20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

18. mál, útsvör

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi skrifað undir þetta mál með fyrirvara. Minn fyrirvari er ekki í því fólginn, að ég geti ekki fallizt á þessa breyt. sem farið er fram á að gera á útsvarsl., bæði að því, er snertir frv. sjálft eins og það nú er hér flutt, og einnig þá brtt., sem allshn. nú flytur við frv. Á þetta atriði get ég einmitt fallizt.

Minn fyrirvari er út af aðstöðu n. til brtt. hv. þm. Mýr. Það er eins og hv. frsm. skýrði frá, að að vísu er ekki bein ákvörðun tekin gegn þessari till. í n., en meiri hl. n. vildi þó ekki á það fallast að mæla með henni. En ég get lýst yfir, að ég er einmitt þessari brtt. fylgjandi. Ég get að vísu viðurkennt, að það hefði verið æskilegra, ef þetta ákvæði hefði komið inn í þá löggjöf, sem ákvarðar, hvernig beri að haga þessum gjöldum, t. d. fasteignagjöldum til sýsluvegasjóða. En fyrir svona smávægileg atriði eigum við þess ekki kost að gera þessa breyt. á þeim l. Mér finnst það of lítilvægt að fara að hreyfa við þeirri löggjöf aðeins út af þessu einu. Hinsvegar á þessi breyt. fullkomlega rétt á sér. Það er allt of mikið úr því gert hjá hv. frsm., að þessi gjöld, sem af slíkum fasteignum stafa, muni vera létt. Því að þar sem eru komin heil hverfi af byggingum í sama sveitarfélaginu, sem kaupstaðarbúar eiga, — sem ég er síður en svo að amast við á neinn hátt, — þá dregur eitt sveitarfélag allverulega um að greiða fasteignagjald af þessu hverfi, sem því hér um bil að engu leyti kemur neitt við. Þetta hækkar opinberu gjöldin hjá viðkomandi sveitarfélagi, svo að tilfinnanlegt getur orðið. Því að það er sú stefna uppi, sem ég tel mjög æskilega að mörgu leyti, að bæjarbúar byggi sér hús til sveita til dvalar að sumarlagi með fjölskyldu sinni. — En brtt. hv. þm. Mýr. er þannig stillt í hóf, að eftir orðalagi hennar er ekki leyfilegt að leggja útsvar á þessar fasteignir umfram það, sem beinlínis nemur þessum gjöldum, sem eru bundin í opinberar þarfir.

Það kveður sennilega mest að þessum byggingum í tveimur sveitum hér í grennd, Mosfellssveit og Ölfusi í Árnessýslu. Í Ölfusinu er komið upp heilt hverfi af byggingum, og þessi hreppsfélög dregur það ekki óverulega að þurfa að standa straum af þessum gjöldum. En ég er alveg sannfærður um, að eigendur þessara bygginga telja þau ekki eftir sér.

Ég vil á engan hátt fara út í meting um þá hagsmuni, sem sveitamenn kunna að hafa af því, að þessir menn dvelji að sumarlagi uppi í sveit, og fara að reikna út, hvern hagnað sveitamenn kunna af því að hljóta. Ég hygg, að það kunni að vera áhöld um það og þann hagnað, sem kaupstaðarbúar hafa af því að dvelja í sveit að sumarlagi, því þó að þeir borgi meira fyrir nauðsynjar þær, sem þeir fá hjá sveitamönnum, heldur en sveitamenn annars myndu fá fyrir þær, þá hygg ég samt, að þeir fái þær alltaf við vægara verði en þær kosta í kaupstöðunum, svo að þeir hafi vinning af þessu, og er síður en svo, að ég telji það eftir, og vil ég, að í þessu efni fari enginn metingur fram. En ég minnist sérstaklega á þetta af því að hv. 8. landsk. vék lítillega að þessu í framsögu sinni.

Ég vil því beina því til hv. dm., að þeir fallist á brtt. hv. þm. Mýr. Hún á rétt á sér, og ég er sannfærður um, að enginn góður drengur telur það eftir sér, að greiða þetta litla gjald. Það er lítið hjá hverjum einstaklingi, en það safnast, þegar saman kemur, og það getur verið tilfinnanlegt fyrir fátæk sveitarfélög að þurfa að standa straum af þeim.