19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Gísli Guðmundsson:

Ég vissi ekki fyrr en hv. þm. V.-Sk. skýrði frá því nú í sinni ræðu, að hann og hv. 1. þm. Reykv. hefðu talað fyrir munn sérstakra manna. Ég hafði búizt við, að málið væri flutt frá þeirra hlið af eigin hvötum. — Þá kom mér mjög óvart tal hv. þm., nú í síðari ræðu hans, um þá pólitík, sem komin væri í málið. Hv. þm. komst svo að orði, að framsóknarmenn mundu ekki ætlast til, að annar maður yrði ráðinn til þess að lesa þingfréttirnar. Ég veit ekki til þess, að Framsfl. hafi tekið nokkra afstöðu til málsins, og því síður gert það að flokksmáli. Það, sem ég sagði um málið, og það, sem felst í minni brtt., er eingöngu mælt út frá eigin skoðun og þeim áhuga, sem ég ber fyrir því, að málið verði leyst á sem heppilegastan hátt fyrir hlustendur þingfréttanna. Hitt er vitanlega aukaatriði, hvaða maður flytur þær, og ég hygg, að ég hafi ekki flutt málið þannig, að ég gæfi tilefni til annars.

Ég undrast dálítið, hvað hv. þm. V.-Sk. er illa við mína till., svo sjálfsögð sem hún er. Hefi ég þegar fært rök að því, hver vandi er á höndum um fréttaflutninginn og nauðsyn þess, að reglur um hann séu vel undirbúnar. Það er alltaf hægt að ásaka þann, sem flytur, um hlutdrægni, meðan ekki er búið að setja þar um fastar reglur. Þess vegna tel ég brtt. mína sjálfsagða, enda skildi ég satt að segja ekki tal hv. þm. V.-Sk. um, að hún mundi tefja málið um langan tíma, en segir í sömu andrá, að forsetar geti samið reglur á örstuttum tíma. Það er auðvitað rétt, að ekki tekur langan tíma að semja slíkar reglur, en það þarf að beita þeirri aðferð, sem gerir þær svo úr garði, að þm. geti orðið ánægðir með þær og sem mest sammála. Ég hefi hugsað mér, að verði þáltill. samþ. með þeirri breyt., sem ég flyt við hana, þá fari forsetar þegar að þreifa fyrir sér um, hvaða reglur þm. mundu helzt sætta sig við að hafa á fréttaflutningnum.

Hv. þm. V.-Sk. segir, að ráðinn hafi verið pólitískur maður til þess að flytja fréttirnar. Það er rétt, að sá maður hefir nokkur afskipti haft af pólitík. En ég held, að leitun sé á manni, sem ekki er pólitískur, þegar sagt er, að Íslendingar séu pólitískasta þjóð í heimi. Það er líka svo, að allflestir menn, sem komnir eru til vits og ára, og jafnvel einnig börn, hafa tekið afstöðu til pólitískra flokka. Sá maður mun varla til, sem hægt er að telja ópólitískan. — Það væru þá helzt fávitar eða börn í vöggu. — Þetta tal hv. þm. V.-Sk. um, að ráða þurfi ópólitískan og óhlutdrægan mann til fréttaflutningsins er að formi til rétt, en það strandar bara á því, að þeir menn eru ekki til. Það verður að ráða þann mann til starfsins, hvað sem pólitískum skoðunum hans líður, sem reyndur er að dómgreind og heiðarleik, mann, sem treysta má til þess að dæma svo á milli, að frásögnin verði hlutlaus. Og það er svo fyrir að þakka, að þrátt fyrir alla pólitík er til fjöldi manna, sem mundi gæta fyllstu óhlutdrægni í slíku starfi.

Þá vil ég vísa á bug sem algerlega tilefnislausum ásökunum hv. þm. V.-Sk. um, að ég hafi borið brtt. fram aðeins til þess að slá málinu á dreif.

Ég vil ekki eiga hlut í, að frekari umr. rísi milli hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. V.-Sk., en ég verð að segja, að mér datt í hug, þegar hv. þm. V.-Sk. var að tala um „gamla manninn“, að þar væri að skjóta upp hjá hv. þm. gamalli gamals manns pólitík, sem mjög var rík hjá honum fyrir 3–4 árum, um það leyti, sem hann var að verða vonlaus um að ná þingsæti í sinu kjördæmi.

Þá vildi ég fara aðeins nokkrum orðum um síðari ræðu hv. 1. þm. Reykv., og vænti ég þess, að hæstv. forseti átelji ekki, þó ég verði að víkja lítið eitt út fyrir efni till., en ég mun gera það í svo stuttu máli sem unnt er. Og ég vænti þess af hæstv. forseta, vegna þess að hann hefir látið óátalið, að hv. 1. þm. Reykv. flytti hér ræðu, sem að engu leyti var um málið, að hæstv. forseti leyfi mér að verja nokkrum mínútum til að ræða um það, sem snertir ekki beint þáltill.

Hv. 1. þm. Reykv. dró nokkuð saman seglin í sinni síðari ræðu, og var raunar ekki um annað að ræða fyrir hann. Hann sagði sem sagt í sinni síðari ræðu, að hann hefði alls ekki átt við það, að launin við útvarpið væru sérstaklega há nú. En hann sagðist hafa átt við það, að þau hefðu einu sinni verið óeðlilega há. Ég get búizt við, að næsta breyt. hjá honum verði sú, að hann hafi einhverntíma hugsað, að laun í útvarpinu yrðu há! En staðreyndirnar eru þessar, að útvarpsstjórinn er lægst launaður af forstöðumönnum ríkisstofnana, og sýnir þetta hið algera tilefnisleysi að tala um hans laun hér. Og ég vil fullyrða, að hv. 1. þm. Reykv. gengur ekkert annað til með því að gera laun þessa sérstaka manns að umtalsefni heldur en löngun hv. þm. til að ná sér niðri á útvarpsstjóranum.

Annars sagði hv. 1. þm. Reykv. annað í sinni ræðu, sem mér þótti ákaflega eftirtektarvert, og svo býst ég við, að fleirum þyki, þegar að því er gætt, úr hvaða átt það kemur. Hann sagði það sem sé, að nú upp á síðkastið hefðu laun opinberra starfsmanna og stjórna ríkisstofnana mjög svo lækkað. Það er að sjálfsögðu ákaflega gleðilegt fyrir núv. ríkisstj. að fá þessa yfirlýsingu frá einum af aðalmönnum stjórnarandstæðinga hér á Alþingi, að það hafi verið undið að því nú upp á síðkastið að lækka hin hærri laun starfsmanna hins opinbera. Það er náttúrlega æskilegt, að hv. þm. vildi gefa þessa yfirlýsingu víðar en innan veggja þingsins. En ef hann gerir það ekki, verða kannske einhver ráð með að sjá um, að þessi merkilega yfirlýsing hans komist til þjóðarinnar á annan hátt.

Það tekur því ekki í raun og veru að þrátta um það, hvort útvarpsstjóri hafi mikið eða lítið að gera. Það kemur fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að hann virðist alls ekki gera sér grein fyrir því yfirleitt, hvað forstjórar gera í stórum stofnunum. Ég skal fræða hann um það, að meðal þess, sem hvílir á forstjórum í hverri stofnun, er það náttúrlega að athuga þau miklu bréfaskipti, sem stofnunin jafnan hefir og verður að annast, og svo að veita þeim mörgu mönnum viðtal, sem koma á fund stofnunarinnar. Í ríkisútvarpinu er sá liður starfsins auðvitað alveg sérstaklega stór, eins og gefur að skilja. Ég vildi aðeins fræða hv. þm. um þetta tvennt, sem forstjórar stofnana hafa jafnan með höndum. (MJ: Ég hélt nú, að skrifstofustjóri gæti opnað bréfin! — Fjmrh.: Svarar þm. ekki bréfum? Opnar hann þau aðeins?).

Ég hygg það sé ekki margt fleira, sem ég sé ástæðu til að svara í ræðu þessa hv. þm. Ég vil svo að lokum mega vænta þess, að þrátt fyrir það, sem hv. þm. V.-Sk. hefir nú gefið í skyn í sinni ræðu um það, að þessi till. sé pólitísk, þá sé svo í raun og veru ekki. Og frá mínu sjónarmiði er hún það engan veginn. Ég vænti þess, að menn greiði atkv. um till. og mína brtt., hver einstakur þm., algerlega frá því sjónarmiði eingöngu, að þingfréttir verði sem bezt valdar og fluttar og hlustendur, sem hafa áhuga fyrir þessu málefni, hafi þessa sem fullkomnust not.