22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

130. mál, símaleynd

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki halda langa ræðu. En það fyrsta, sem mér flaug í hug, eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. forsrh., var það, að mér virtist svo sem það ákvæði í stjskr., sem á að tryggja friðhelgi heimilanna, sé orðið nafnið tómt, ef sá skilningur, sem hann leggur í það atriði, sem snertir þetta mál, er réttur. Heimilin eru friðhelguð, og sá þáttur í heimilislífinu, sem er fólginn í því að geta notað talsímann til þess að setja sig í samband við aðra, hvort sem eru nú innan eða utan bæjar, á þar af leiðandi samkv. stjskr. að vera friðhelgur. Þegar l. frá 1905 um ritsíma og talsíma voru sett, þá voru í 15. gr. sett ströng ákvæði til að tryggja það, að heimilisfriðurinn í sambandi við símann væri ekki rofinn. Þau eru svo ströng, að það má víkja mönnum úr stöðum, ef þeir brjóta af sér í því efni. Hæstv. ráðh. vill vitaskuld halda því fram, að frá þessu séu undantekningar, og hann kom fram með þá undantekningarreglu, að það væri heimilt að rjúfa heimilisfriðinn, ef fyrir lægi rökstuddur grunur um lögbrot og kveðinn væri upp úrskurður um það. Ef þessi ummæli hæstv. ráðh. væru rétt, þá féllu einkennilega orð í fyrstu ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann var að verja þann úrskurð, sem lögreglustjóri hefir kveðið upp, og framferði hans, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið, að það hefði ekki aðeins legið fyrir rökstuddur grunur, heldur fullgildar sannanir um sölu bifreiðastjóra á áfengi. Ef legið hafa fyrir lögreglustjóra sannanir um brot þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, þá vil ég spyrja: Hvers vegna fór hann þessa leið? Ef lögreglustjóri hafði fullgildar sannanir, þá átti það að vera nóg, og þurfti þar engu við að bæta. Ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að þessi leið sé heimil, þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um afbrot, þá er það sú minnsta krafa, sem hægt er að gera, áður en þessi leið er farin, að það liggi fyrir rökstuddur grunur um afbrot. Út af þessu máli er það þegar upplýst, að ekki hefir legið fyrir neinn rökstuddur grunur um afbrot, þegar kveðinn var upp úrskurður um að hlusta í símann. Það hefir verið skýrt frá því, að um tvær bifreiðastöðvar væri ekkert upplýst um það, að til þeirra hefði verið hringt og beðið um áfengi, og vil ég þá spyrja hæstv. ráðh. um það, hvaða rökstuddur grunur hafi legið fyrir, sem réttlætti það, að hlustað var á þessar stöðvar, þar sem vitað er, að þær ráku ekki ólöglega sölu og hafa ekki haft slíkt í frammi. Hvaða rökstuddur grunur lá þar fyrir? Ef hæstv. ráðh. slær því föstu, að sú minnsta krafa, sem hægt sé að gera, áður en dómara er heimilt að kveða upp slíkan úrskurð, sé sú, að fyrir liggi rökstuddur grunur um, að framið hafi verið afbrot, þá. hlýtur hann líka að verða að slá því föstu, að sá dómari, sem kveður upp úrskurð án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur, hafi farið út fyrir valdsvið sitt. En hæstv. ráðh. sagði meira. Hann fagnaði því, að gripið var fram í fyrir honum og spurt, hve stórfelld brotin þyrftu að vera til þess að heimilt væri að kveða upp slíkan úrskurð, og hæstv. ráðh. var fljótur til svars. Hann sagði, að þetta væri heimilt, þegar um væri að ræða brot á stjskr. eða brot, sem vörðuðu meira en sektum eða einföldu fangelsi. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvar þetta sé að finna í l. Þetta er hvergi nokkursstaðar að finna. það er ekki frekar heimilt, þó að það varði þessum refsingum, heldur en öðrum, því það eru engin takmörk sett fyrir þessu. En hæstv. ráðh. blandar þessu saman við það, að það megi setja menn í gæzluvarðhald undir vissum kringumstæðum. Hæstv. ráðh. virðist vitna í löggjöf til stuðnings þessu, en sú löggjöf er ekki til. Það er vitanlegi, að þar sem í stjskr. eru mjög sterk ákvæði um, að heimilin séu friðhelg, þá þarf að liggja fyrir rökstuddur grunur um meira en lítið afbrot til þess að gera þessi ákvæði stjskr. að engu. Og eins og landssímastjóri tekur fram, þá er þetta ekki hægt, nema þegar um einhver stórmál er að ræða, svo sem landráðamál eða önnur stórkostleg glæpamál, sem stofna þjóðinni allri í voða. Vill hæstv. ráðh. halda því fram, að þetta brot, sem hér um ræðir, komi undir þessa grein? Vill hæstv. ráðh. halda því fram, að það geti talizt þjóðhættulegt, þó bifreiðarstjórar selji vín eftir kl. 7 á kvöldin, sama áfengið, sem áfengisverzlun ríkisins selur? Með þessu er ég á engan hátt að mæla með slíkri ólöglegri sölu. Ég vil taka það fram, að enginn maður hefir í alvöru haldið því fram, að þetta brot sé svo stórfellt, að það réttlæti þessa aðferð. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta mætti, ef brotin vörðuðu meira en sektum eða einföldu fangelsi. Hvaða lög brjóta þessir menn? Þeir brjóta áfengislögin, en brot á þeim varða ekki þyngri refsingum en sektum eða einföldu fangelsi fyrir að selja áfengi. Jafnvel þó að það væri rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að brot, sem vörðuðu þyngri refsingu, réttlættu þessa aðferð, þá er það óréttlætanlegt að kveða upp slíkan úrskurð þegar um brot er að ræða, sem varðar ekki þyngri refsingu en þetta.

Það er líka eitt atriði, sem þarna kemur til greina. Það má gera ráð fyrir því, að tilgangurinn með slíkum njósnum sé sá, að veita lögreglunni einhverja hjálp í því að afla sannana fyrir ólöglegri sölu — ekki sá, að afla rökstudds grunar, því hann á auðvitað að liggja fyrir — heldur að afla sannana fyrir því, að ólögleg sala hafi farið fram. Vill hæstv. ráðh. halda því fram, að þó að lögreglan hlusti á mann hringja og biðja um áfengi og bifreiðarstjóri komi í símann og lofi að flytja áfengið heim til hans, að þá hafi lögreglan þar með sannanir fyrir því, að bifreiðarstjórinn hafi selt áfengið? Það eru engir dómstólar, sem álíta, að þessi atriði veiti þeim rétt til þess að sekta manninn, því til þess þarf játningu bifreiðarstjórans sjálfs. Þetta atriði út af fyrir sig, að láta lögregluna hlusta á slíkt samtal, er engin sönnun, heldur aðeins rökstuddur grunur um, að sala hafi farið fram. En sannanir eru ekki fyrir hendi frekar en áður. Og frá mínu sjónarmiði er þetta einkennileg aðferð, og hún mundi ekki veita mér, ef ég væri dómari, neitt annað en rökstuddan grun um það, að sala hefði farið fram, en engar sannanir. Það er ekki hægt að dæma manninn, nema það liggi fyrir játning hans sjálfs. — Það var spaugilegt hjá hæstv. ráðh., þegar hann vildi stimpla þá, sem fordæma þessa aðferð, sem verjendur glæpamannanna. Það er kunnugt, að það hefir enginn gert. Það vita allir, að sala á sér stað hjá bifreiðastöðvunum. Það er ekki annað en aðferðin í þessu máli, sem við erum á móti.

Hæstv. atvmrh. tók ómakið af hv. þm. G.-R. og sýndi fram á, að landssímastjórinn hefði getað áfrýjað úrskurðinum, en þá hefði hann jafnframt verið þýðingarlaus, því að þegar það hefði verið gert, þá leiddi af því, að það þýddi ekki lengur að hlusta í símann. Dómsmrh. gat ekki skilið þetta, en atvmrh. skildi það.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðh. nokkurra spurninga. Það er nú játað af hæstv. atvmrh., að það hafi verið opnuð símanúmer í sambandi við bifreiðarstjóraverkfallið. Um hvað lá þá fyrir rökstuddur grunur, eða hvað höfðu bifreiðarstjórarnir gert af sér, sem réttlætti það, að opnaður var sími hjá þeim? Og hvað höfðu þeir, sem ekkert kom þetta mál við, gert af sér, sem réttlætti það, að hlustað væri í númer þeirra? Hvaða númer voru það, sem hlustað var í? Ég vildi gjarnan fá að vita, hvort hlustað hefir verið í mitt númer, og ég vildi líka gjarnan fá að vita, hvort kveðinn hefir verið upp úrskurður um það.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil að lokum endurtaka það, að það er í raun og veru búið að ofurselja borgarana sporhundum stj., ef heimilt er í l. að kveða upp slíka úrskurði um að hlusta í númer manna, sem ekkert hafa af sér gert.