13.03.1936
Efri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

71. mál, afmáning veðskuldbindinga úr veðmálabókum

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þetta frv. er flutt af því, að í ýmsum lögsagnarumdæmum hefir ekki verið notuð heimild frá 1933 til þess að afmá veðskuldbindingar úr veðmálabókum með einum dómi um öll mál. Frv. er flutt eftir ósk bæjarfógetans á Ísafirði og fleiri. Enn eru víða greiddar veðskuldir óútmáðar í veðmálabókum, en dýrt og óþægilegt að verða að fá dóm í hverju máli fyrir sig. Ég veit t. d. um bónda, sem stóð í veðmálabókum frá 1905 og 1907, og varð fyrir skömmu að fá dóma um afmáningu með miklum kostnaði (eitthvað á 2. hundrað kr.). Menn kinoka sér eðlilega við að fá dóm í hverju einstöku máli, þegar slíkt kostar þá svo mikið.

Frv. er í raun og veru aðeins árétting og endurtekning á eldri lögum.