18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

89. mál, eftirlit með skipum

Bjarni Ásgeirsson:

Ég þarf ekki að bæta miklu við það, sem hv. frsm. n. hefir sagt. Ég vil mæla með því, að þessi till. verði samþ. — Annars vil ég segja það, að mér finnst einkennilegt að telja þann hluta af leiðinni upp í Borgarnes innfjarðasiglingu, sem helzt mætti segja að væri um rúmsjó. Þetta finnst mér óeðlilegt, og ég býst við, að þegar þessi tilskipun var gerð, þá hafi þetta ruglazt hjá þeim, sem settu þetta ákvæði inn í lögin.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. sagði, að ekki væri rétt að neita yfirmönnum á Laxfossi um launauppbót, vegna þess hvað þeir hefðu mikið að gera, vil ég taka það fram, að það er að vísu rétt, að þeir hafa mikið að gera vissan tíma ársins, en svo er mjög lítið að gera aðra tíma, og get ég vel trúað, að það geti komið til mála, að nauðsynlegt þyki að bæta við mönnum þann tíma, sem mest er að gera. En ef eitthvað er athugavert við launakjör manna eða störf á þessu skipi, þá álít ég, að það eigi að taka til meðferðar á öðrum vettvangi.

Þá vil ég mótmæla því, sem hv. þm. gaf í skyn, að þetta nýja skip væri léleg fleyta og að ekki væri vert að veita henni of mikil hlunnindi. Ég veit ekki betur en að það sé samdóma álit þeirra, sem með skipinu hafa ferðazt, að það sé mjög gott sjóskip og gott með því að ferðast. Ég hefi farið mikið með því, og líkar mér ágætlega að ferðast með því, samanborið við aðrar fleytur, sem sigli hafa þessa leið. Sama hefi ég heyrt skipshöfnina segja. En ef skipið væri illa hæft til þessara ferða, þá á að taka það mál upp á öðrum vettvangi, svo að það kemur ekki þessu máli við út af fyrir sig, þó að þessar aðdróttanir væru á rökum reistar.

Það má nú ef til vill segja, að það sé hættumeira að sigla til Borgarness en upp á Akranes, en hinsvegar þarf líka að gæta sín betur, þegar land er nærri, en úti á opnu hafi.