04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (2777)

125. mál, framfærslulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég býst við, að hv. þm. muni, þegar þeir bera saman 1. gr. frv. og 10. gr. þeirra laga, sem samþ. voru í fyrra, fagna þeirri breyt., sem hér er lagt til, að verði gerð, og sjá, að þær eru ekki þess efnis, sem hv. þm. V.-Sk. hélt fram. Hv. þm. þurfa ekki annað en lesa saman þessar gr., og þá verður þeim málið ljóst; þarf því ekki að rökræða þetta atriði.

Það, sem hv. þm. hefir á móti 3. gr. frv., er, að hann vill álíta, að þessar breyt. séu til hins verra fyrir valdsmann, en það virðist vera algerlega óþarft að skylda valdsmann með lögum til þess að leita staðfestingar á skýrslu konunnar, ef hann álítur, að sú skýrsla sé sönn og rétt, því að þá er ástæðulaust fyrir hann að leita staðfestingar. Er alger óþarfi að binda þetta í lögunum, því að ég sé ekki, hvaða bót er að því að skylda valdsmanninn til þessa; getur það aðeins valdið óánægju og torveldar afgreiðslu, því að það leiðir af sjálfu sér, að eftir því sem fleiri eru riðnir við afgreiðslu málsins. gengur hún seinna.

Viðvíkjandi 4. gr. eða því, að framfærsluskylda manns falli niður, er konan giftist aftur, sé ég enga ástæðu til að halda því, sökum þess, að hún er tvímælalaust röng. Ég hefi rekið mig á það, að þetta er ranglátt og til stórbaga, eins og fyrirkomulagið er nú, og sé ég enga ástæðu til að halda því. Tel ég það réttlætisatriði fullkomið, að kona haldi framfærslueyri frá manni sínum með börnum þeirra, þó að hún giftist aftur.

Viðvíkjandi brtt. við 43. gr. er það vitanlega ekki rétt hjá hv. þm. V.-Sk., að sú brtt. valdi því, að alltaf verði farið eftir till. nefndanna, en orðalagið dregur aðeins nokkuð úr því valdi, sem ettir 43. gr. er falið þessum n., og er því breytt til bóta með niðurfellingu þessara orða. Þó er á engan hátt átt við, að undir öllum kringumstæðum skuli farið eftir till. n., þó að þær séu óframkvæmanlegar. En ef orðalagið stendur óbreytt, þá gefur það undir fótinn um, að ekki þurfi meira en svo að fara eftir þessum tillögum nefndanna.

Önnur atriði voru það ekki, sem hv. þm. fór út í, og sé ég því ekki ástæðu til að gera þau að umtalsefni.