25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Þorsteinn Briem:

Ég skal játa, að eftir þeim kynnum, sem ég hefi, þá ætla ég, að það sé sérstaklega hentugt með tilliti til þess að koma laxaseiðum í árnar á Austurlandi, að stunda klak við Laxá við Mývatn. En það virðist svo í þessu máli eins og öðrum, að hyggilegast sé að styrkja einstaklingana til framkvæmda. Til ríkisframkvæmda á þá fyrst að taka til að fylla í eyður, þegar einstaklingana vantar áhuga eða kraft til framkvæmdanna. En ég hygg, að á Suður- og Vesturlandi sé hvorttveggja fyrir hendi. Er mér kunnugt um, að bæði í Árnessýslu og Borgarfirði er mikill áhugi fyrir laxaklaki, enda liggja þar næstu veiðiárnar við Reykjavík. Sá áhugi einstaklinganna hefir borið þann árangur, að ráðizt hefir verið í miklar framkvæmdir, og stendur til, að ráðizt verði í meiri framkvæmdir. T. d. er mér kunnugt um, að Borgfirðingar hafa í hyggju að sameina sig um að reisa hjá sér myndarlega klakstöð. Þegar svo mikill áhugi er vaknaður, er hann aldrei tómhentur. Svo hefir það verið, og ég ætla, að svo verði einnig í þessu efni, að áhugamönnunum verði mest ágengt.

Fyrir þinginu liggur nú frv. um að hækka styrkinn til klakhúsanna um 2/5, eða úr kr. 1,50 í kr. 2,50, og má vænta, að það verði til þess að greiða verulega fyrir því, að áhugi einstaklinganna nái betur að njóta sín. Það virðist því engin brýn nauðsyn fyrir suðvesturlandið, að ríkið taki fram fyrir hendur einstaklinganna, sem hafizt hafa handa í þessum efnum, og taki eignarnámi Laxá í Kjós, eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er einnig upplýst af hv. 2. þm. Rang., að þar er smærri og lakari laxategund en almennt er í ám hér sunnanlands. Slíkt leigunám kostar allmikið fé, en ég hélt, að það væri ekki yfirfljótanlegt til annara hluta nauðsynlegri. — Á síðasta þingi var mikið talað um, að margar stoðir rynnu undir að taka einmitt þessa á eignarnámi. En þó fékkst ekki fram, hverjar þær ástæður væru, og var eins og ekki mætti netna þær. Þó hefði mátt ætla, að þær hefðu verið dregnar fram til þess að sanna nauðsyn málsins.

Hv. 2. þm. Rang. taldi ekki rétt að taka þessa á leigunámi, og verð ég einnig að líta svo á, bæði vegna þeirra upplýsinga, sem fram hafa komið um, að laxinn sé ekki heppilegur, og af því, að í þessum hluta landsins er undirbúningur hafinn til framkvæmda í þessa átt, og ég tel ekki ástæðu til að slá á þann áhuga, sem þar er að verki. Ég verð að segja, að það er ekki við því að búast, að það örvi einstaklingana til að koma upp klaki, ef þeir eiga yfir höfði sér eignarnám, þegar minnst varir.

Mig brestur kunnugleika um hina ána, Laxá við Mývatn, en ég get búizt við, að fyrir norðausturland og Múlasýslur sé þörf á sérstökum ráðstöfunum, og að þessi á sé heppileg fyrir þann landshluta og jafnvel Eyjafjörð.

Viðvíkjandi ákvæðum 2. gr. um 6 aura skatt á kg., þá held ég, að megi segja, að það sé nokkurnveginn vitað, að veiðiskýrslur séu ekki nákvæmar, og að tæplega sé hægt að búast við, að þær verði nákvæmari en áður var eftir að búið er að leggja 6 aura skatt á hvert kg. Má því mikið vera, ef ekki verða vanhöld á innheimtu á því gjaldi. Hinsvegar er gert ráð fyrir, að þó skatturinn sé svona hár, þá verði allhátt verð á seiðunum, ég ætla fyllilega eins hátt og verið hefir hjá einstaklingum, enda má vel vera, að ekki verði hjá því komizt að hafa verðið hátt hjá klakstöðvum ríkisins, þar sem vitanlegt er, að rekstrarkostnaður verður alltaf hærri hjá ríkinu en einstaklingum. — Ég vildi hreyfa þessum aths. nú þegar við 1. umr.