28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

19. mál, eyðing svartbaks

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Ég undrast, hve mikill vængjaþytur hefir orðið hér í d. út af þessu máli eða réttara sagt út af nál. allshn. Manni gæti dottið í hug, að hv. þm. lægju hér á eggjum, sem þeir óttuðust, að allshn. vildi hremma og eta.

Það eru menn, sem skilja ekki afstöðu allshn. er álíta, að hún vilji koma í veg fyrir, að svartbakurinn verði drepinn, með því að banna eitrun, en það, sem vakir fyrir allshn., er, að hún telur ósæmilegt að dreifa út slíku eitri, þar sem það mundi alveg eins granda saklausum dýrum, bæði öðrum fuglum og svo húsdýrum manna, eins og t. d. hundum. Menn ættu að muna það, að þegar eitrað var fyrir refi, þá drápust hundar manna hópum saman.

Ég veit ekki, hvernig það getur talizt sambærilegt að skjóta fuglinn eða leggja fyrir hann eitur sem getur kvalið hann dögum saman.

Ég nenni ekki að eltast við hvern einstakan þm., en það má segja hv. þm. Mýr. til hróss en hann talaði fyrstur —, að hinir 5 eða 6, sem töluðu á eftir honum, voru allir sammála og tóku allir upp eftir honum það, sem hann sagði. (ÓTh: Það hefir verið sígildur sannleikur). Hann talaði um — eins og hinir gerðu líka —, að enginn hneykslaðist á því, þó eitrað væri fyrir rottur. En munurinn er nú sá, að fyrir rottuna er eitrað innanhúss, og af því stafar engin hætta fyrir aðrar skepnur, og rottueitrið skaðar því ekki aðrar skepnur. Ég hefi nú ekki kynnzt eins náið þessum dýrum og hv. þm. Mýr., sem sagði, að eftir nána viðkynningu, sem hann hefði haft af þessum dýrum, þá hefði hann komizt að þeirri niðurstöðu, að rottan væri ógeðslegri en svartbakurinn. Það gleður mig, að þessi hv. þm. skuli hafa kynnzt þeim svo náið, því þá mun hann sjá, hve mikill munur er á að eitra fyrir rottur innanhúss eða eitra fyrir svartbak úti á víðavangi, þar sem stór hætta stafar af fyrir fleiri skepnur og ekki er hægt að varna því, að fleiri skepnur, þar á meðal ýmsir aðrir fuglar, komist í eitrið.

Læknir einn, sem ég átti tal við í morgun, sagði mér, að fugl, sem étið hefði eitur og væri síðan skotinn og matbúinn, gæti orðið hættulegur fyrir þann, sem neytti kjötsins, svo að heilsutjón eða jafnvel bani gæti af hlotizt. (PO: Þetta eru sterkar röksemdir!). Ég hugsa nú, að það muni enginn hv. þm. fást til að hengja bjölluna á köttinn eða leggja líf sitt eða heilsu í hættu til að prófa þetta með því að gerast tilraunadýr. Eflaust eru það fleiri en hæstv. dómsmrh., sem hafa skotið æðarkollu, og sem hafa étið hana, en ef æðarkollan hefði áður náð að éta eitrið sem svartbaknum er ætlað, þá gæti þetta orðið nokkuð mikil áhætta. En hv. þm. Mýr. kom með ágætt ráð, því þegar eitrað væri, þyrfti ekki annað en setja upp auglýsingu á staðnum um, að hér væri eitrað, og þá yrði engin hætta fyrir hunda eða önnur húsdýr. Ég veit nú ekki, hvað menntunin kann að vera orðin víðtæk í Mosfellssveitinni; má vera, að skólaskyldan nái þar til ýmsra húsdýra. En ég býst ekki við, að svo sé langt komið skólamálum í Dalasýslu eða Barðastrandarsýslu, jafnvel þó hv. 9. landsk. sé góður kennari fyrir börn, að hundar og önnur húsdýr séu þar orðin læs á bókmál. (Hlátur).

Ég álít, að þessi röksemdaleiðsla sé lítils virði, og ef dýrin tækju nú upp á því að læra lestur, þá býst ég við, að svartbakurinn sé ekki það heimskari en önnur dýr, að hann mundi líka læra að lesa, og mundu þá auglýsingarnar hafa litla; þýðingu og verða lítið úr þessum röksemdum hv. þm.

Því skal ég víkja að öðrum 2 þm., sem talað hafa gegn brtt. allshn., þeim hv. 9. landsk. og hv. þm. Ak. — Annar þeirra hefir síðan sagt við mig, að hann ætlaðist alls ekki til, að viðhöfð yrði eitrun, þó að sér fyndist óþarft að setja bann við því í lögin. Og hv. 9. landsk. sagði í gær, að í frv. væri alls ekki gengið út frá því, að eitrun yrði notuð. En í dag segir hann, að það sé fávíslegt af þm., ef þeir ætli að láta tilfinningarnar ráða, svo að bannað verði að nota þá aðferð, sem sé heppilegri og öruggari, ef þörf krefst; hann var þá búinn að gleyma því, sem hann sagði í gær. Mér er nú spurn, ef þessi hv. þm. álítur ekki rétt að eitra fyrir svartbakinn, hvers vegna er hann þá á móti því, að sett sé ákvæði í lögin, sem banni eitrun? Ég sé ekki neina skynsamlega ástæðu til þess, ef hv. þm. er því mótfallinn, að þessi aðferð sé notuð.

Í fyrra, þegar svipað frv. var borið fram hér á Alþingi, þá er tekið fram, að eitra mætti fyrir fuglinn. Þá varð flm., og þeir, sem að þessu frv. stóðu, varir við, að þm. höfðu andstyggð á þessu ákvæði. Þess vegna var tekin sú leið að lauma inn í frv. heimild til ráðh. að leyfa eitrun, ef sýslunefndir settu það í samþykktir. Þeir gátu ekki lengur farið beina leið, heldur varð að fara krókaleið, er þeir fundu mótvilja þm. gegn þessu ákvæði. Ég vona því, að þm. verði sammála allshn. um að banna eitrun, svo að óvandaður ráðh. geti ekki eftir till. ennþá óvandaðri sýslunefndar sett slíkt ákvæði inn í samþykktir.

Hv. 9. landsk. sagði, að bændur vissu allvel, hvernig bæri að haga sér með eitrunina, svo að engin hætta væri á, að hundar þeirra dræpust; ég hefi bent á, að þetta er ekkert einsdæmi, þar sem hundar hafa drepizt af því eitrað var fyrir refi og þeir náðu í eitrið.

Þá talaði hann um, að jarðir myndu leggjast í auðn, ef þetta yrði samþ. eftir brtt. allshn. Þetta er nú vitanlega ekkert annað en slagorð, sem þessi hv. þm. er ávallt vel birgur af, og bregður því ekki mær vana sínum.

Allir voru þessir hv. þm. andmælendur allshn. sammála um, að með brtt. væri verið að friða svartbakinn, eins og hún væri orðuð. Eg skal fyrir mitt leyti — og ég hygg, að svo sé um meiri hl. allshn. — fallast á brtt. hv. þm. þm. Reykv., um að fuglinn verði ekki friðaður um varptímann, en ég get ekki fallizt á annað en banna eitrunina.

Það má segja um hv. þm. A.-Húnv., að hann kom þó fram með eitt nýtt. Mér skildist á hon,um, að hann þekkti persónulega einn svartbak — eða hefði af honum álíka náin kynni og hv. þm. Mýr. — og að þessi svartbakur hefði drepið eina æðarkollu, einn lax, eitt lamb, einn silung og 2000 æðarunga. Hann vildi líka slá tvær flugur í einu höggi með frv. þessu, því hann vildi láta drepa hrafninn líka, en guð hefnir fyrir hrafninn, og ekki mun ég fyrir mitt leyti gefa atkv. mitt til samþykktar lögum með þeim tilgangi að útrýma hrafninum með eitri.

Þessir hv. þm. mega allir fyrir mér ráða sig fyrir svartbaksskyttur og taka fyrir há laun úr ríkissjóði. — En hv. þm. verða að skilja það, að allshn. er ekki á móti því, að svartbakurinn verði skotinn, heldur vill hún ekki að fuglinn flækist um veikur af eitri og hálfdauður í marga daga, áður en hann drepst, og um leið sé bakað tjón og hætta öðrum dýrum, og þar á meðal æðarfuglinum, sem þessir hv. þm. þykjast bera mjög fyrir brjósti.

Ég nenni svo ekki að eltast frekar við ræður hv. þm., en út af ummælum hæstv. fjmrh., að á bæjarskrifstofunum væri fjöldi manna með rottuskott, þá gerði ég mér ferð í morgun upp á skrifstofurnar og sá þar ekki einn einasta mann með skott. (Hlátur).

En ég skildi nú, hvað hæstv. ráðh. átti við, hann vildi losna við að borga 20 aura fyrir hvert svartbaksnef, og forða mönnum frá því að drepa svartbakinn með því að telja þeim trú um, að fyrir þeim mundi fara eins og banamönnum rottunnar, en þeir gengju allir með rottuskott.