07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1937

*Hannes Jónsson:

Háttv. þm. S.-Þ. hóf ræðu sína áðan, með því að minna áheyrendur á það, sem hann sagði fyrr í dag. Þessa var sízt vanþörf, því að annars hefði enginn munað það, því að það er nú einu sinni svo, að allt, sem þessi hv. þm. segir, er sama tóbakið, sami grautur í sömu skál, sem enginn man stundinni lengur. Hann bar af sér það, sem ég sagðist hafa fregnað, að ákveðið hefði verið á fundi stjórnarflokkanna að liggja á gengismálinu, þetta þing a. m. k. Það, sem ég hafði fyrir mér til þess að segja þetta, voru ummæli hæstv. fjmrh., þar sem hann sagði, að Bændafl. hefði borið málið fram til þess að geta verið þar á móti stjórninni. Þessi ummæli hæstv. ráðh. tel ég vera sönnun fyrir því, að Framsfl. ætlar gengismálinu ekki að ganga fram á þessu þingi. Hv. þm. S.-Þ. hefir gert hér að umtalsefni útlánin úr kreppulánasjóði. Vegna þeirra ummæla, sem hann hefir haft um þau, vil ég lesa upp nokkrar spurningar frá vel þekktum bónda, sem beint er til hans. Þær hljóða svo:

„1. Var það tilgangurinn með stofnun og starfrækslu kreppulánasjóðs, að nota hann eftir á eins og gapastokk á almannafæri, þar sem hver óvalinn dóni gæti gengið að viðskiptamönnum hans og skyrpt í andlit þeirra, ef honum byði svo við að horfa?

2. Er kreppulánasjóður eina lánsstofnunin í landinu, sem ekki veitir viðskiptamönnum sínum meiri vernd en það að hvaða stjórnmálasiðleysingi sem vera skal getur vaðið inn á einkamál þeirra og notað þau með meiri og minni rangfærslum og blekkingum til árása og svívirðinga á þá, ef þeir sitja eða standa öðruvísi en þessir herrar vilja vera láta?

3. Og er nú komið svo um álit manna á íslenzkri bændastétt, að jafnvel þeir, sem hafa gert atkvæðaveiðar meðal hennar að atvinnu sinni, telji sér áhættulaust að nota fjárhagsógæfu hennar sem refsivönd á hana. ef hún gerist svo djörf að lyfta höfðinu eins og aðrir venjulegir menn?

4. Eða eru þeir, sem fyrir þessum aðförum standa, svo blindir á báðum augum, að þeir ekki sjái það, sem hverjum meðalgreindum manni ætti að liggja í augum uppi, að fjárhagsógæfa bændanna er, undantekningarlítið, að því einn þeirra eigin sök, að þeir hafa verið bundnir tryggð við torfuna og haldið áfram atvinnurekstri feðra sinna á meðan aðrir, sem flýðu undan örðugleikum sveitalífsins og leituðu næðisamari starfa, hafa baðað í rósum?“

Þannig hljóða þá þessar spurningar. Þær eru frá flokksmanni hv. þm. S.-Þ., og getur hann nú glímt við að svara þeim. Annars lít ég svo á, að hver einasti maður, sem fengið hefir lán úr kreppulánasjóði, eigi heimtingu á að fá að vera í friði um skuldamál sín fyrir áreitni óhlutvandra manna. Eigi því slíkt siðleysi að viðgangast, sem hv. þm. S.-Þ. hefir tekið upp gagnvart sumum þeirra manna, sem lán hafa fengið úr þessum sjóði, verður Alþingi að taka í taumana, því að menn eiga heimtingu á vernd fyrir árásum allskonar óhlutvandra manna, sem einskis svifast í því að gera öðrum lítilsvirðingu.

Hæstv. fjmrh. var í síðustu ræðu sinni að reyna að bera á móti því, eins og hv. þm. S.-Þ., að Framsfl. hefði tekið ákvörðun í gengismálinu. Ég vil því spyrja þessa góðu menn, hvenær flokkurinn ætli að taka ákvarðanir í þessu mikilvæga máli. Eða er kannske ekki búið að þreyta þolinmæði manna nógu lengi í þessu máli? Ég segi jú, og því sé langsamlega kominn tími til fyrir stjórnarflokkana að lýsa það. Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram, að hin litla hækkun, sem orðið hefir á kjötverði innanlands fyrir tilstilli stj., væri nægilega ráðstöfun í þessu efni. En því mótmæli ég, því að sú hækkun á kjöti, sem hæstv. ráðh. á við, getur alls ekki varað til þess verðmætis útfluttrar vöru, sem eðlilegt gengi myndi skapa. Ég skal svo bæta því við, sem ég sagði um gengismál Englendinga, að Danir hafa gripið til svipaðs ráðs, þeir hafa lækkað gengi dönsku krónunnar úr 1,25 niður í 1,00 kr. Sömuleiðis hafa Norðmenn lækkað gengi norsku krónunnar, enda þótt minna sé, og öll þessi gengislækkun hefir verið miðuð við það, sem atvinnuvegirnir í löndunum hafa sagt, að gengið þyrfti að vera. Á nákvæmlega sama hátt er sjálfsagt, að íslenzka þjóðin fari að. Það var hrein og bein skylda stjórnarvaldanna, að skrá gengi krónunnar rétt, eftir að búið var að gera bændurna upp í kreppulánasjóði, til þess að koma í veg fyrir að þeir sykkju í sama skuldafenið aftur.

Um kosningu mína í Vestur-Húnavatnssýslu skal ég ekki fara mörgum orðum. Það er sýnt, að öll sú afbrýðissemi, sem þjáir framsóknarmenn út af því, að ég skyldi ná kosningu þar, á rót sína að rekja til þess, að þeir hafa misst allt álit og alla tiltrú þar, eins og annarsstaðar. En vilji hæstv. fjmrh. halda því fram, að hann með kosningu sinni í Suður-Múlasýslu sé eitthvað bundinn sósialistum sökum þess, að um 90 sósíalistar munn hafa kosið hann við síðustu kosningar með hv. fl. landsk., þá má vera, að hann geti með frekari rétti talað um, að ég sé bundinn sjálfstæðismönnum vegna ímyndaðs fylgis þeirra við mig við síðustu kosningar. Annars má vel vera að til sé flokkur manna í Suður-Múlasýslu, sem gerir ekki greinarmun á sósialistum og framsóknarmönnum, og hafi þess vegna kosið sinn manninn af hvorum flokki, því að eins og kunnugt er, skilur nú orðið svo lítið á milli þeirra flokka, að ekki er beint ástæða til að ætla, að almenningur geri mun á þeim; og er slíkt ekkert undarlegt, þar sem hv. þm. S.-Þ. hefir um langt skeið unnið að ræktun sósíalismans meðal bændastéttar landsins. Honum var upphaflega falið það hlutverk að gera bændur landsins að sósíalistum, þegar hann og Ólafur Friðriksson skiptu með sér verkum um árið. Og nú er árangurinn af starfseminni að koma í ljós. Að bera á móti þessu, þýðir ekkert fyrir hv. þm., sannanirnar eru svo miklar, að þær verða ekki véfengdar.