26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

19. mál, eyðing svartbaks

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi því miður ekki heyrt allar umræðurnar frá byrjun, og veit því ekki, hvað kann að hafa verið sagt, áður en ég kom inn í deildina. En ég hefi heyrt á umræðum manna, að þá undrar að allshn. skuli hafa gert þessar brtt., og þá líka, hvernig þær eru. Ég vil nú vænta þess, að hv. þd. sjái, að allshn. stendur ekki óskipt að brtt. þessum, og höfum við 2 nm. gert fyrirvara, sem sýnir það, að við erum þó a. m. k. ekki sammála hv. meiri hl. n. í öllum atriðum. Ég veit nú ekki, hver er fyrirvari hv. 2. þm. Reykv., eða um hversu mörg atriði, en hann mun sjálfur kunna að gera grein fyrir því síðar.

Ég vil þá aðeins víkja nokkrum orðum að mínum fyrirvara og gera grein fyrir í stuttu máli, hvað fyrir mér hafi vakað.

Í höfuðatriðum er ég frv. þessu fylgjandi. Mér er vel ljóst það, sem bent hefir verið á, að svartbakurinn er vargur í varpi og gerir þar usla eigi lítinn. En hitt má engu síður telja, og er alls ekki lítið atriði, að fugl þessi veldur tjóni á sauðfénaði. Þegar vorhart er og lítil fiskiganga í vötn, þá leggst hann á lömb, og þekki ég dæmi þess, að svartbakur hefir drepið 20 unglömb á sama bæ á einu vori, og mundi það eigi þykja lítill skattur á einn bónda. Minn fyrirvari lýtur því að brtt. hv. meiri bl. n. við I. gr. frv., um að banna eitrun. Ég vil á engan hátt draga úr vorkunnsemi hv. meiri hl. gagnvart þessu dýri, en ég vil taka undir með öðrum hv. þm., að þetta dýr sparar ekki harðfylgi sitt og hirðir ekki um þær kvalir, er það skapar öðrum dýrum, þegar það veitir þeim aldurtila.

Þar sem þetta er stórvægilegt hagsmunamál, verður ekki hjá því komizt að leyfa þessa leið, þó að leiðinlegt sé, ef á að útrýma þessum fugli.

Nú er engan veginn svo, að verið sé að koma þessu ákvæði inn í lög núna, því nú þegar er slík heimild sem þessi til í lögum, og ég vil láta þá heimild standa. Það ákvæði hv. meiri hl. að banna að eyða fugli þessum um varptímann mundi valda því, ef samþ. yrði, að eyðingin yrði ekki framkvæmd, ef hún mætti ekki fara fram þann tíma, sem hún er hægust, og þegar hann gerir mest spjöll, um varptímann. Minn fyrirvari lýtur því að þessum tveimur meginatriðum, sem skipta miklu máli um afgreiðslu þessa máls. Ég vil því vona, að hv. þdm. fallist ekki á þessa brtt. hv. meðnm. minna, og ég vil ekki sæta ákúrum að ósekju mér til handa vegna þeirra brtt., sem ég hefi fyrirvara um.

Um hinar brtt. n. þarf ég ekki að fjölyrða. Um þá brtt. við 6. gr., að hún verði felld niður, held ég að vísu, að ekki sé þörf á að ákvæðið standi, en sektarákvæði þessarar gr., sem og alls frv., finnast mér allt of há. Er engin ástæða til að hafa þessar sektir eins háar og frv. tekur til. Tel ég og bezt fara á því, og er n. þar sammála, að sektir þessar renni til viðkomandi sveitarsjóðs, en ekki til uppljóstrunarmanns.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en er sannfærður um, að ef samþ. verða þessar margumdeildu brtt. hv. meiri allshn. við 1. gr., þá verður þetta frv. ekki samþ. á þessu þingi, og þá getur hvorki hv. meiri hl. allshn. eða aðrir gengið að því að eyða svartbaknum frekar en nú er gert, sem ég þó ætla, að sé allra vilji, að verði.