20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

18. mál, útsvör

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Ég skal ekki tala lengi. Það er eðlilegt, að hv. þm. Borgf. þyrfti að flytja, snarpa ræðu, þar sem búið var að hrekja fyrri ræðu hans lið fyrir lið. — Ég skal ekkert um það segja, hvort ég sé útblásinn af Siglufjarðarútsvaranda, en hv. þm. hefir dregið þá ályktun út frá sjálfum sér, þar sem hann er haldin af Akranesútsvarsanda. En það vita allir, að hans afstaða í þessu máli takmarkast og einskorðast við það, sem hann álítur heppilegast fyrir Akranes. Læt ég hv. þdm. dæma um það, hvort það muni heppilegt að láta skoðanir sínar takmarkast svo við lítið svæði.

Ég vil segja það, að mér finnst gleðilegt, að Siglufjarðarandinn hefir náð vítt yfir og rutt sér til rúms. Siglfirðingar álíta, að breyta þurfi útsvarslögunum; ég álít það líka, og þingheimur álítur, að þess sé þörf. Ég skal ekki deila um, hvað almenningur í öðrum hreppsfélögum álítur, en hv. þm. las upp þáltill. þá, er samþ. var á þingi í fyrra, Og hún er á þá leið, að n. beri að athuga og gera till. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. Nú er vitað, að einn aðaltekjustofn bæjar- og sveitarfélaga er einmitt útsvörin, og útsvarslögin eru sá rammi innan löggjafarinnar, sem fellur um þennan tekjustofn. Það er því vitanlega útilokað, að hægt sé að samþ. þáltill. án þess um leið að slá því föstu, að breyta skuli útsvarslögunum. Jafnvel þó að gert sé ráð fyrir nýjum tekjustofnum, þarf að breyta útsvarslögunum í samræmi við það auk þess er vel hægt að hugsa sér þann möguleik, að engir tekjustofnar yrðu til nema útsvörin, og þá var sjálfsagt að breyta l. þar um, eins og n. taldi heppilegast. Þess vegna er það ákaflega mikill misskilningur og ég fæ ekki skilið, hvernig jafnskynsamur maður og hv. þm. Borgf. fer að blanda þessu saman; mig furðar á því um jafngreindan mann.

Það hefir komið fram hjá n., að hún skilur þetta greinilega, að verkefnin voru tvenn, en henni vannst ekki tími til að afgr. þau bæði. Á því áliti byggði allshn. álit sitt, og það er misskilningur, að allshn. álíti, að n. sé búin að ljúka störfum. (PO: Hún segist ekki taka þau til athugunar). Hvað segir nál.? Það telur, að taka þurfi útsvarsl. til gagngerðra breyt., og færir það sem ástæðu fyrir, að því verki sé ekki lokið. Þetta telur allshn. rétt, en vill ekki gera þetta sjálf, heldur telur, að hinn eigi að taka þetta til athugunar; í því er ekkert ósamræmi, heldur samræmi, þar sem það er eðlilegt, að sú n., er um þetta hefir fjalað, safnað skýrslum og gögnum og þekkir þetta út og inn, taki við þessu máli til undirbúnings, en ekki allshn., sem hefir nægum öðrum störfum að sinna. Að öðru leyti hefi ég ekki meira að segja. (PO: Mþn. segist vera búin að ljúka störfum). Ekki sést það á grg.