24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv., sem gengur undir nafninu „bandormurinn“, er komið frá hv. Nd. og er nú í 16 liðum. Fjhn. hefir athugað frv., og hún lítur svo á, að ríkissjóður megi ekki missa þær tekjur, sem frv. gerir ráð fyrir, þar sem ekki er sjáanlegt, að um neina gjaldalækkun geti verið að ræða á næsta ári. Brtt. nefndarinnar eru leiðréttingar, sem ekki þurfa skýringar við. Að vísu mætti halda, að b-liður 1. brtt. væri allmikil breyting, en hún er þó einnig leiðrétting á vangá í frv.