22.04.1936
Neðri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3128)

130. mál, símaleynd

*Pétur Halldórsson:

Það er aðferð til þess að reyna að komast undan réttmætum aðfinnslum, sem hér á að nota. Ég verð að segja það, að það var eitt atriði, sem hæstv. forsrh. varð að neyðast til að játa, sem mér fannst miklu merkilegra heldur en það, sem tilefnið gaf til umr. um þetta mál. En það, sem tilefnið gaf til þessara umr., var það, að lögreglustjóri gaf út úrskurð um hlustun vegna áfengissölu. Ég fór aldrei svo langt, að ég neitaði því, að það gæti verið réttmætt, að lögreglustjórinn gripi til þessara örþrifaráða. En fyrir mér er það samt aðalatriðið að fá þá yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, sem hann gaf, að hann sjálfur hefði gefið fyrirmæli um það án úrskurðar, að hlustað skyldi í símann. (Forsrh.: Þetta er algerlega misskilningur). Hann kvaðst aðeins einusinni hafa gefið fyrirmæli um, að helgi þessarar stöfnunar væri rofin. En það eina skipti er alveg nægilegt til þess að sýna, hvaða álit ráðh. hefir á þessum málum. Og þegar það svo bætist við, að sterkur grunur liggur á því, að þetta hafi verið oftar gert, ekki bara þegar um einhver atriði var að ræða, sem almenning varðaði, heldur hafi verið hlustað á einkasamtöl manna, sem gátu ekki á nokkurn hátt komið nokkrum við nema af forvitni. Þegar svo er komið, fer málið að líta öðruvísi út. Ég spurðist fyrir um það meðan hæstv. atvmrh. var að tala, hvort grunur hefði legið fyrir um eitthvert glæpsamlegt athæfi, þegar hlustað var á samtal, sem fram fór milli Morgunblaðsskrifstofunnar og borgarstjóraskrifstofunnar. (Atvmrh.: Mér er ekki kunnugt um, hvaða númer voru hlustuð). Ég held því fram, að miklu meira liggi á bak við þetta heldur en ráðh. vill vera láta. Grunur minn er líka grunur bæjarbúa yfirleitt, að síminn hafi verið notaður til þess að njósna í pólitískum tilgangi hér innan bæjar. Þegar ráðh. spyr, hvort meiningin sé að vernda glæpamenn fyrir lögreglunni með því að hafa á móti því að hlera, þá verð ég að segja, að þetta er svar út í hött. Ég krefst þess, að síminn sé stofnun, sem sé lokuð fyrir þeim, sem hafa tilhneigingu til að hlera um einkamál manna.

Það er ekki heldur von, að gætt sé góðrar reglu í þessu efni, ef það virkilega er svo, að landssímastjóri þarf að skrifa lögreglustjóranum bréf eins og það, sem hæstv. ráðh. las hér upp áðan, þar sem landssímastjóri er að fara bónarveg, er að fara þess á leit við lögreglustjórann, að hann fari varlega í að rjúfa helgi símans. Nú er landssímastjóri enginn lögfræðingur, sem getur sagt fyrir um þetta, en hann þarf að beiðast þess, að þetta fyrirtæki verði ekki með ofbeldi lagt í rústir. Ég hefi ekki heyrt annað eins „dokument“ og þetta bréf frá landssímastjóranum til lögreglustjóra, sem hæstv. ráðh. las hér upp, þar sem sá, sem ekki er lögfræðingur, er að reyna að koma lögreglustjóranum í skilning um, hvernig eigi að hagnýta símann.

Mig undrar stórlega að heyra þessi skriftamál embættismannanna. En þetta bréf gefur til kynna, að landssímastjóra er ljóst, að hér er hætta á ferðum. Ég hefði nú viljað fá þetta bréf lánað til að lesa það yfir aftur, en það er talsvert merkilegt, þegar það er athugað, að þar er verið að benda lögreglustjóranum á, hvenær helzt muni vera ástæða til að nota símann í þágu lögreglunnar á þennan hátt. Hvernig stendur á, að hann þarf bendingar um þetta atriði? Svo er þetta lesið hér á Alþingi eins og einhver úrskurður frá landssímastjóra. Þau ganga algerlega yfir minn skilning, þessi embættisverk, sem hér er um að ræða.

Ég get ekki annað en hneykslazt á hæstv. forsrh., þegar hann segir það sem einhverja niðurstöðu af umr., að það sé mikilsvert, að það hafi unnizt á í þessum umr., að viðurkenndur hafi verið réttur lögreglunnar til að úrskurða um, að hlusta skuli í símann. Þetta er vægast sagt rangur málflutningur. Ef rifja þarf upp tilganginn með þessum umr. fyrir hæstv. ráðh., þá get ég gjarnan gert það. Ég spurði að því hér í gær, með hvaða rétti hlustað hefði verið, hvernig sá réttur væri, sem heimilaði lögreglunni að hlusta hér í bæjarsímann; og dettur mér sízt í hug í þessu sambandi, að hlífa skuli óleyfilegum áfengissölum. Þessari meinlausu fyrirspurn var fullsvarað með því svari, sem hæstv. ráðh. gaf — að vísu með talsverðum þjósti —, að úrskurður lögreglustjóra gæfi þennan rétt. En á bak við lá meira, sem ég ætlaðist til, að kæmi fram, því það er grunur minn, og sterkur grunur margra borgara leikur á því, að síminn hafi verið misnotaður í allan vetur með hlustun í pólitískum tilgangi. Það hefir líka verið upplýst af hæstv. ráðh., að sú hula, sem á að vera yfir símanum, hefir verið rofin einu sinni eftir hans fyrirskipun, en ekki með úrskurði lögreglustjóra, — en aðeins einu sinni, segir hæstv. ráðh. Að þessu leyti er ekki um það eitt að ræða, að úrskurður hafi verið gerður og framkvæmdur, heldur þarf að koma fram yfirlýsing ráðh., sem trúað verður af símanotendum, til þess að koma af þeim sterka grun, sem ég veit, að er til staðar. Það er brýn nauðsyn, að símanotendur verði sannfærðir um, að þeir megi vera óhultir vegna afskipta ríkisvaldsins um friðhelgi símans.

Hæstv. atvmrh. spurði að því áðan, hvort þessi hlustun hefði haft nokkur áhrif til ills fyrir símanotendur, þar sem aðeins hefði verið hlustað á nokkur símanúmer. Ég er ekki viss um það, og fullyrði það ekki, en grunur minn er sá, að ég hafi orðið var við það í mínu starfi, og það kalla ég að verða fyrir illu, ef maður er lagður í einelti, ef svo mætti að orði kveða. Það, sem ég vildi leggja aðaláherzluna á, er, að öryggi símanotenda sé tryggt með yfirlýsingu, svo ekki verði á móti mælt og menn geti treyst því, að fylgt sé þeim reglum, sem eðlilegt er og sanngjarnt, að eftir sé farið.

Þá kemur að því að ákveða eða gera grein fyrir, ef þær reglur eru til, hverjar þær eru og hvernig. Ég neita því ekki, að það geti verið rétt að rjúfa þá leynd, sem yfir símanum á að hvíla, ef stórglæpamál er á ferðinni, sem getur verið þjóðhættulegt, en almennt munu menn álíta, að það hafi ekki verið nú.

Ég vil beina þeirri áskorun til hæstv. ríkisstj., að hún láti áfrýja úrskurði þessum til hæstaréttar, jafnvel þó að búið sé að framkvæma úrskurðinn, svo að það fáist úr því skorið, að hve miklu leyti bann er byggður á landslögum, því þetta er ekki viðunandi ástand, að menn vita, að fram fer það, sem kallað er misbrúkun, en vita ekki, hvernig eða hvenær. Um þetta þarf vissulega að gera reglur, ef þær eru ekki þegar til. — Það mega hæstv. ráðh. vita, að út af þessari hlustun, sem gerð hefir verið, er ákaflega mikið umtal og órói, og því verður ekki úr bætt, nema símanotendum verði tryggt fullkomið öryggi. — Ég get ekki neitað því, að það hafði nokkur áhrif á mig, og mér fannst það óviðeigandi, tilefnislaust og óþolandi, þegar komið var inn á línu, meðan ég átti tal við mann, sem var staddur í skrifstofu Morgunblaðsins. Svona hneykslum þykir mér viðeigandi, að gerð sé grein fyrir, svo að allt komi í ljós.