingi eða látið bíða næsta þings, þá tel ég hyggilegt, að samþykkt þessa frv. verði frestað og nægilegra upplýsinga verði aflað um ýms ákvæði þess. Af þessum ástæðum er ég fylgjandi rökst. dagskrá hv. þm. Borgf.