13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Garðar Þorsteinsson:

Áður en ég fer inn á einstakar brtt., sem fram hafa komið við þetta frv., vil ég með örfáum orðum víkja að því atriði, sem hv. 1. þm. Árn. fór inn á við umr. þessa máls í gær. Hann furðaði sig á því, að ég hafði talið, að annar tilgangur lægi á bak við flutning þessa máls heldur en sá eini að fá einhverjar bætur á löggjöfinni, sem um þetta mál fjallar. Og hann sagðist ekki skilja, hvað ég meinti og hversvegna ég viðhefði slík ummæli. Við fyrri umr. þessa máls skýrði ég nokkuð nánar frá því, hvað ég hafði þar til míns máls, og þessi hv. þm. hefir ekki með einu orði hrakið það, sem ég þá sagði um þetta atriði. Um hitt skal ég vera honum sammála, að það er atriði, sem kannske skiptir litlu um afgreiðslu málsins hér á Alþingi, en hlýtur þó hinsvegar út á við að hafa nokkur áhrif, hvort það sé vitað, að hér sé um verulegar réttarbætur að ræða, eða hvort hér er fram komið frv. til þess að vera í samræmi við þær margendurteknu yfirlýsingar, sem stjórnarblöðin hafa gefið í sambandi við afgreiðslu mála hér á Alþingi. Þessi hv. þm., og heldur ekki hv. 1. landsk., hefir ekki með einu orði andmælt því, að starfslengd þingsins miðaðist við afgreiðslu fjárl., enda er það vitanlegt, að svo er. Og hefir hv. 3. þm. Reykv. með tölum sýnt fram á, að það er síður en svo, að umr. hafi verið dregnar meir úr hófi fram á síðustu þingum af andstæðingum stj. heldur en áður. Að hv. 1. þm. Árn. skilji ekki hvað ég meina með því, að annar tilgangur liggi á bak við flutning þessa máls heldur en aðeins sá að bæta lagabókstafinn, það fæ ég ekki skilið, að geti verið af hreinskilni sagt, þar sem hann veit, að þessar blaðagreinar hafa komið með fyrirheit um það frá stjórnarflokkunum, að það skyldi verða borið fram frv. til þess að takmarka hinar löngu og mörgu ræður, sem fluttar væru hér á Alþingi. Að vísu skal ég viðurkenna, að þetta frv. felur í sér nokkrar umbætur á afgreiðslu mála hér á Alþingi, en hinn raunverulegi tilgangur þess er eigi að síður sá, sem ég hefi nú talað um.

Að því, er það snertir, hvort í 10. og 20. gr. frv. komu fram atriði, sem væru brot á 40. og 48. gr. stjskr., þá hafa þessir 2 þm., hv. 1. þm. Árn. og hv. 1. landsk. alltaf viljað halda því fram, að þetta væri ekki stjórnarskrárbrot, og það væri augljóst af því, að þetta hefði alltaf frá 1874 verið skilið á þann veg, að það væri heimilt að telja þá menn, sem ekki greiddu atkv. með meiri hl. Vildi hv. 1. þm. Árn. í gær telja, að það, að ekki væri fullt samræmi að orðum til í 40. og 48. gr. stjskr., stafaði af því, að þýðandinn hefði ekki í síðari tilfellinu munað, hvernig hann þýddi samskonar atriði í fyrri gr. Og af ræðu þessa hv. þm. hefði mátt skilja, að þetta hefði verið einróma álit allra þeirra manna, sem stóðu að þessari lagasetningu 1874 og 1875, og sagði hann því til staðfestu, að það hefðu verið svo að segja sömu mennirnir á þingi 1874 og 1875. — Nú vil ég taka hér fram nokkur atriði, sem sýna, að þessi hv. þm. fór ekki með allskostar rétt mál. Á Alþingi 1875, þegar þingsköpin voru lögð fyrir, var 36. gr. þingskapanna á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Hvorug þingd. má gera ályktun um neitt, nema að minnsta kosti tveir þriðjungar þm. séu á fundi og greiði þar atkv.“ — Í þessari gr., og heldur ekki í öðrum gr. þingskapanna, er ekki minnzt á það einu orði, að hægt sé að telja atkv. þeirra þm., sem sitja hjá við atkvgr., með meiri hl. M. ö. o., að þeir, sem stóðu að undirbúningi og flutningi þessa máls í upphafi, töldu eðlilegt og sjálfsagt, að þetta ákvæði væri haft þannig. Þegar þetta mál svo kemur til n., afgreiðir hún það með ýmsum breyt., og að því, er snertir þessa gr., þá setur hún inn ákvæði á þá leið, að ef þm. greiðir ekki atkv., þá skuli hann leiða rök að því, hversvegna hann ekki geri það, og skuli forseti bera það undir þd., hvort ástæðan sé gild, og ef þd. ógildir ástæðuna, þá skuli þm. teljast að hafa greitt atkv. með meiri hl. Um ástæðuna fyrir þessari breytingu segir n. svo: „N. virðist nauðsynlegt, að í svo fámennu þingi sem hér væri hverjum þm. gert að skyldu yfirhöfuð að greiða atkv. í hverju máli, nema hann færi gildar ástæður fyrir neitun sinni.“ Þegar þetta kom svo til umr. innan þingsins, þá kom fram í Ed. brtt. frá 5 þm. um það að nema burtu þessa brtt. n. við þingskapafrv. og taka upp gr. eins og hún var í stjfrv. Um þetta segir t. d. Benedikt Kristjánsson, að hann skilji ekki, hvernig menn ætluðu að hafa not af þessari ákvörðun, nema ofan í skýlaus orð stjskr., þar sem sagt væri, að tveir þriðjungar þm. þyrftu að vera á fundi til þess, að gild ályktun yrði gerð í einhverju máli. En það væri sitt hvað, að greiða atkv., og hitt, að manni væri gert atkv. — Og Jón Pétursson segir, að fyrir sitt leyti geti hann ómögulega betur séð en að breytingaruppástunga þessi komi beinlínis í bága við stjskr., sem gengi út frá því, að þm. þyrftu ekki að greiða atkv. sitt, ef þeim þætti það við eiga. — Við atkvgr. fór þannig, að brtt. var felld með 6:5 atkv. Það má því segja, að í Ed. 1875 hafi nær helmingur þm. álitið, að einmitt það sama ákvæði, sem nú á að lögfesta, hafi brotið í bága við stjskr. — Samskonar till. er svo síðar tekin upp í n., og þá koma fram sömu rökin gegn henni, sem sé, að hún brjóti í bága við stjskr. Og segir þá Benedikt Sveinsson t. d., að hann vonaðist eftir því, að þm. hugsuðu sig vel um, áður en þeir greiddu atkv. með þessu, og ef vafi væri á hvort það kæmi í bága við stjskr. eða eigi, þá væri það eigi samboðið sóma þingsins, að gefa því þegar atkv., því nógur tími væri til þess að koma breyt. fram. —

Nú skilst mér á þessum 2 hv. þm., sem standa að flutningi þessa frv., sem það hafi verið einróma skilningur þeirra þm., sem stóðu að þessari lagasetningu 1874 og 1875, að þetta hafi verið í fullu samræmi við stjskr., og hv. 1. þm. Árn. sagði því til staðfestingar, að á þingi 1875 hefðu setið svo að segja sömu þm. og 1874. En það er bara þess að gæta, að sá hinn rétti aðili, sem flutti frv. 1874, hefir vel athugað þetta, og þess vegna setti hann ákvæði, sem er í fullu samræmi við þingsköpin eins og þau eru nú og í samræmi við stjskr.

Í síðasta lagi er það af n. fært sem rök fyrir þessu, að þingið sé oft fámennt, og þetta sé ákvæði, sem knýi menn til þess að greiða atkv. með eða móti.

Ég læt þetta nægja til þess að sýna fram á, að það er síður en svo, að frá upphafi þessarar lagasetningar hafi menn verið sammála um, að ákvæði slíkt sem þetta bryti ekki á bága við stjskr. Það kemur þvert á móti ljóslega fram, að menn álíta það. Þó að þessu hafi síðar ekki verið breytt, þá getur það stafað af ýmsu. Það getur stafað af því, að það hafi fyrnzt og menn ekki athugað það lengur, eða þá að menn hafi ekki haft neina sérstaka löngun til þess að breyta ákvæðinu af öðrum ástæðum, ef til vill pólitískum. En á þinginu 1915 er þessu síðan breytt, og er þar í nál. þingskapan. á þinginu 1915 tekið fram af þeim, sem að því nál. stóðu — en þeirra á meðal voru Hannes Hafstein og Jón Magnússon — að það sé rétt að krefjast þess, að ekki sé gerð nein ályktun nema meiri hluti þm. greiði henni atkv. Þá er þessu ákvæði kippt burtu úr þingsköpunum og sett það ákvæði, sem gildir enn þann dag í dag. Það kemur ekki fram í umr. á Alþingi 1915, hvort þeir, sem stóðu að þessari breytingu, hafi gert það beinlínis vegna þess, að þeir álitu, að ákvæðið væri stjórnarskrárbrot. En það er líklegt, að það hafi verið svo. Og það er, eins og Benedikt Sveinsson sagði 1875, mjög varhugavert, ef meiri hl. þm. notar ákvæðið til þess að knýja fram samþykkt á ákvæði, sem er vafi um, hvort brýtur ekki í bága við stjskr., svo að ég segi ekki meira. Og það er dálítið undarlegt, eftir að búið er að upplýsa, að frá upphafi hafi leikið vafi á því, hvort það væri ekki stjskr.brot, og búið að leiðrétta það í þingsköpunum 1915, ef nú á að fara að setja ákvæði, sem að mínu áliti brýtur tvímælalaust í bága við stjskr.

Hv. 1. þm. Árn. sagðist álíta, að þetta mismunandi orðalag 40. og 48. gr. stjskr. væri vegna ónákvæmrar þýðingar, og að þýðandinn hafi ekki haft hið fyrra orðalag í huga, þegar hann þýddi hina síðari gr. Ég tel þetta mjög vafasamt og hæpið að vilja halda slíku fram, því að það nær engri átt, ef beinlínis er verið að þýða samskonar ákvæði, að þýðandi hafi 8 gr. síður ekki munað, hvernig hann þýddi hið fyrra ákvæðið eða gætt að því, hvernig hann þýddi það. Og því óskiljanlegra er það, að þetta hafi ekki verið sett af ásettu ráði, þegar þess er gætt, að það var ekki aðeins undir þýðandanum komið, heldur líka því, hvernig löggjafinn gekk frá því við 3. umr. Það hlýtur að hafa verið þm. algerlega ljóst, að 40. og 48. gr. höfðu mismunandi orðalag að því, er þetta snertir, þar sem annarsvegar er talað um að „eiga þátt í atkvgr.“, en hinsvegar „að greiða atkv.“ Nú skal ég ekki um það deila við hv. 1. þm. Árn., hvort ekki kunni svo að vera, að sama merking sé í þessu tvennu, en ef svo er, þá verður að leggja þá merkingu í orðin, sem gengur lengra og er í fullu samræmi við allar skýringar á lögum.

Ég benti á það við 1. umr., að það er alls ekki sjálfsagt að þetta tvennskonar orðalag í þessum 2 gr. þýði það sama, því að í 40. gr. er búið að fullnægja öðru ákvæðinu til öryggis því, að mál gangi ekki fram of fljótt, með því að krefjast, að í Sþ. greiði meira en helmingur beggja d. atkv. Og það er tvímælalaust, að í 48. gr. getur orðalagið „að greiða atkv.“ aldrei þýtt annað en að segja já eða nei, því að hitt hefði brotið í bága við heilbrigða skynsemi og íslenzkt mál, enda sagði hv. 1. þm. Árn., að hann hefði kosið annað orðalag, og ég skil það vel. Ef hann vill halda því fram, að þetta sé ekki stjskr.brot, og að mismunandi orðalag sé samskonar orðalag, þá skil ég, að hann hefði kosið annað orðalag, en löggjafinn hefir ekki vitað um þessa síðar fram komnu ósk þm. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að menn hefðu í seinni tíð komið sér undan því að greiða atkv. En það er engin nýlunda á þingi, að menn hafi komið sér undan því. Það hefir löngum gengið svo til á Alþingi, og eflaust mikið lengur en þann tíma, sem hv. 1. þm. Árn. hefir setið á þingi, og hefir hann þó setið lengi á þingi. Þetta er t. d. augljóst af nál. 1875 og umr. þá á þingi, sem gengu í þá átt, að menn hefðu komið sér undan því að greiða atkv. Þetta er atriði, sem kemur fyrir á hverju einasta þingi. Þm. hlýtur að vera það frjálst að greiða ekki atkv., þó með þeirri takmörkun, að þeir verða að greina ástæður fyrir því. En ef þeir gefa ekki upp ástæður, þá gæti það valdið því, að þeir yrðu fyrir vítum, eða misstu þingkaup sitt o. s. frv. En þetta getur aldrei náð þeim tilgangi að forða því, að þeir sem á annað borð vilja aftra framgangi máls með þessum hætti, geti það ekki nákvæmlega eins eftir sem áður. Það er þess vegna að mínu áliti ákaflega röng leið, sem farið er inn á með því að setja ákvæði, sem brýtur jafnvel í bága við stjskr., til þess að ná þessum árangri, sem þó ekki næst vegna þess, að það er önnur leið opin fyrir þá þm. sem ekki vilja greiða atkv., en það er að fara út úr deildinni.

Hv. meiri hl. allshn. hefir borið fram brtt. á þskj. 143 við ákvæðið um, að það megi telja þá þm. með, sem ekki greiða atkv., þess efnis, að það gildi aðeins, þegar nafnakall er viðhaft. Ég sé, að þeir eru heldur að draga niður seglin að þessu leyti og það gleður mig. Ég er því samþykkur, að þetta ákvæði sé sett, og mun því greiða atkv. með brtt., en hinsvegar gat ég ekki, eins og hv. 1. landsk. tók fram, verið með í því að flytja brtt. við gr., sem ég tel, að þrátt fyrir brtt., brjóti í bága við stjskr. En þessi breyt., sem fyrirhuguð er á þessari gr., gengur ekki lengra heldur en til jafns við það ákvæði, sem áður var. Það hefir í fyrri þingsköpunum ekki verið venja að telja þá þm. með við atkvgr., sem ekki hafa greitt atkv., ef ekki hefir verið nafnakall. Svo að þetta er í samræmi við það, sem áður var.

Það hefir verið rætt nokkuð um það í allshn., og einnig hér á þinginu, hvernig aðstaða þeirra, sem eru utanflokka, eigi að vera við útvarpsumræður. Í reglum, sem eru fyrir útvarpsumræðum og eru settar af forsetum Alþingis með samkomulagi við flokkana, hefir þetta verið svo, að forseti Sþ. eða d., eftir því, hvort hefir verið útvarpað frá Sþ. eða d., hefir leyfi til þess að heimila utanflokkamanni að tala í útvarp, og reyndin hefir verið sú, að utanflokkamenn hafa fengið tækifæri til þess. Ég veit, að hv. þm. V.-Ísf. hefir talað í útvarp, ekki fyrir flokk, heldur sem utanflokkaþm., að minnsta kosti tvisvar sinnum. Nú hefði ég vel getað unað því, að þetta ákvæði stæði áfram, ekki í reglum fyrir útvarpi, heldur að það kæmist inn í lögin og þingsköpin, að forsetar heimiluðu utanflokkaþm. einhvern nánar tiltekinn ræðutíma, sem vitanlega væri ákveðinn í samráði við hina ýmsu flokka, sem að umr. stæðu. Ég hafði ekki álitið fyrr en í gær og í dag, að það væri ágreiningur um þetta atriði. Og ágreiningurinn kemur fram við það, að hv. 2. landsk. kemur fram með þau tilmæli, að utanflokkaþm. sé veittur aukinn réttur til þátttöku í útvarpsumræðum, og stjórnarflokkarnir, að minnsta kosti hv. 1. landsk. og hv. 1. þm. Árn., hafa lýst því yfir báðir, að þeir vildu styðja þessi tilmæli 2. landsk., og hv. 1. landsk. hefir borið fram brtt. þar að lútandi og hv. 1. þm. Árn. tjáð sig fylgjandi þeirri brtt. Ég er á móti þessari brtt. Ég fæ ekki séð neina ástæðu til þess, þar sem það verður lögbundið, að umr. við útvarp megi ekki fara fram úr ákveðnum tíma, og þar sem sá tími, sem upphaflega var settur inn í reglurnar, hefir ekki verið lengdur, þá hlýtur þessi brtt. eða sá tími, sem utanflokkaþm. fá samkv. henni, að minnka þann tíma, sem þingflokkarnir annars ættu að hafa. Nú er það eflaust svo, að það má færa nokkur rök fyrir því, að utanflokkaþm. eigi sanngirniskröfu til þess að fá að taka til máls og ræða um afstöðu sína til einstakra mála innan Alþingis, og er ég út af fyrir sig sammála þeim ummælum, sem hv. þm. V.-Húnv. hafði áðan, að það gilti sérstaklega um þá þm., sem bjóða sig fram utan flokka, að þeir ættu rétt á að fá tækifæri til þess að taka þátt í útvarpsumræðum. En ég sé ekki, að það þurfi að samþykkja hið viðbætta ákvæði á þskj. 138 til þess að tryggja þessum utanflokkaþm. þennan rétt. Þeir hafa hann samkv. fyrri ákvæðum, og mundu hafa hann, þó frv. væri samþ. óbreytt. En hinsvegar verður að líta á það, að utanflokkamenn eru annaðhvort í stjórnarandstöðu eða með stj. Þeirra afstaða í útvarpsumræðum hlýtur í höfuðdráttum að vera sú sama eins og hún er innan þingsins að því, er snertir afstöðu þeirra til stj. Við útvarpsumræður hljóta þeir því að vera í stjórnarandstöðu eða með stj., en í báðum tilfellum finnst mér, að það raski því jafnvægi, sem annars er við útvarpsumræður milli hinna einstöku flokka. Það er líka eitt atriði í þessu, sem verður að taka til athugunar, og það er, hver eigi að úrskurða um það, hvort þm. er utan flokka eða ekki. Er nægilegt, að það komi fram yfirlýsing þm. sjálfs um það, að hann sé utan flokka, eða þarf hann að hafa lýst því áður yfir, eða er nóg að gera það, þegar útvarpsumræður fara fram? Eða á Alþingi að úrskurða um það, hvort einhver þm. við útvarpsumræður á að skoðast utan flokka. Eða eiga forsetar að ákveða það? Mér virðist, að þarna hljóti að koma fram ýms atriði, sem valda deilum og ágreiningi, þegar útsvarpsumr. eiga að fara fram. Þó þm., sem hefir boðið sig fram utan flokka, ætti því að öllu óbreyttu að eiga nokkra sanngirniskröfu til þess að fá að tala í útvarp, þá gæti svo farið, að aðstaða hans væri á þinginu, næst eftir að framboð fór fram, orðin svo breytt, að þó að hann að nafninu til væri utan flokka, þá væri hann þó í raun og veru flokksmaður. Það er sagt, að hv. þm. V.-Ísf. telji sig enn utan flokka, en sé þó í mjög nánu samstarfi við annan stjórnarflokkinn, nefnilega jafnaðarmenn. Mér er sagt, að hann sé í kosningabandalagi við þá og að hann sæki flokksfundi hjá þeim. Hann skrifaði líka undir samninginn, sem stjórnarflokkarnir gerðu með sér. Hver verður nú afstaða þessa hv. þm., þegar til útvarpsumræðna kemur? Á að skoða hann sem utanflokkamann, af því að hann bauð sig einu sinni fram sem slíkur, og vegna þess að hann hefir ekki gefið það beinlínis upp, að hann væri genginn í flokk? Á ekki afstaða hans að skoðast með tilliti til hins nána sambands við annan stjórnarflokkinn? Þegar til útvarpsumræðna kemur, þá fá jafnaðarmenn sinn ákveðna tíma, en auk þess óskar hv. þm. V.-Ísf. eftir að fá að tala líka. Hann fær eftir l. hálfan tíma á við flokk. Að sjálfsögðu tekur hann upp stefnu þess flokks, sem hann er í kosningabandalagi við og sækir flokksfundi hjá. Jafnaðarmenn myndu því fá hálfu lengri tíma við útvarpsumræður en aðrir þingflokkar. Það er að minnsta kosti ekki ósanngjarnt að setja einhverjar hömlur við því, að þetta eigi sér stað. Ég hefi þess vegna borið fram brtt. í þá átt, að utanflokkaþm. sé að sjálfsögðu heimilað að tala í útvarp, en að sá réttur þeirra takmarkist við það, að það sé einhver þingflokkur, sem veiti þeim hluta af sínum tíma til þess að tala í útvarp. Ég skal geta þess, að till. hefði mátt orðast betur. Orðið „þeim“ vísar til „þingflokka“, en ekki „þingmanna“. Ég vona, að þetta misskiljist ekki, enda er hægt að breyta því síðar. Það hlýtur alltaf að koma fram ágreiningur um það, hvernig eigi að skilja afstöðu slíkra manna. Þegar afstaða þeirra er orðin breytt gagnvart stj. og flokkunum frá því þeir buðu sig fram, þá verður að taka tillit til þess. Ég geri ráð fyrir, að þetta væri tekið þannig af andstöðuflokki, að ef sú aðferð yrði viðhöfð, sem hv. þm. V.-Húnv. drap á, þá ætti það sér stað, ef til vill, að einn eða fleiri þm. segðu sig úr flokki og segðust vera utan flokka og heimtuðu að fá að tala í útvarp. Ég fæ ekki séð, að það væri hægt að meina þessum mönnum það. Það væri reyndar neyðarúrræði, ef til þess kæmi, að gripið væri til slíkra ráða til þess að ná því jafnvægi, sem annars á að vera við útvarpsumr. Mér er það alveg ljóst, að það hlyti að vera ágreiningur t. d. um það, hver væri afstaða hv. þm. V.-Ísf. við útvarpsumræður. Er hann utanflokkaþm. eða svo nátengdur jafnaðarmönnum, að hann verði að skoðast sem hold af þeirra holdi.

Svo er annar utanflokkaþm., sem ætti þó að vera nefndur innan gæsalappa, og það er hv. 2. landsk. Hver er afstaða hans við útvarpsumræður? Á fundinum við Ölfusá, sem haldinn var fyrir alllöngum tíma, lýsti hann því yfir, og einnig hefir hann lýst því yfir hér í þinginu, að hann væri alls ekki genginn úr Bændafl. En í bréfi til stjórnar Bændafl. segir hann, að hann hafi slitið samvinnu við flokkinn. Hann upplýsti síðar, að hann hefði ekki sjálfur farið úr flokknum og að hann ætti orðið að kunna, hvernig menn eigi að fara að því að segja sig úr flokki. Hann sagði, að með orðalaginu, sem var á bréfinu, þá hefði hann aldrei sagt sig úr flokknum. Og hann endurtók það á þinginu, að hann væri hinn eini rétti og sanni bændaflokksmaður. Er hv. þm. í Bændafl. eða er hann utan flokka? Eða eru þeir hv. þm. V.-Húnv. og hv. 10. landsk. utan flokka? Annaðhvort hlýtur að vera, ef þeir eru ekki saman í flokki. (MT: Hv. þm. skilur víst ekki sjálfan sig). Ég fæ ekki séð, hvernig færi við útvarpsumræður, þegar þessi hv. þm. segist í öðru orðinu vera ákveðinn flokksmaður, en í hinu orðinu myndi hann óska þess að fá að tala sem utanflokkaþm. í útvarp. Og ef það er rétt, sem Bændafl. segir, að þessi hv. þm. sé flokkssvikari, þá fæ ég ekki séð, að Framsóknarfl. ætti, ef dæma má eftir fyrri afstöðu hans til slíkra manna, að vera það ljúft, að settur sé hár púði undir höfuð flokkssvikara. Ég sé ekki, að fyrri afstaða þeirra réttlæti það að veita hv. 2. landsk. sérstakt virðingarsæti við útvarpsumr. Ég get ekki séð, hvernig þeir geta réttlætt það að leyfa honum að tala sem utanflokkaþm., ef það er rétt, sem Bændafl. segir, að hann sé flokkssvikari. Hvernig sem þessu er varið, þá er það erfitt, að draga línu fyrir því, hver er utan flokka, og hver er það ekki. Og ég er viss um, að það koma fram mótmæli gegn því, að útvarpsumræður slíkra manna séu leyfðar. En hitt vil ég taka fram, að mér hefði fundizt aðstaða hv. þm. V.-Ísf., ef hann væri ekki svo tengdur jafnaðarmönnum, allt önnur en hv. 2. landsk., vegna þess að hann bauð sig fram sem utanflokkamaður. En hv. 2. landsk. komst aftur á móti að á atkv. Bændafl. Hans vera á þingi er því fyrir náð Bændafl., og til hvaða manna á hann svo að tala, þegar hann er genginn úr flokknum? Aðstaða hans á þingi er því mjög einkennileg. Mér virðist að það þyrftu að koma fram mjög ákveðnar línur fyrir því eða reglur um það, hvenær og undir hvaða kringumstæðum mætti skoða slíka menn sem hv. 2. landsk. og hv. þm. V.-Ísf. sem raunverulega utanflokkaþm., sem ættu að öðlast þann rétt, sem farið er fram á, að þeim sé veittur með brtt. hv. 1. landsk. (MT: Ég skal svara hv. þm. í útvarpið). Ég hugsa, að það fari ekki svo fyrir mér, að ég vinni til að svíkja minn flokk til þess að fá að tala í útvarpið.