20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

18. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Ég vil þakka hv. allshn. fyrir það, að hún hefir mælt með þessari sjálfsögðu breyt. á útsvarslögunum sem við flm. fórum fram á með því að flytja þetta frv. Þær eru allar sjálfsagðar og nauðsynlegur og þurfa að komast fram, hvað sem annars liður breyt. á útsvarslögunum, sem ég geri ráð fyrir, að verði óhjákvæmilegar, ef hér á þinginu verða samþ. einhver l. um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Þessar breyt. raska ekki grundvellinum, sem er undir útsvörunum.

Hv. þm. Mýr. hefir komið með brtt. á þskj. 104, og hefir sú brtt. valdið ágreiningi. Út af henni vil ég benda á það, að mér skilst, að hann hafi með till. farið út fyrir það, sem hann ætlaði sér með henni. Hann ætlar sér að ná í sumarbústaðina, en í till. segir hann: „Ef hann á sérstaka húseign, svo sem sumarbústað.“ En þar getur verið um aðrar húseignir að ræða, sem eru leigðar út og aðrir búa í, en ég efast ekki um, að hann ætlast ekki til þess, að þær komi hér til greina, því til þeirra er hægt að ná með þeim grundvelli, sem hingað til hefir verið farið eftir. Þess vegna held ég, að það sé hægt að ná því, sem hv. þm. Mýr. vill ná, með því að breyta till. nokkuð og setja í staðinn fyrir það, sem nú er: Ef hann á sérstakan sumarbústað. Það er ekki meiningin með till. að ná öðru en þessu. — En það, hvort nauðsynlegt er að leyfa sveitarstjórnum að ná útsvari af eigendum sumarbústaða, hygg ég, að sjáist bezt með því að taka Ölfushrepp og athuga hann. Hv. 1. þm. Árn. minntist áðan á hann. Húseignir allar í hreppnum eru um 4700 hundraða. og af því eru sumarbústaðir 1600 hundraða, eða hér um bil 1/3. Sýslusjóðsgjaldinu er jafnað niður á hreppa sýslunnar að 1/3 hluta eftir fasteignum, og þess vegna fer þarna 1/3 þess hluta af sýslusjóðsgjaldinu sem lagt er á eftir fasteignamati húsanna, hækkandi vegna þessara 1600 hundraða í sumarbústöðum, sem eru þar. Það hækkar, og sú hækkun nemur 13 af húseignunum. Það er þess vegna kringum? 1/9 hluti af öllu sýslusjóðsgjaldinu, sem liggur á eignum, sem hreppurinn á ekki, og eru þessar eignir aldrei notaðar, nema þennan stutta tíma að sumrinu. En mér finnst að það þurfi að breyta till. hv. þm. Mýr., svo að hún nái einungis til sumarbústaðanna, því það er réttlátt að leggja á þá. Það er ástæðulaust að láta, eins og nú er, bæði sýslusjóðsgjald og sýsluvegagjald, sem að nokkru leyti hvílir hvorttveggja á fasteignum og sveitarbúar verða að jafna niður á alla í sveitinni, hækka eins og nú er, án þess að þeir geti á neinn hátt náð því frá þeim sem í raun og veru eiga eignirnar, sem gjaldinu er jafnað niður eftir. Ég held, að hv. þm. Mýr. ætti að breyta upphafinu á till. og einskorða hana við sumarbústaðina. Með því nær hann því, sem hann vill ná, og með því er ekki farið inn á það svið sem aðrir vilja hafa friðhelgað.