29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég skal halda mig við brtt. á þskj. 455. — Eins og hv. þdm. er kunnugt, var sú stórfellda breyt. gerð á frv. við 2. umr., að felldur var alveg niður III. kafli, en sá kafli var stórvægilegastur, þar sem um var að ræða vörugjaldið til bæjarsjóðanna og sveitarsjóða hreppsfélaganna. Þetta vörugjald átti eftir áætlun n. að nema 650 þús. kr., að frádregnum 23 þús. kr., sem nú eru teknar með vörugjaldi í Vestmannaeyjum. Þessi kafli hefir allur verið felldur niður. En þar sem það var langstærsti tekjuliðurinn, sem ætlaður var þeim, sem vænta má, að eftir breyt. á framfærslul. beri þyngstar byrðar af framfærslunni í landinu, hefi ég gert bragarbót, til þess að bæta upp III. kaflann. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, mun aðflutningsgjaldsaukinn (5%), sem samkv. frv. á að renna til bæjar- og sveitarsjóðanna, nema um 230 þús. kr. Er það sem næst 13, sem þessir aðiljar þannig fá af því, sem þeim upprunalega var ætlað eftir frv. En við breyt. hafa sveitirnar haldið sínu. Ég sá mér ekki fært, til þess að bæta þetta upp, að taka upp vörugjald, því að ég gerði ekki ráð fyrir, að það fengist samþ. í d. En hinsvegar sé ég ekki, að hægt sé að láta frv. fara svo gegnum þingið, að ekki sé að einhverju leyti bætt úr þessu. Og þar sem nú er orðið síðla þings, er eina leiðin að vinna þennan halla upp með einföldu gjaldi, sem ekki þarf að deila mikið um. Mér hefir því hugkvæmzt að leggja til, að lagður verði 10% viðaukatollur á áfengi og tóbak, til þess að vinna upp þennan halla. Eftir LR 1934 nema þessir tollar um 2 millj. kr., og kæmu því 200 þús. kr. tekjur á þennan hátt. Og 200 þús. + 230 þús., sem áður voru taldar, gera 430 þús. kr. Er þá enn 200 þús. kr. halli frá því, sem frv. mþn. gerði ráð fyrir, en skaðinn, sem orðinn var, bættur að 2/3, ef þessi brtt. verður samþ. — Þetta er svo einfalt, að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það. Það, sem ég var í mestum vafa um, var, hvort ég ætti að leggja til, að tollaukinn af áfenginu og tóbakinu skyldi renna til bæjar- og sveitarsjóðanna, eða eingöngu til bæjarsjóða kaupstaðanna, sem ég þó hallaðist að. En ég skal játa, að þetta getur verið álitamál. Mér fannst þetta vera orðið svo útþynnt, ætti að dreifa því meira en til kaupstaðanna, svo að þess færi þá að gæta lítið. Enda er það svo, að kaupstaðirnir borga mest af þessu og hafa teknanna mesta þörf, vegna þess að meginþungi framfærslunnar færist þangað. Ég hefi athugað, að við manntalið 1934 voru 51869 íbúar í kaupstöðum. Tollaukinn mundi því nema um 4 kr. á nef, og er ekki hægt að neita, að það er talsverður styrkur. Í kauptúnum með yfir 300 íbúa eru samtals 13½ þús., svo að ef þeim væri bætt við, kæmu ekki nema 3 kr. á nef. Og mér fannst satt bezt að segja. ef þannig væri farið að lækka þetta, að þá drægi það ekki mikið. Ef hinsvegar ætti að dreifa þessum tollauka til allra landsmanna, þá kæmi ekki nema 1,80 kr. á net, og fer þá að draga sáralítið um það, enda ekki ástæða til þess, þegar sveitirnar halda öllu sínu, sem þeim var ætlað eftir frv. Auk þess vil ég benda á þá staðreynd, að sveitirnar sjálfar greiða hverfandi lítinn hl. af þeim tollum, sem hvíla á áfengi og tóbaki. Ég hygg, að kaupstaðirnir og stærri kauptúnin beri þar meginþungann, því að mestur hl., eða eftir því, sem mig minnir, 9/10 af tóbakstollinum, er af cigarettum, sem lítið er notað af í sveitunum. Hér fer því saman, að ekki er bein ástæða til að auka við skatta til sveitanna á þennan hátt og það, að lítið sem ekkert af þessu gjaldi er af sveitunum tekið, a. m. k. í miklu minna mæli en vörugjaldið, sem þetta á að koma í staðinn fyrir. Ég vona því, að hv. þdm. líti með velvild á þessu tilraun til þess að bæta bæjarsjóðunum það upp, að III. kafli hefir verið felldur niður, um leið og hin nýju framfærslulög hafa verið samþ., sem leiðir til þess, að framfærslan færist óðfluga af sveitunum yfir á kaupstaðina. Ég var í vafa um, hvort skipta ætti þessu gjaldi milli kaupstaðanna einna eða einnig þeirra kauptúna, sem eru sérstakur hreppur. Það má ef til vill gera að álitamáli.